17.03.1988
Sameinað þing: 61. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 5859 í B-deild Alþingistíðinda. (3969)

332. mál, Kolbeinsey

Fyrirspyrjandi (Stefán Guðmundsson):

Herra forseti. Ég þakka hæstv. samgrh. fyrir upplýsingar sem hann gaf hér. Mér er ljóst og hefur alla tíð verið að það getur verið álitamál og trúlega kannski erfitt að bjarga þessari klettaey. Mér er það ljóst og ég hef aldrei farið fram á að eyjan yrði steypt upp, en það sem ég hef farið fram á er að athugun verði gerð á slíku og það held ég að okkur beri skylda til að láta gera. Svo verða hinir hæfustu vísindamenn hins vegar að kveða upp úr með hvort það er hægt eða ekki. Þess vegna fer ég ekki að svara á annars stuttum tíma skætingi hv. þm. úr nágrannabyggð minni austan Tröllaskaga og formanns þingflokks Alþb. Það ætla ég þó að segja að undirstöður Kolbeinseyjar eru traustari en undirstöður hans flokks. Það er óhætt að fullyrða.

En fyrir mér vakir fyrst og fremst að við aukum og treystum rétt okkar á hafinu. Þessi eyja gefur okkur mikinn rétt á hafinu og ef við getum ekki bjargað eyjunni sjálfri eigum við strax að koma þar upp mannvirkjum til þess að við getum sýnt þeim þjóðum, sem ekki hafa viljað viðurkenna Kolbeinsey sem grunnlínupunkt, að við séum þar með mannvirki sem við önnumst og lítum eftir. Þess vegna fagna ég því að menn skuli ætla sér að setja þar upp sjómerki, en hins vegar kemur mér mjög á óvart ef menn halda að það sé eitthvað úti í fjarskanum að setja upp veðurathugunarstöð í Kolbeinsey og þangað þurfi menn að fara nokkurn veginn daglega eða kannski oft á dag til að lesa af mælum. Slíkt er ekkert inni í myndinni og það er enginn að tala um slíkt. Við erum komin með búnað í dag sem t.d. Landsvirkjun notar uppi á öræfum. Við erum að tala um tækni sem sendir merkjasendingar til höfuðstöðvanna í landi og menn síðan lesa úr og gefa miklar upplýsingar. Þetta styrkir okkur enn í stöðunni til að bjarga þessari eyju.

En það er áhugi víðar en á Alþingi fyrir þessu. Svíar komu hér á sínum tíma. Fréttamenn frá Dagens nyheter flugu út í Kolbeinsey og heiðruðu okkur með því að láta okkur hafa forsíðu þess blaðs og eina opnu þegar þeir voru að fjalla um Kolbeinsey og hvað við værum að gera til að reyna að bjarga þessum grunnlínupunkti. Það voru hér eins og ég sagði áðan vísindamenn frá Bandaríkjunum og einnig frá bresku útvarpsstöðinni BBC. Næsta sumar eru Þjóðverjar að senda eitt af sínum stóru rannsóknarskipum til Íslands til frekari rannsóknar í Kolbeinsey. Ég hvet hæstv. ráðherra til að sjá til þess að íslenskir vísindamenn fái það fjármagn sem þeir þurfa til að geta verið virkir þátttakendur í þeirri rannsóknarferð.