17.03.1988
Sameinað þing: 62. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 5879 í B-deild Alþingistíðinda. (4004)

358. mál, hálendisvegir

Skúli Alexandersson:

Herra forseti. Ætli það sé ekki rétt í upphafi, vegna þess að umræða um þessa till. fór fram á hv. Alþingi á síðasta eða næstsíðasta fundi Sþ., að lesa tillgr., með leyfi forseta:

„Alþingi ályktar að skora á ríkisstjórnina að safna saman og láta vinna úr tæknilegum og náttúrufræðilegum upplýsingum sem nú liggja fyrir hjá ýmsum stofnunum og mundu nýtast við áætlanagerð um vegaframkvæmdir á hálendinu.

Einnig fari fram könnun á áhrifum slíkrar vegagerðar á þróun byggðar í landinu með sérstöku tilliti til bættra samgangna milli Suður-, Norður- og Austurlands, svo og á nýtingu náttúruauðæfa hálendisins og ferðamál.“

Í grg. segir að það hafi alltaf komið upp annað veifið umræður um varanlega vegagerð á hálendinu, en sú umræða hafi einkennst af fordómum og því að tæknilegar og náttúrufarslegar upplýsingar hafi ekki verið til staðar til þess að byggja á, eins og þar stendur. Ég er ekki viss um að fordómarnir hafi upp á síðkastið komið í veg fyrir að þessir hlutir hafi verið kannaðir, en hitt hefur sjálfsagt frekar verið í hugum manna að það væri ekki tímabært að planleggja vegagerð um hálendið á sama tíma og stórir hlutar byggðar væru óvegaðir.

Ég vil ekki segja að tillgr. sjálf sé ótímabær á hv. Alþingi, en ég tel að málflutningur flm. eða reyndar beggja flm. sem hér hafa talað sé að vissu leyti ótímabær. Ég tel alveg fráleitt að lagt sé til að það eigi að brjóta upp núverandi samgöngumunstur eins og það er á landinu og að þessi tillögugerð sé vettvangur til þess og þaðan af síður að það séu nokkur rök fyrir því að það sé verið að færa byggðir saman á Íslandi með því að byggja vegi beint yfir hálendið milli aðalþéttbýlisstaða landsins.

Ég held að þetta sé hvort tveggja á annan veg en flm. raunverulega meina með tillögunni. Ég held að það sé verið að slíta byggðir í sundur með því að tengja eins og nú stendur með vegakerfi á landinu samgöngur milli Austurlands eða hvað þá Akureyrar og Reykjavíkur yfir hálendið og það sé ekki búið að byggja almennilegan veg yfir svæði eins og Öxnadalsheiði, hvað þá að byggja upp sæmilegt akvegakerfi um byggðir eins og Borgarfjörð, um Snæfellsnes, um Vestfirði, vissar byggðir alls ekki í neinu vegasambandi við akvegakerfi landsins eins og byggð norður á Ströndum, Árneshreppur, og svo mætti lengi telja.

Ég get því tekið undir að það sé eðlilegt að skoða þetta mál, en að tengja það því að það eigi að brjóta upp samgöngumunstrið eins og það er tel ég alveg fráleitt. Ég held að ein styrkasta stoð byggðar á Íslandi sé hvernig núverandi samgöngumunstur er eftir að okkur tókst að loka hringveginum kringum landið þegar vegurinn um Skeiðarársand var byggður. En við vitum jafnframt að það vegakerfi og það samgöngumunstur sem við höfum er ekki enn nálægt því nógu vel upp byggt og það er því miður þó nokkuð langt í land að svo verði ef áfram heldur með fjárveitingar til framkvæmda í vegamálum eins og hefur verið á undanförnum árum.

Þeir færa það einnig sem rök að það sé æskilegt að stutt sé á milli aðalferðamannasvæða landsins, það séu rök að stutt sé á milli Mývatns og Þingvalla eða að haft sé sem styst á milli Mývatns og Þingvalla, Mývatns og Geysis o.s.frv. Það á kannski ekki að sýna útlendingum annan hluta af okkar ástkæra landi en þessa tvo eða þrjá sérstöku staði. Þetta er fráleit röksemdafærsla í máli eins og þessu og þegar það er byggt á því að þetta sé byggðamál, en hv. þm. Málmfríður Sigurðardóttir sagði að þetta væri tengt byggðastefnu eins heils stjórnmálaflokks á Alþingi.

Sú stefna er að mínu mati nokkuð skrýtin og ég hef ekki nokkra trú á að hv. 6. þm. Vesturl. geti staðið að því sem byggðastefnu fyrir Vesturland, Norðvesturland og Vestfirði að það sé æskilegt að tengja aðalþéttbýlissvæði landsins saman á þann hátt sem lagt hefur verið til í málflutningi flm. og ég hef verið að benda á.

En það á að skoða málið. Ég get vitaskuld ekki lagst gegn því og það væri í sjálfu sér eðlilegt, en að við horfum á það sem eitthvert jafnrétti í byggð landsins að slík samgöngubót væri gerð tel ég af og frá.

Ég tel aftur á móti að það sé nauðsynlegt að gera nokkrar endurbætur á hálendisvegunum og þar vil ég ekki eingöngu nefna Sprengisand. Þar koma vitaskuld til aðrir vegir, Kjölur, Fjallabaksleiðir, Kaldidalur o.fl. Þar er nauðsynlegt að gera tiltölulega smávægilegar viðgerðir, brúa verstu vatnsföllin þar og auðvelda sem flestum að fara þessa leið yfir sumarmánuðina. Það er að mínu mati það verkefni sem við þurfum að vinna að í sambandi við þessa hluti á næstu árum. Og við eigum að leggja til hliðar þá hugmynd að við ætlum að fara að byggja eitthvert nýtt samgöngumunstur upp frá því sem nú er með því að leggja beinan veg milli þéttbýlisstaða á Íslandi.