17.03.1988
Sameinað þing: 62. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 5882 í B-deild Alþingistíðinda. (4006)

358. mál, hálendisvegir

Sveinn G. Hálfdánarson:

Hæstv. forseti. Þáltill. sú sem hér liggur fyrir um hálendisvegi og möguleg áhrif þeirra á byggðaþróun sýnist mér reyndar sem slík ekki vera tilefni margra orða. Vissulega má vel skilja áhuga einstakra þm. fyrir skemmtilegum sumarvegi um óbyggðir okkar fagra lands og vissulega gæti hann orðið til hagsbóta fyrir tiltekið landsvæði þann tíma ársins sem hægt væri að halda honum opnum.

Vegalagning sú, sem hér er raunverulega lagt til að hefja undirbúningsvinnu við, er að mínu mati vart sjáanlegt verkefni á þessari öld, svo mörg eru óleyst verkefnin á hringveginum og enn fremur í tengingu ýmissa nágrannaþéttbýlisstaða vítt og breitt um landið. Með þessum orðum mínum er ég að vara við að dreifa kröftum og fjármagni meira en nú er varðandi vegamál. Við þurfum alltaf að raða málum í forgangsröð. Ég leyfi mér að minna á nokkur stór verkefni sem fram undan eru.

Það er í fyrsta lagi að ljúka lagningu bundins slitlags á hringveginn. Það eru göng um Ólafsfjarðarmúla. Það er tenging Norðfjarðar og Eskifjarðar sem vonandi verður með jarðgöngum. Það er tenging Flateyrar-Suðureyrar-Ísafjarðar sem vonandi verður enn fremur með jarðgöngum. Og ég minni á ónýtt, ég meina ekki vannýtt heldur handónýtt, vegakerfi víða á landinu, á Mýrum t.d., á Snæfellsnesi og víðar. Ég minni líka á svipað ástand vega á Vestfjörðum. Síðast en ekki síst vil ég minna á stórt verkefni sem stytta mun leiðina milli Reykjavíkur og Akureyrar um 45 km. Þar á ég við nýja legu Vesturlandsvegar um Hvalfjörð og Grunnafjörð sem ég tel fullvíst að Alþingi muni setja ofarlega á verkefnalista sinn.

Í grg. með till. þeirri sem hér liggur fyrir er auðvitað ekki gert ráð fyrir slíkri styttingu. Þar er t.d. gert ráð fyrir að ef af þessum hálendisvegi yrði mundi vegurinn styttast milli Reykjavíkur og Akureyrar um 70 km, en ætti eftir að úrbætur kæmust á í Hvalfirði og um Grunnafjörð ekki að vera nema 25 km. Ég vil því benda á að það er rétt að taka þær tölur með varúð.

Að lokum þetta, hæstv. forseti: Ég tel sjálfsagt að safna saman upplýsingum um þetta mál, eins og segir í fyrri hluta tillögunnar, en ég vara við að leggja út í kostnaðarsamar kannanir sem síðan verða úreltar þegar röðin kemur að framkvæmd, kannski eftir 10 eða 15 ár eða svo.