17.03.1988
Sameinað þing: 61. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 5870 í B-deild Alþingistíðinda. (3987)

344. mál, stofnun smáfyrirtækja

Iðnaðarráðherra (Friðrik Sophusson):

Herra forseti. Ég vil þakka hv. fyrirspyrjanda hans ræðu. Hér áttu sér stað mistök en skipta ekki máli því ég held að við séum sammála, ég og hv. fyrirspyrjandi, um þessi mál. Ég vil beina því til hans sem sérstaks áhugamanns um velferð þessarar ríkisstjórnar hvort hann vilji ekki vera svo góður að flytja þetta mál við hæstv. fjmrh., það mun ekki standa á mér að styðja aukna fjármuni til Rannsóknasjóðsins og ég veit að hv. þm. ber hag þess sjóðs fyrir brjósti.

Í öðru lagi vil ég þakka hv. þm. það að minnast á Iðntæknistofnun Íslands. Í því sambandi vil ég geta þess að ég hef skipað nefnd þriggja þm. þeirra Ólafs G. Einarssonar, Páls Péturssonar og Sighvats Björgvinssonar, og beðið þá um að fara ofan í saumana á fjárhagsstöðu Iðntæknistofnunar og gera tillögur um það hvernig því verði best komið til leiðar að gera þá stofnun sjálfstæða. Ég vil enn fremur minna á að núv. hæstv. ríkisstjórn hefur ýmislegt gert til þess að létta undir með fyrirtækjum t.d. með tollalögum, með því að stefna að því að virðisaukaskattur verði tekinn upp og með því að jafna aðstöðu á milli einstakra atvinnugreina. Allt þetta ætti að liðka til fyrir stofnun smáfyrirtækja. Þá er mikilvægt að auka eigið fé í fyrirtækjum og auðvelda fólki að leggja sparifé sitt í atvinnurekstur, en leið til þess er að koma á hlutabréfamarkaði en jafnframt verður að samræma skattlagningu sparifjár og hætta að gera greinarmun á því hvort sparnaður er í formi hlutafjár eða sem inneign í banka eða spariskírteini.

Eitt mesta hagsmunamál alls atvinnurekstrar, hvort sem um er að ræða ný eða gömul fyrirtæki og hvort sem þau starfa að líftækni eða trésmíði, er stöðugt verðlag. Það hefur verið helsta verkefni margra ríkisstjórna að ná tökum á verðbólgunni. Enda þótt þar hafi náðst mikill árangur er verðbólga enn mun meiri hér á landi en í nágrannalöndum okkar og ég hygg að það sé eitt mesta kappsmál allra þeirra sem vilja liðka til fyrir stofnun nýrra fyrirtækja, smárra sem stórra, að koma í veg fyrir það að verðbólgudraugurinn fái að valsa um hér á landi óhindraður.

Þá vil ég að lokum, herra forseti, geta þess að það virðist vanta í kerfið hjá okkur það sem kalla mætti fjármuni til þess að brúa það bil sem verður á milli annars vegar vísinda- og rannsóknarstarfsins og hins vegar að koma hugmyndum og verkefnum á markað. Þar vantar greinilega sjóð eða opinberan stuðning. Vil ég nefna þetta sérstaklega hér sem verkefni sem takast þarf á við á næstunni því til eru dæmi þess að mál hafi verið skoðuð og þau þróuð en síðan þegar kemur að því að setja framleiðsluna á markað þá skortir fjármuni til að hægt sé að standa straum af kostnaði við það.

Allt þetta þarf auðvitað að skoðast og ég veit að hæstv. ríkisstjórn og allir aðrir þeir sem hafa áhuga á þessum málum hljóta að taka höndum saman um það að hrinda þessu verkefni sem og öðrum, sem hér hafa verið nefnd, í framkvæmd.