17.03.1988
Sameinað þing: 61. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 5864 í B-deild Alþingistíðinda. (3978)

342. mál, ný löggjöf um háskóla

Fyrirspyrjandi (Jón Bragi Bjarnason):

Herra forseti. Ég harma að sá sem mælti áðan, hv. 2. þm. Norðurl. e., skuli taka svona í málið þegar ég vara við að rasa þannig um ráð fram að keyra í gegn stofnun á háskóla, Háskólinn á Akureyri heitir hann, án þess að þingið viti hvað er að gerast. Þetta minnir á það offors þegar Krafla var sett á laggirnar, að sérstakir áhugamenn um slíka hluti keyrðu málin í gegn áður en fullkannað var hver þörfin væri fyrir slíka stofnun.

Ég ber fulla virðingu fyrir því fólki sem starfar við Háskólann á Akureyri núna, ef ég mætti nefna stofnunina því nafni, og ég veit að því fólki gengur gott eitt til. Þess vegna vona ég að því gangi vel í þess starfi. En við skulum ekki rugla saman háskóla og öðrum fræðslustofnunum.