17.03.1988
Sameinað þing: 61. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 5873 í B-deild Alþingistíðinda. (3991)

346. mál, endurskoðun kosningalaga

Fyrirspyrjandi (Jón Bragi Bjarnason):

Herra forseti. Ég sagði það fyrr í dag að ég væri einlægur fylgjandi ríkisstjórnar Þorsteins Pálssonar og sannur aðdáandi forsrh., Þorsteins Pálssonar sjálfs, og hefði unnið með honum. Þess vegna leyfi ég mér að bera fram þessa fsp. En áður en ég geri það langar mig til að vitna í þá ræðu sem ég flutti hér fyrir nokkrum dögum um stjórnarskrána, en þar sagði ég eftirfarandi:

„Herra forseti. Af þessum ástæðum og öðrum virðist auðsýnt að grundvallarbreytinga er þörf á stjórnarskrá lýðveldisins Íslands. Skilgreina þarf frá grunni umfang og aðgreiningu valdþáttanna þriggja, löggjafarvalds, framkvæmdarvalds og dómsvalds, þar sem skýrt er kveðið á um það gagnkvæma eftirlit og aðhald sem þeir eiga að hafa hver með öðrum. Í þessu fælist væntanlega einnig endurskoðun á hlutverki forseta lýðveldisins.

Ýmsa aðra þætti stjórnskipunar og afstöðu þegnanna til samfélags og ríkis er brýnt að fjalla um á þjóðfundi og kveða á um í nýrri stjórnarskrá. Læt ég hér nægja að nefna nokkra brýnustu og augljósustu þættina, svo sem starfshætti Alþingis og deildaskiptingu þess, jafnræði þegnanna og almenn mannréttindi, hagsmunaárekstra, þjóðaratkvæðagreiðslur og síðast en ekki síst breytingar eða viðbætur við stjórnarskrána sjálfa og frumkvæði þar um.“

Ég nefni þetta vegna þess að í þessum orðum felast grundvallarþættir lýðræðisins, þ.e. jafnræði þegnanna sem kemur m.a. fram í jöfnu vægi þeirra í atkvæðagreiðslum til löggjafarvaldsins. Af þeim ástæðum spyr ég því að um það er fjallað í stefnuskrá og starfslýsingu ríkisstjórnarinnar:

„Að hvaða markmiðum stefnir ríkisstjórnin með endurskoðun kosningalaga sem boðuð er í stefnuyfirlýsingu og starfsáætlun hennar og hvernig miðar því starfi?"