17.03.1988
Sameinað þing: 61. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 5876 í B-deild Alþingistíðinda. (3997)

349. mál, starfsmenn þjóðkirkju Íslands

Fyrirspyrjandi (Halldór Blöndal):

Herra forseti. Hér hef ég flutt fsp. til hæstv. dómsmrh. varðandi frv. til l. um starfsmenn Þjóðkirkju Íslands. Þetta frv. var lagt fyrir Alþingi fyrir tveim árum, um miðjan aprílmánuð, og var ekki vísað til nefndar fyrr en í sömu vikunni og þing var rofið og þess vegna kom ekki til þess að málið fengi neina athugun í nefndinni og ég hygg að ég fari rétt með það að það hafi heldur ekki verið sent til umsagnar neinum aðilum, að engar upplýsingar liggja fyrir um það hér í þinginu hvaða undirtektir það frv. fékk. Eins og hv. þingdeildarmönnum er kunnugt var þar gert ráð fyrir mjög veigamiklum breytingum í sumum atriðum og voru skoðanir manna skiptar um réttmæti allra þeirra, en á hinn bóginn hygg ég að nauðsynlegt sé að skýr löggjöf sé sett um starfsmenn Þjóðkirkjunnar og jafnframt að hreinsað sé til í Lagasafninu þannig að úr gildi falli ýmis úrelt og skrýtileg ákvæði sem heyra forneskjunni til.

Ég sé, herra forseti, ekki ástæðu til þess nú að ræða einstök atriði þess frv., svo stuttur tími sem mér er ætlaður í þessum stól, en vil sem sagt beina aðra ætlan í þeim efnum.