17.03.1988
Sameinað þing: 61. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 5858 í B-deild Alþingistíðinda. (3968)

332. mál, Kolbeinsey

Steingrímur J. Sigfússon:

Herra forseti. Það fer mjög vel á því að það komi í hlut hv. þm. Framsfl. að hafa áhyggjur af þessum kletti úr hafinu sem rís þarna norðan við landið og er tekið að molna allverulega úr. Kunna það að vera viss hugrenningatengsl sem valda því að þetta mál er hv. þm. jafnkært og raun ber vitni.

Ég lýsi þeirri skoðun minni að það sé mjög brýnt að grípa til aðgerða á Kolbeinsey og vil út af fyrir sig þakka hv. fyrirspyrjanda að taka það mál upp endurtekið á Alþingi. Ég held hins vegar að menn séu á talsverðum villigötum þegar menn láta sér detta það í hug að steypa einhverja kápu utan um eyjuna. Það eina sem mér kemur til hugar að gæti staðist tímans tönn er að reisa þyrlupall eða öflugan steinsteyptan pall á sterkum súlum sem gengju nægilega langt ofan í trausta undirstöðu eyjarinnar til þess að fá staðist þó að molni úr yfirborði hennar og hún jafnvel sem slík hverfi undir sjávarborð. Slíkur öflugur pallur gæti síðan hýst vita- og radarsvara og væri þá sá útvörður í norðri sem við þurfum vissulega að eiga á þessum stað, m.a. til að tryggja okkar landhelgishagsmuni á þessum slóðum.