21.03.1988
Sameinað þing: 63. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 5908 í B-deild Alþingistíðinda. (4034)

355. mál, haf- og fiskirannsóknir

Flm. (Hjörleifur Guttormsson):

Herra forseti. Ég mæli fyrir till. til þál. um haf- og fiskirannsóknir. Till. er á þskj. 687 og flm. með mér eru eftirtaldir hv. þm. úr öðrum þingflokkum: Kristín Einarsdóttir, Kjartan Jóhannsson, Guðmundur H. Garðarsson, Hreggviður Jónsson og Stefán Guðmundsson. Till. er svohljóðandi, með leyfi hæstv. forseta:

„Alþingi ályktar að fela ríkisstjórninni að láta gera áætlun um auknar fjárveitingar á næstu fimm árum til haf- og fiskirannsókna á vegum Hafrannsóknastofnunar. Áætlun þessi taki mið af langtímaáætlun stofnunarinnar, ekki síst þörfinni á stórauknum umhverfisrannsóknum og að því er varðar vistkerfi íslenska hafsvæðisins svo og eldi sjávarlífvera.

Áætlun þessi verði lögð fyrir Alþingi í byrjun þings haustið 1988.“

Hér fór fram fyrr á þinginu talsverð umræða sem tengist þessu máli og var það í tengslum við frv. til l. um stjórn fiskveiða þegar það var til meðferðar í hv. þingdeildum í desembermánuði og í janúarbyrjun. Þar bar málefni Hafrannsóknastofnunar og þörfina á rannsóknum nokkuð á góma. Einstaka hv. þm. drógu þá í efa forsendur Hafrannsóknastofnunar til að segja fyrir um æskilegan hámarksafla á þeim tegundum sem veiddar eru hér við land.

Ég vék að stöðu þessara mála í nál. með því frv. sem ég nefndi, frv. til l. um stjórn fiskveiða árin 1988–1990, og sagði þar m.a., með leyfi forseta:

„Eitt mikilvægasta atriði í skilvirkri fiskveiðistjórnun á að vera að efla hafrannsóknir og gera viðkomandi stofnunum og vísindamönnum kleift að sinna aðkallandi verkefnum. Árlega er varið til haf- og fiskirannsókna hérlendis aðeins sem svarar 1/2% af verðmæti útfluttra sjávarafurða. Þetta er miklu lægra hlutfall en meðal nágrannaþjóða sem þó eiga langtum minna undir sjávarútvegi en Íslendingar.

Brýn þörf er á grundvallarrannsóknum á vistkerfi íslenskra hafsvæða til þess m.a. að leiða í ljós flókin tengsl milli nýliðunar og afrakstursgetu nytjastofnanna svo og breytingar í neðstu hlekkjum fæðukeðjunnar.“

Og einnig sagði í þessu nál.: „Efla þarf til muna rannsóknir er varða hagkvæma fiskveiðistefnu og samhengi allra þeirra þátta er hana snerta. Þannig þarf að tengja saman tæknilegar, hagrænar, félagslegar og fiskifræðilegar rannsóknir.“

Eftir að frv. þetta um stjórn fiskveiða var lögfest hefur Hafrannsóknastofnun gert verulegt átak til að kynna Alþingi, einstökum þingflokkum og þm. í heild starfsemi sína og vísindalegar forsendur fyrir forsögn Hafrannsóknastofnunar varðandi afrakstursgetu nytjastofna svo og margt fleira sem tengist þeim málum. Stofnunin hafði sérstaka kynningarfundi fyrir þm. úr einstökum þingflokkum og efndi svo til kynningarfundar fyrir alla hv. þm. þann 3. mars sl. og notuðu sér margir það boð. Þar voru flutt fræðileg erindi um helstu viðfangsefni Hafrannsóknastofnunar. Það vakti athygli að þar var ekki hafður uppi neinn sérstakur barlómur í sambandi við fjármál stofnunarinnar, en öllum sem fylgt var á þessum fundi og kynnt hafa sér málefni Hafrannsóknastofnunar hlýtur að vera ljós eða ljósari eftir en áður þörfin á að efla til muna haf- og fiskirannsóknir hér við land. Markmiðið með þeirri þáltill. sem hér er flutt af þm. úr öllum þingflokkum er að svo geti orðið.

