17.03.1988
Sameinað þing: 61. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 5867 í B-deild Alþingistíðinda. (3984)

344. mál, stofnun smáfyrirtækja

Iðnaðarráðherra (Friðrik Sophusson):

Herra forseti. Sem svar við fsp. sérstaks áhugamanns um velferð hæstv. ríkisstjórnar vil ég fyrst nefna framlag ríkisins til Rannsóknasjóðs sem settur var á laggirnar árið 1985. Framlag ríkissjóðs í hann er 70 millj. kr. í ár eins og fram hefur komið í umræðum fyrr í dag. Rannsóknasjóður hefur sett upp forgangs- og matsreglur sem hafðar eru til hliðsjónar við úthlutun. Sérstök áhersla er nú lögð á verkefni á sviðum efnistækni, fiskeldis, upplýsinga- og tölvutækni, líf- og lífefnatækni, nýtingar orku til nýrrar eða bættrar framleiðslu, matvælatækni, framleiðni- og gæðaaukandi tækni. Mat á verkefnum, sem sótt er um styrk til, er byggt á í fyrsta lagi líklegri gagnsemi verkefnis, í öðru lagi gildi fyrir eflingu tækniþekkingar eða þróunar atvinnugreina, í þriðja lagi möguleikum á hagnýtingu á niðurstöðum hér á landi, í fjórða lagi hæfni rannsóknarmanna sem eru umsækjendur og í fimmta lagi líkindum á árangri.

Árið 1987 voru einstaklingar og fyrirtæki styrkþegar eða þátttakendur með öðrum í 30 styrkjum af 42 með 57% fjármagnsins, en hrein stofnunarverkefni eru 12 með 43% fjármagnsins. Af heildarkostnaði þessara verkefna leggur Rannsóknasjóður fram 53% fjárins, en mótframlag annarra er 47%. Þetta þýðir að 127 millj. hafa gengið til þessara verkefna á árinu 1987.

Rannsóknasjóður hefur þannig verulega komið til móts við þörf fyrir fé til rannsóknar- og þróunarverkefna í nýjum tæknigreinum og leitt til nánari samvinnu stofnana og einkaaðila um þróunarverkefni á nýjum tæknisviðum. Með þessum hætti hefur rannsóknasjóðurinn ýtt undir stofnun smáfyrirtækja í þessum greinum.

Vöruþróunar- og markaðsdeild Iðnlánasjóðs hefur lánað til þróunarverkefna. Eitt af þeim verkefnum sem sjóðurinn hefur styrkt er vöruþróunarátak Iðntæknistofnunar. Ríkið hefur lagt fram fé til þessa verkefnis og vöruþróunar- og markaðsdeild Iðnlánasjóðs hefur lagt fram nokkurt fé á móti.

Hjá Iðntæknistofnun hefur verið unnið mikið rannsóknar- og þróunarstarf. Eins og hv. fyrirspyrjanda er kunnugt hefur Iðntæknistofnun undanfarin þrjú ár verið þátttakandi í umfangsmiklu líftækniverkefni ásamt þremur öðrum stofnunum. Ákveðið hefur verið að stofna hlutafélag á grundvelli niðurstaðna þessa verkefnis og hefur verið leitað til atvinnulífsins um þátttöku í hlutafélaginu. Þróunarverkefnið er nú komið á það stig að unnt er að setja af stað rekstur byggðan á þeim hugmyndum og verkefnum sem þar hefur verið unnið að á sl. þremur árum. Skv. lögum stofnunarinnar er henni heimilt að gerast hluthafi í rannsóknar- og þróunarfyrirtækjum að fengnu samþykki stjórnar og iðnrh. Ég hef fyrir mitt leyti samþykkt að Iðntæknistofnun Íslands kaupi hlutafé fyrir allt að 800 þús. kr. í þessu fyrirtæki.

