17.03.1988
Sameinað þing: 61. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 5877 í B-deild Alþingistíðinda. (3999)

349. mál, starfsmenn þjóðkirkju Íslands

Fyrirspyrjandi (Halldór Blöndal):

Herra forseti. Ég er fullkomlega sammála hæstv. kirkjumálaráðherra um það að þessi tvö mál eigi að fylgjast að um prestaköll og prófastsdæmi og um starfsmenn Þjóðkirkju Íslands, enda eru fsp. fluttar samtímis til að upplýsa málið í heild. Ég er þess vegna sammála þeirri málsmeðferð sem hæstv. ráðherra hyggst hafa á þessu máli og vænti þess að niðurstöður liggi einnig fyrir um þennan þátt málsins á næsta Alþingi, hvort sem það verður til afgreiðslu þá eða til kynningar í þjóðfélaginu, þannig að menn geti gefið sér tíma til þess að gera sér grein fyrir hvernig skipan kirkjumálanna verði best fyrir komið.