03.11.1987
Sameinað þing: 11. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 587 í B-deild Alþingistíðinda. (401)

38. mál, fræðsla um kynferðismál

Heilbrigðis- og tryggingamálaráðherra (Guðmundur Bjarnason):

Herra forseti. Ég hafði reyndar ekki beðið um orðið, en fyrst forseti var svo elskulegur að gefa mér það samt ætla ég að bæta við einni setningu sem ég reyndar gleymdi. Það kom fram í upphafi máls hv. fyrirspyrjanda að fjárlög gerðu ekki ráð fyrir framlögum til þessa verkefnis. Það má kannski segja að það sé ekki sérmerkt þeirri þál. sem fyrirspyrjandi vitnar til, en það má samt koma fram að fjárlagaliður sem ég gerði að umtalsefni áðan og nefnist „Kostnaður vegna laga nr. 25/1975“ hækkar úr 826 þús. kr. þessa árs í 1 millj. 71 þús. eða um 30% og fjárveitingar til aðgerða gegn kynsjúkdómum og eyðni hækka úr 5 millj. 350 þús. kr. í 10 millj. og 80 þús. kr. eða um 88%. Hlýtur það að teljast verulegt framlag í þágu þess sem hér er til umræðu.