Enda þótt mikilvægt sé að ný fyrirtæki verði til, m.a. í þeim greinum sem fyrirspyrjandi nefnir og nefnd eru í starfsáætlun ríkisstjórnarinnar, er margt sem bendir til þess að þar sé ekki síður vænlegt til árangurs að örva nýsköpun í starfandi fyrirtækjum. Í því sambandi vil ég nefna hugsanlega þátttöku íslenskra fyrirtækja við endurnýjun ratsjárkerfis Atlantshafsbandalagsins hér á landi. Verkið er boðið út í öllum aðildarlöndum Atlantshafsbandalagsins og í byrjun ársins 1989 er áætlað að búið verði að semja við eitthvert erlent stórfyrirtæki um að vera aðalverktaki. Íslenskir aðilar eiga því að þessu leyti sömu möguleika á að vinna að verkinu eins og aðrir, en vegna þess hve verkið er stórt og sérhæft er ekki um það að ræða að íslensk fyrirtæki komi til greina sem aðalverktakar. Hins vegar eru margir verktakar þess eðlis að þeir henta vel íslenskum fyrirtækjum í rafeindaiðnaði. Þátttaka íslenskra fyrirtækja verður því án efa til þess að stórefla færni og þekkingu á rafeinda- og tölvusviði og getur þannig orðið mikil lyftistöng fyrir slíka starfsemi í landinu. Þróunarfélagið hf. hefur með starfi sínu liðkað til við stofnun og starfsemi fyrirtækja m.a. í hátæknigreinum. Nefna má að eftir fjárhagslega endurskipulagningu Marels hf. keypti Þróunarfélagið 40% af hlutafé, en það voru 20 millj. kr. Enn fremur hefur félagið lánað einum aðila vegna útflutnings á hugviti 2 millj. kr. Til líftækniiðnaðar hefur Þróunarfélagið lánað 23 millj. kr. og nú er félagið með í athugun þátttöku í tveimur verkefnum í þessum greinum.

Með breyttum lögum um Iðnþróunarsjóð frá árinu 1986 hafa opnast möguleikar til að útvíkka verksvið sjóðsins. Fyrirtæki í þessum greinum, sem um ræðir í fsp., eiga að uppfylltum ákveðnum skilyrðum aðgang að lánsfé frá sjóðnum.

Ný tækni í iðnaði er heiti á samstarfsverkefni Iðnþróunarsjóðs og Iðntæknistofnunar Íslands. Markmið þessa verkefnis er að stuðla að aukinni framleiðni í hefðbundnum iðnaði með notkun nýrrar tækni og að aðstoða fyrirtæki við að auka sjálfvirkni í íslensku atvinnulífi sem á að leiða til aukinnar framleiðni. Hagsmunaaðilar verkefnisins eru rafeindaiðnaðarfyrirtæki og fyrirtæki í framleiðsluiðnaði.

Iðnþróunarsjóður hefur ákveðið að verja 10 millj. kr. á næstu tveimur árum til áframhaldandi aðgerða á þessu sviði. Mun sjóðurinn veita fyrirtækjum styrk er nemur 50% af áætluðum kostnaði við kerfisgreiningu, kerfislýsingar og gerð útboðsgagna, samanburð og mat tilboða, verkeftirlit með uppsetningu, innkeyrslu og þjálfun. Auk þessa má nefna lánastarfsemi Byggðastofnunar og Framkvæmdasjóðs.

Ætla má, herra forseti, að aðgerðir ríkisins og framlög, sem hér hefur verið greint frá, stuðli ásamt öðru að stofnun og starfsemi smáfyrirtækja á sviði fjarskipta- og upplýsingatækni sem byggist á hugviti og markaðsþekkingu fyrirtækja á sviði nýrrar tækni, t.d. líf- og rafeindatækni, og hagnýtingar slíkrar tækni í hefðbundnum atvinnugreinum svo sem boðað er í starfsáætlun ríkisstjórnarinnar.