17.03.1988
Sameinað þing: 62. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 5887 í B-deild Alþingistíðinda. (4010)

358. mál, hálendisvegir

Ólafur Þ. Þórðarson:

Herra forseti. Ég get ekki fallist á að hér sé á ferðinni nein sérstök framúrstefnuþingsályktunartillaga. Ef ég man rétt ljóðagerð Steins Steinars getur hann um að á Alþingi Íslendinga hafi verið uppi tillaga um að leggja akvegi meðfram reiðvegum Íslands. Mér sýnist að við séum ekki komnir neitt í nágrenni við að vera búnir að framkvæma þær hugmyndir.

Mér finnst að hér hafi menn verið of trekktir í umræðunni og viljað strax setja þetta upp á þann veg að hér væru menn að takast á um forgangsröðun verkefna. Það held ég að sé mikill misskilningur. Ég held líka að það sé verulegur misskilningur sem liggur í því þegar menn halda að hugmynd sem þessi muni skaða einhver svæði hvað það snertir að þau fái góða vegi. Mér sýnist að það þurfi að skoða þetta þó nokkuð út frá því sjónarhorni að það eru tvö svæði á Íslandi sem tvímælalaust hefðu gífurlegt hagræði af þessum vegi, það er Suðurland og það er Norðausturland, að því viðbættu að það er búið að leggja megnið af veginum. Ég get þess vegna ekki tekið undir að hér sé um eitthvað að ræða sem er í það mikilli fjarlægð að það sé óeðlilegt að það sé tekið hér til umræðu. Mér sýnist mjög skynsamlegt að safna þessum upplýsingum saman, meta það þegar þær liggja fyrir hvaða möguleikar eru á ferðinni, en ég vil taka skýrt fram að með þeim orðum er ég ekki á nokkurn hátt að leggja til að hróflað verði við þeim langtímamarkmiðum sem við höfum sett okkur í vegamálum hvað forgangsröðun snertir.

Ég held aftur á móti að ef við teljum að það sé óeðlilegt að allir valkostir liggi fyrir séum við að taka ákvörðun sem ekki er skynsamleg. Ég sé ekki á hvaða forsendum við ættum að hafna því að þessi valkostur lægi fyrir til skoðunar eins og svo margir aðrir þegar við þurfum að taka nýjar ákvarðanir varðandi forgangsröðun verkefna.