17.03.1988
Sameinað þing: 62. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 5887 í B-deild Alþingistíðinda. (4011)

358. mál, hálendisvegir

Steingrímur J. Sigfússon:

Hæstv. forseti. Ég skal ekki lengja þessa umræðu mikið en vil þó láta koma fram af minni hálfu að ég hef ekkert á móti því þó að þetta mál, eins og flest önnur, sé skoðað af skynsamlegu viti. Það er mín vegna fullkomlega eðlilegt að menn hafi áhuga á að safna saman þeim upplýsingum sem til eru eða kunna að vera til um þessa hluti og velta þeim fyrir sér. Mér er hins vegar ekkert að vanbúnaði að lýsa því þó yfir að ég tel að hér geti ekki verið um forgangsverkefni næstu ára, né heldur næstu áratuga, að ræða í íslenskum vegamálum. Í mínum huga eru þar tvö mjög stór verkefni áfram efst á baugi sem eru auðvitað að koma viðunandi vegasambandi á hringinn í kringum landið og tengja allar byggðir sem nokkur kostur er vegakerfi landsmanna. Þetta tvennt felur það í sér að það verður að halda áfram af fullum krafti með hringveginn og helstu tengingar úr frá honum við byggðarlög, þar með talin jarðgangagerð í stórum stíl á Mið-Norðurlandi, Vestfjörðum og Austfjörðum. Og miklu fyrr vil ég sjá Vestfirðina tengjast með þeim hætti, Austfirðina og Mið-Norðurland, en ég vil sjá malbikaðan veg yfir Sprengisand. Það eru alveg hreinar línur og það þarf enga könnun fyrir þennan ræðumann til þess að kveða upp úr um það.

Ég held að það sé líka rétt að gera skýran greinarmun á því hvort menn eru að tala um endurbætur á núverandi Sprengisandsleið og Kjalvegi og e.t.v. einhverjum tengingum út frá þeim vegum til að gera þá að brúklegum og vel færum sumarvegum eða hvort menn eru að tala um ævintýramennsku af því tagi að leggja heilsársveg yfir miðhálendið. Ég held að menn eigi að gera þar skýran greinarmun á. Þær slóðir sem nú liggja yfir miðhálendið þarf að laga og bæta og að mínu mati á á næstu tveim til þrem árum að gera Sprengisandsveg vel fólksbílafæran, það er nánast smávægilegt sem á vantar til að svo sé, brúa nokkrar jökulkvíslar og bera pínulítið ofan í veginn og þá er það komið, kostar ekki mikla fjármuni. En það að leggja heilsársveg yfir Sprengisand og að tengja Sprengisandsleiðina niður í byggðarlögin norðan lands, niður yfir hálendisbrúnina er ekkert smámál. Það er hættulegt að einblína á kílómetratölur í þeim efnum. Hvað sem líður öllum skýrslum um veðurfar á þessum slóðum benda allar vísbendingar til þess að það sé ekki Sprengisandurinn sjálfur sem hér sé erfiðastur viðureignar, ekki miðhálendið sjálft sem reyndar er tiltölulega veðursæll staður í vissu tilliti vegna þess að þar er úrkomuskuggi. Það eru hálendisbrúnirnar bæði norðan lands og sunnan sem eru erfiðastar viðfangs og ætti 1. flm. till. að vita það manna best, úr Eyjafirði sem liggur nærri þeim stað sem er líklega mesta veðravíti landsins sem er innsti hluti Tröllaskagahálendisins, hálendisbrúnin inn af Eyjafirði.

Í mínum huga er sem sagt allt í lagi að kanna þessa hluti og ég tel gagnlegt að gera það m.a. með það í huga að koma á góðum sumarsamgöngum yfir miðhálendið, betri en nú eru, reyna að beina allri umferð þar inn á vel merkta og brúklega vegi, en forgangsverkefnin liggja annars staðar. Það yrði dýrt fyrir landsmenn að halda uppi tvöföldu vegakerfi í þeim skilningi milli landshluta, öðru yfir hálendið sem væri brúklegt yfir sumarmánuðina, e.t.v. vor og haust, og hinu sem þyrfti þá að nota eftir sem áður yfir harðasta vetrartímann. Það fær mig enginn maður til þess að trúa því að það yrði unnt að leggja heilsársveg sem gagnaðist Norðurlandi og Austurlandi hvað varðar samgöngur til Reykjavíkur yfir miðhálendið. Ég held að þó þar væri kominn fokdýr malbikaður vegur mundu samgöngurnar eftir sem áður fara með ströndinni yfir harðasta vetrartímann.

Ég minni á tvær till. til þál. um samgöngumál sem liggja fyrir þinginu, herra forseti, og ég tel rétt að minna á í þessu sambandi. Hin fyrri er till. til þál. um að þegar í stað verði lögð fram hér á þinginu og samþykkt langtímaáætlun um jarðgangagerð sem hv. 2. þm. Austurl. flytur ásamt ræðumanni. Hin seinni er till. um samræmingu allra áætlana á sviði samgöngumála og meiri háttar mannvirkjagerðar.

Ég tel í raun og veru að þessi till. sem hér er flutt gæti rúmast sem ein málsgrein í þeirri till. Hún felur það líka í sér að miðhálendið og samgöngur þar verði skoðaðar í samræmi við heildarskipulag samgöngumálaanna í landinu. Það sem mest vantar á í þessum efnum er ekki það að velta fyrir sér framkvæmdum á Sprengisandi á næstu árum. Það sem mest vantar í skipulagi samgöngumálanna á Íslandi er heildstæð stefnumörkun sem tekur til samgangna á landi, í lofti og á sjó og tengir saman meiri háttar fjárfestingaráætlanir á öllum þessum sviðum. Þar liggjum við Íslendingar langt á eftir nágrannaþjóðum og erum oft og tíðum að kosta til ómældum fjárhæðum vegna þess að það er engin heildaryfirsýn yfir það hvernig eigi að haga uppbyggingu samgöngumálanna sem slíkra. Það mætti spara ómældar fjárhæðir í hafnir, í flugvelli og í vegi ef þessir hlutir væru allir skoðaðir í samhengi, einnig meiri háttar áform um mannvirkjagerð, svo sem virkjanir á hálendinu sem að sjálfsögðu þurfa að koma hér til skoðunar.

Virðulegi hæstv. forseti. Ég vona að menn hafi ekki tekið orð mín sem svo að ég hafi eitthvað sérstaklega mikið á móti þessari till. Það hef ég ekki í sjálfu sér, svo fremi sem hér sé um könnun og upplýsingasöfnun að ræða sem er ætíð góðra gjalda verð, en ég vara menn hins vegar við því að bollaleggja mikið um stórfelldar framkvæmdir og meiri háttar tilkostnað í vegagerð uppi á hálendinu á meðan jafngeysileg verkefni eru eftir óunnin í byggð, að koma á varanlegum vegasamgöngum í byggð í landinu.