03.11.1987
Sameinað þing: 11. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 585 í B-deild Alþingistíðinda. (399)

38. mál, fræðsla um kynferðismál

Heilbrigðis- og tryggingamálaráðherra (Guðmundur Bjarnason):

Herra forseti. Á þskj. 38 hefur fyrirspyrjandi, hv. þm. Kristín Halldórsdóttir, beint til mín fsp. um hvað líði framkvæmd þál. sem samþykkt var á Alþingi 19. mars um fræðslu meðal almennings um kynferðismál. Hv. fyrirspyrjandi hefur einnig gert grein fyrir þessari þál. eins og hún hljóðar og því ástæðulaust að lesa hana aftur, en það er hins vegar rétt til glöggvunar að rifja upp skyldur heilbrigðisþjónustunnar um ráðgjöf og fræðslu um kynlíf og barneignir skv. lögum nr. 25/1975. Í þeim lögum segir svo:

„Gefa skal fólki kost á ráðgjöf og fræðslu varðandi kynlíf og barneignir. Landlæknir hefur á höndum yfirumsjón með framkvæmd og uppbyggingu slíkrar ráðgjafar og fræðslu.“

Í lögunum segir enn fremur: „Ráðgjafarþjónusta þessi skal veitt á heilsugæslustöðvum og sjúkrahúsum og má vera í starfstengslum við mæðravernd, kvensjúkdómadeildir, geðvernd, fjölskylduráðgjöf og félagsráðgjafaþjónustu.“

Frá því þessi lög voru sett hefur landlæknisembættið í samvinnu við ráðuneytið kappkostað að gefa heilsugæslustöðvum og sjúkrahúsum kost á upplýsingaefni um kynlíf og barneignir og hefur á hverju ári verið veitt lítils háttar fjárveiting í þessu skyni undir fjárlagalið 08 399 140, Kostnaður vegna laga nr. 25/1975. Í fjárlögum ársins í ár er varið til þessa verkefnis 826 þús. kr. Þessari fjárupphæð hefur einkum verið varið til útgáfustarfsemi, til útgáfu bæklinga með upplýsingum til hlutaðeigandi og til fræðslu í skólum. Hefur landlæknir annast málið eða haft um það forgöngu og fengið lækna og læknanema til að fara í skólana og veita þar fræðslu eða halda fyrirlestra.

Landlæknisembættið stóð á sínum tíma að útgáfu þriggja bæklinga um lykkjuna, smokkinn og pilluna og hafa þessir bæklingar verið til á heilsugæslustöðvum, sjúkrahúsum og í apótekum undanfarin ár. Í tilefni af samþykkt þeirrar þál. sem minnst var á hér að framan var ákveðið að taka til endurskoðunar þessa þrjá bæklinga og er þeirri endurskoðun nú lokið og bæklingarnir komnir í prentun og munu koma út á þessu hausti. Dreifing þeirra er hugsuð með svipuðum hætti og áður hefur verið.

Þegar ljóst var að gera þyrfti sérstakar ráðstafanir vegna alnæmisfaraldursins þótti ljóst að upplýsingar um varnir gegn honum og kynfræðsla almennt hlytu að fara saman og undanfarin þrjú ár hefur verið lögð áhersla, aðaláhersla í kynfræðslu á upplýsingar um alnæmi. Þannig hafa síðustu tvö ár verið gefnir út sérstakir bæklingar í tugum þúsunda eintaka sem ýmist hafa verið sendir til einstakra aldurshópa eða áhættuhópa og látnir liggja frammi á sjúkrahúsum, heilsugæslustöðvum og lækningastofum.

Þessa dagana er verið að bera til allra heimila í landinu síðasta fræðslubæklinginn um alnæmi sem er gjöf til þjóðarinnar frá Ísafoldarprentsmiðju hf., Almennum tryggingum hf. og fjölmörgum öðrum aðilum sem hafa gefið alla sína vinnu og sitt framlag til þessa verkefnis. Ber að virða það og þakka. Þetta er mikið átak. Bæklingur þessi er gefinn út í 90 000 eintökum og á, eins og áður segir, að fara inn á öll heimili. Enda þótt í þessum bæklingi sé alvarlega höfðað til fólks vegna hættu á alnæmissýkingu lítur ráðuneytið svo á að hér sé einnig um að ræða mjög verulegt framlag til fræðslu meðal almennings um kynferðismál.

Ráðgjafarþjónusta eins og lögin gera ráð fyrir er einnig veitt á heilsugæslustöðvum og sjúkrahúsum og þá einkum í tengslum við mæðravernd og kvensjúkdómadeildir. Í 7. gr. laga nr. 25/1975 er gert ráð fyrir því að fræðsluyfirvöld í samráði við skólayfirlækni veiti fræðslu um kynlíf og siðfræði kynlífs í skólum landsins og þessa fræðslu skuli einnig veita á öðrum námsstigum. Heilbrmrn. gerir ráð fyrir því að menntmrn. hafi að sínum hluta annast þessa fræðslu svo sem lög gera ráð fyrir.

Þess má að lokum geta að yfirlæknir ráðuneytisins sem gegnir embætti skólayfirlæknis hefur verið ráðgjafi um þessi mál og hefur nú að undanförnu unnið að endurskoðun kennslugagna varðandi það sem hér er um spurt í samráði við menntmrn.

Herra forseti. Ég vona að þetta hafi að nokkru svarað fyrirspurn hv. fyrirspyrjanda.