17.03.1988
Sameinað þing: 61. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 5875 í B-deild Alþingistíðinda. (3995)

350. mál, skipan prestakalla og prófastsdæma

Dómsmálaráðherra (Jón Sigurðsson):

Herra forseti. Hv. 2. þm. Norðurl. e. spyr hvað líði endurskoðun laga um skipan prestakalla og prófastsdæma í landinu. Því er til að svara að með bréfi 1. okt. 1985 skipaði þáv. kirkjumálaráðherra, Jón Helgason, sex manna nefnd til þess að endurskoða skipan prestakalla og prófastsdæma. Þessi nefnd hefur starfað síðan og haldið allmarga fundi, auk þess sem hún hefur ferðast um prófastsdæmin, átt fundi með prestum og fulltrúum safnaða og safnað ýmsum gögnum. Starfi þessarar nefndar er ekki lokið, en að því mun stefnt að ljúka því nú fyrir vorið. Það er augljóst, og ég tek undir það með hv. fyrirspyrjanda, að skipan prestakalla þarf að fylgja þróun byggðarinnar í landinu. Prestaköllin eiga að miðast við fólk fremur en landsvæði þótt auðvitað þurfi að taka tillit til samgangna, hefða og fleiri atriða sem þarna skipta máli.

Hv. fyrirspyrjandi minntist á bæði fámennasta og fjölmennasta prestakallið. Í því sambandi get ég bætt við upplýsingum um að í fimm prestaköllum er íbúafjöldinn núna innan við 200 manns, í 24 prestaköllum er hann innan við 500 íbúa. Aftur á móti eru fleiri en 4000 íbúar í 27 prestaköllum. Íbúafjöldi að baki hvers sóknarprests í Reykjavíkurprófastsdæmi er nú að meðaltali um 5100, en um 1400 utan Reykjavíkurprófastsdæmis. Í fimm prestaköllum eru núna tvær prestsstöður, en það þykir ekki hafa gefið góða raun og kirkjuþing vill breyta þeirri skipan þannig að einungis verði um einmenningsprestaköll að ræða, ef það orð mætti nota.

Það er hlutverk nefndarinnar sem fyrrv. kirkjumálaráðherra skipaði að koma með tillögur sem lagi prestakallaskipunina að breytingum í byggð landsins og jafni eftir því sem unnt er vinnuálag prestanna. En nefndin þarf líka að taka til athugunar og ég hef beðið hana að koma með tillögur varðandi svonefnda sérþjónustu presta, sem hv. fyrirspyrjandi reyndar nefndi einnig, þ.e. presta sem þjóna sérstökum hópum manna óbundið kirkjusóknarskipan.

Hvað varðar prófastsdæmin er það sama að segja. Þeim var fækkað árið 1970 úr 21 í 15. Ég á ekki von á því að grundvallarbreyting verði gerð á prófastsdæmunum að sinni.