17.03.1988
Sameinað þing: 61. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 5865 í B-deild Alþingistíðinda. (3981)

343. mál, vísindastefna

Fyrirspyrjandi (Jón Bragi Bjarnason):

Herra forseti. Auglýst er eftir vísindastefnu. Mér vitanlega hefur þessi ríkisstjórn ekki markað heildstæða vísindastefnu né nokkur fyrri ríkisstjórn Íslands.

Að vísu eru til núna lög um Vísindaráð og Vísindasjóð. Það eru einnig til lög um Rannsóknaráð og Rannsóknasjóð. Stofnun Rannsóknasjóðs fyrir fjórum árum var merkilegur áfangi í vísindastarfsemi á Íslandi og ber vissulega að fagna. Sjóðurinn hafði þá 50 millj. kr. til úthlutunar, en nú hefur hann 70 millj. og hefur því rýrnað nokkuð að raungildi, því miður. Þessi lög um Vísindaráð og Rannsóknaráð mynda þann ramma sem vísindastarfsemin í landinu á að vinna innan.

Hins vegar skortir töluvert á það eldsneyti sem starfsemin á að ganga fyrir. Það vantar þá liti sem við viljum mála með það málverk sem í þessum ramma á að vera. Þess vegna leyfi ég mér að spyrja hæstv. menntmrh.: „Hver er vísindastefna ríkisstjórnarinnar og hvenær ætlar hún að ná svipuðum markmiðum og nágrannalöndin um framlög til rannsókna sem hlutfall af þjóðartekjum?"