17.03.1988
Sameinað þing: 61. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 5878 í B-deild Alþingistíðinda. (4001)

357. mál, innflutningur á gleráli

Landbúnaðarráðherra (Jón Helgason):

Herra forseti. Það hafa nokkrir aðilar sýnt áhuga á að fá að flytja inn glerál sem er undirstaða þess að hægt sé að ala hér ál þar sem erfitt er að veiða glerálinn hérlendis í því magni sem nauðsynlegt er til slíkrar starfsemi.

Fyrir tveimur árum var undirbúið frv. sem gerði kleift að veita slík leyfi eftir að fisksjúkdómanefnd hefði fjallað um það og lagðist ekki gegn því ef ákveðnum skilyrðum yrði fullnægt. Þá fékkst ekki stuðningur beggja þáverandi stjórnarflokka til að flytja slíkt frv. og því frestaðist það.

Ég hef aftur á þessum vetri lagt slíkt frv. fyrir stjórnarflokkana og það virðist enn ekki munu verða stuðningur til þess að leggja frv. fram sem stjfrv., en ég hef leitað til landbn. Ed. um að hún flytti málið til þess að það kæmist til meðferðar í Alþingi og vonast ég til þess að sá háttur verði á hafður fljótlega.

Það er samt sem áður rétt að undirstrika að í sambandi við fisksjúkdóma er mjög mikilvægt að hafa fullan vara á þar sem sjúkdómar eru mesti vágesturinn í fiskeldi þar sem það hefur verið reynt og kostar mikla fjármuni og fyrirhöfn að berjast við þá. Því verður að sjálfsögðu að gæta þarna fullrar varúðar.

Það er hins vegar áhugi fyrir því að gera svona tilraun í Vestmannaeyjum. Sá staður hentaði mjög vel til þeirra hluta þar sem þá yrði verið í svo mikilli fjarlægð frá öllum veiðiám að ekki ætti af þeim sökum að stafa hætta af sýkingu. E.t.v. gæti það í framtíðinni orðið áfangastaður fyrir innflutning til annarra meðan gengið væri úr skugga um að ekki fylgdi slíkum innflutningi sýkingarhætta ef niðurstaðan yrði svo jákvæð að fleiri vildu leggja út á þá braut, sem vissulega er mikilvægt, að reyna að auka sem mest fjölbreytni í þessari atvinnugrein eins og öðru atvinnulífi landsmanna.