17.03.1988
Sameinað þing: 61. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 5856 í B-deild Alþingistíðinda. (3965)

332. mál, Kolbeinsey

Fyrirspyrjandi (Stefán Guðmundsson):

Herra forseti. Ég leyfi mér að bera fram fsp. á þskj. 661 til hæstv. samgrh. um Kolbeinsey, en fsp. er í þremur liðum:

„1. Hverjar voru helstu niðurstöður úr rannsóknarferð sem farin var til Kolbeinseyjar í ágústmánuði 1985 skv. þál. frá Alþingi 20. apríl 1982?

2. Eru á döfinni einhverjar framkvæmdir á Kolbeinsey m.a. til að auka öryggi sjófarenda, svo sem með uppsetningu siglingamerkja og búnaðar til veðurathugana?

3. Hverjar voru helstu niðurstöður úr rannsóknarferð til Kolbeinseyjar sl. sumar undir stjórn Hafrannsóknastofnunar, BBC-útvarpsstöðvarinnar og hafrannsóknastofnunar í Bandaríkjunum þar sem hitasvæði í næsta nágrenni eyjarinnar voru rannsökuð?"

Árið 1982 samþykkti Alþingi eins og fyrr segir þáltill. sem ég flutti þá og var þannig, með leyfi hæstv. forseta:

„Alþingi ályktar að fela ríkisstjórninni að sjá svo um að sjómerki verði sett upp sem allra fyrst á Kolbeinsey. Athuganir fari einnig fram á því hvort og á hvern hátt megi sem best tryggja að eyjan standist heljaröfl stórviðra og ísa.“

Árið 1985 bar ég fram fsp. um hvað liði framkvæmd samþykktarinnar frá árinu 1982 og nú er ég kominn hér enn og aftur og nú spyr ég hæstv. ráðherra og ég kalla hér eftir svari og ég kalla kannski enn frekar eftir framkvæmdum.

Það er nokkuð um liðið síðan þessi tillaga var á dagskrá og þess vegna langar mig í örfáum atriðum að stikla á því stærsta sem sagði í grg. En megintilgangur þessarar þáltill. var að auka öryggi sjófarenda jafnframt því sem verið var að athuga hvort koma megi í veg fyrir að eyjan hverfi í sæ.

Á Kolbeinsey sannast að dropinn holar steininn. Heljaröfl hafs og hafíss hafa í áranna rás haft betur í fangbrögðum sínum við þennan útvörð í norðrinu. Ef svo heldur fram sem horfir hverfur þessi klettaeyja og skerið eitt verður eftir ef ekki verður brugðið við og reynt að koma í veg fyrir óbætanlegt tjón.

Elstu mælingar frá Kolbeinsey sem ég hef undir höndum eru frá árinu 1580 og sýna okkur að eyjan mun þá hafa verið 753 metrar frá norðri til suðurs,

113 metrar frá austri til vesturs og um 113 metrar á hæð. Nýjustu mælingar frá 1986 sýna okkur hins vegar að eyjan frá norðri til suðurs er um 39–40 metrar og svipað frá austri til vesturs og um 5 metrar á hæð. (Forseti: Hv. þm. skal bent á að hann hefur farið óhæfilega fram úr leyfilegum ræðutíma.) Já, en ég vona að forseti virði það að hér er verið að hreyfa mjög mikilsverðu og merku máli sem ég vænti að þm. láti ekki fram hjá sér fara því það er ekki bara hér verið að fjalla um að koma upp öryggisbúnaði fyrir sjófarendur heldur erum við hér að berjast fyrir auknum rétti okkar á hafinu því að Kolbeinsey gefur okkur þar mikinn rétt sem mér finnst ábyrgðarhluti að horfa upp á að við missum frá okkur.