17.03.1988
Sameinað þing: 62. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 5890 í B-deild Alþingistíðinda. (4013)

358. mál, hálendisvegir

Flm. (Jóhannes Geir Sigurgeirsson):

Hæstv. forseti. Ja, það fór aldrei öðruvísi en svo að hv. þm. Skúli Alexandersson staðfesti í sínum lokaorðum það sem ég sagði í mínum upphafsorðum að mér fyndist stundum að þm. hugsuðu ekki í lengri tíma en sem næmi einu eða tveim kjörtímabilum ef það er ekki tímabært að leggja grunninn að framkvæmdum sem væru kannski í eðlilegri forgangsröð eftir 10–15 ár.

Ég ætla ekki að fara mikið í þetta efnislega. En ég vil út af fyrir sig þakka hv. þm. Steingrími J. Sigfússyni fyrir góðan stuðning við minn málstað. Því að þetta er tvíþætt eins og við sögðum. Við viljum að þessum rannsóknum verði öllum safnað saman og athugað hvernig þær nýtast fyrir hálendisvegagerð. Það sem væri fyrsta framkvæmdaskrefið og sem ég teldi eðlilegt að yrði gert innan mjög skamms tíma er akkúrat það sem hv. þm. Steingrímur Sigfússon sagði, að gera góðan sumarveg yfir Sprengisand, og það er ekkert mjög mikil framkvæmd eins og hann reyndar staðfesti í sínu máli.

En bara örfá orð um ævintýramennsku og önnur stór orð sem hv. þm. Steingrímur Sigfússon er nokkuð gjarn á að hafa við. Hann talaði um hálendisbrúnina að sunnan. Það er uppbyggður vegur upp á miðjan Sprengisand og ég talaði við mann í gær sem um síðustu helgi ók þangað upp eftir í einni striklotu án þess að þar væri snjókorn á vegi. Ég gæti haldið langa ræðu um það sem þarf til að gera slíkan veg sams konar veg og eru byggðir norðan lands.

Að lokum þakka ég fyrir þessa umræðu hérna og ég óska þess að þetta mál fái eðlilega umfjöllun í nefnd.