17.03.1988
Sameinað þing: 61. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 5863 í B-deild Alþingistíðinda. (3977)

342. mál, ný löggjöf um háskóla

Halldór Blöndal:

Herra forseti. Það var greinilegt að hv. fyrirspyrjanda var mikið niðri fyrir og er raunar næsta furðulegt að maður sem talar í þessum anda um það merka starf sem nú er verið að vinna við Háskólann á Akureyri skuli vera kennari við Háskóla Íslands. Það eykur sannarlega ekki hróður þeirrar stofnunar, sem hann vinnur við, og ef þessi maður vill kenna sig við það að vera akademískur í hugsunarhætti og þykist hafa allar þær dyggðir sem slíka menn mega prýða yrði hann maður að meiri ef hann kæmi aftur upp í stólinn og bæðist afsökunar á þeim ummælum sínum að líkja háskólastarfinu á Akureyri við refabú og annað álíka smekklegt. Má raunar segja þegar maður horfir á hv. þm. að hann minni kannski fremur á mink en ref, en a.m.k. er ég þess fullviss að loðdýrakyns er hann þegar hann mælir þau orð sem hann sagði í stólnum áðan.