17.03.1988
Sameinað þing: 61. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 5875 í B-deild Alþingistíðinda. (3994)

350. mál, skipan prestakalla og prófastsdæma

Fyrirspyrjandi (Halldór Blöndal):

Herra forseti. Lög um skipan prestakalla og prófastsdæma eru síðan 1970. Ég hygg að þá þegar hafi verið í þeim ýmis ákvæði sem orkuðu tvímælis með hliðsjón af þeim öru breytingum sem þá voru að gerast í byggðamálum hér á landi, en eins og við vitum hafa síðustu 16 ár verið með mjög öðrum hætti en menn þóttust sjá fyrir á þeim tíma og nú er svo komið, ef maður lítur á einstök prestaköll, að í hinu minnsta þeirra, sem ég hygg að sé norður á Ströndum, Árnesprestakall, eru rúmlega 150 eða 160 manns, en í stærsta prestakallinu eru nær 10 þús. manns hér uppi í Árbæjarhverfi. Það er að vísu svo í þessum lögum að gert er ráð fyrir að sem næst 5 þús. manns séu í prestakalli þannig að fyrir dyrum liggur að skipta því prestakalli, en eigi að síður er ljóst, ef maður lítur yfir þessi lög og virðir fyrir sér hvernig skipan prestakalla og prófastsdæma er nú, að ástæða er til að leggja aðrar áherslur á kristnistarfið og prestsstarfið, sérstaklega með hliðsjón af því að hægt sé að efla æskulýðsstarf, starf fyrir aldraða og á sjúkrahúsum á þeim stöðum sem fjölmennastir eru.

Ég þarf ekki að fjölyrða um hvaða þýðingu kristin kirkja hefur fyrir okkar þjóðfélag, menningu okkar og siðferði og veit að hv. þingdeildarmenn eru mér sammála um að kirkjuskipanin verður á hverjum tíma að vera í samræmi við þarfir þjóðfélagsins og sniðin eftir byggðinni eins og hún er á hverjum tíma. Af þessum sökum legg ég fram þá fsp. hvað líði endurskoðun laga um prestaköll og prófastsdæmi.