17.03.1988
Sameinað þing: 61. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 5863 í B-deild Alþingistíðinda. (3976)

342. mál, ný löggjöf um háskóla

Danfríður Skarphéðinsdóttir:

Herra forseti. Ég þakka fyrirspyrjanda fyrir að bera fram þessa fsp. því að ég tel löngu tímabært að opna og efla umræðuna um nám á því skólastigi sem við tekur að framhaldsskólastiginu loknu. En í umræðunni sem fram hefur farið að undanförnu og þá sérstaklega í hv. menntmn. Ed. hefur þráfaldlega komið fram nauðsyn þess að nám á svokölluðum æðri skólastigum verði skilgreint og skipulagt og komið verði á sérstökum námsbrautum fyrir þá nemendur sem ekki hafa hug á háskólanámi í hefðbundnum skilningi þess orðs. Ég ætla að skora á hæstv. menntmrh., eins og ég reyndar gerði í gær, að taka á málefnum háskólastigsins eða þessa æðra skólastigs, eins og hann hefur reyndar getið um að í bígerð sé, þannig að Alþingi þurfi ekki að vera að afgreiða lög um stofnanir sem fyrir löngu hafa verið settar á stofn.