Tillagan gerir ráð fyrir tvennu: Að ríkisstjórnin láti gera áætlun um auknar fjárveitingar á næstu fimm árum til haf- og fiskirannsókna og leggi þá áætlun fyrir Alþingi í byrjun næsta þings. Í öðru lagi að áætlun þessi taki mið af fyrirliggjandi langtímaáætlun Hafrannsóknastofnunar sem birt er í heild sem fskj. með þáltill., en að þessari áætlun átti einnig hlut Rannsóknaráð ríkisins.

Í langtímaáætluninni er gerð ítarleg grein fyrir starfsmarkmiðum Hafrannsóknastofnunar, starfsháttum hennar og aðstöðu og þörfinni fyrir aukinn mannafla, húsnæði og endurbættan skipakost. Gerð er grein fyrir verkefnavali stofnunarinnar og forgangsröðun um ráðningu starfsmanna og bætta aðstöðu stofnuninni til handa.

Á bls. 19 í þáltill., fskj. með henni, er að finna töflu þar sem sýndur er starfsmannafjöldi annars vegar eins og hann var á árinu 1987 og hins vegar eins og gert er ráð fyrir að hann verði samkvæmt langtímaáætluninni árið 1992. Í þessu yfirliti kemur fram að fjölga þurfi starfsmönnum á þessu tímabili að lágmarki um 33, þ.e. sérfræðingum og rannsóknamönnum. Hins vegar er ekki gert ráð fyrir fjölgun manna á rannsóknarskipum stofnunarinnar.

Þau svið þar sem einkum er gert ráð fyrir vexti og auknum umsvifum eru vistfræðirannsóknir og eldi sjávardýra. Um vistfræðirannsóknina segir m.a. í áætlun stofnunarinnar á bls. 14 í fskj., með leyfi virðulegs forseta:

„Þegar gerðar hafa verið áætlanir um afrakstur nytjastofna hefur hingað til aðallega verið byggt á beinum eða óbeinum mælingum á stofnstærð, upplýsingum um nýliðun og meðalvaxtarferlum viðkomandi tegunda. Með vaxandi þekkingu hefur komið sífellt betur í ljós hversu náin og flókin tengsl eru milli nýliðunar og afrakstursgetu nytjastofnanna á hverjum tíma annars vegar og breytinga á svifdýra- og plöntusamfélögum hafsins, svo og ástandi sjávar hins vegar. Enda þótt mikið verk hafi þegar verið unnið varðandi einstaka þætti vistkerfisins er mikilvægt að hefja sem fyrst samhliða rannsóknir á ofangreindum þáttum með það fyrir augum að tengja betur en nú er hægt upplýsingar um neðstu hlekki fæðukeðjunnar, ólífræna umhverfisþætti og fiskifræðileg gögn. Hér er raunar um að ræða nánari útfærslu á líkani af vistkerfum íslenskra hafsvæða og afrakstursgetu þeirra sem þegar er hafin vinna við og greint er frá í fyrri málsgrein. Þetta mun einkum kalla á mjög aukna starfsemi á sviðum plöntu- og dýrasvifsrannsókna.“

Og um eldi sjávardýra er fjallað á bls. 13 í sama fskj. m.a. þar sem vikið er að rannsóknum varðandi hvali á hafsvæðunum umhverfis Ísland, en unnið er að þeim athugunum samkvæmt sérstakri rannsóknaráætlun svo sem kunnugt er. En þarna er einnig vikið að rannsóknum á selum og ég leyfi mér að vitna til þess sem segir um það í þessu fskj.:

„Rannsóknum á selum er lítið sem ekki sinnt á Hafrannsóknastofnun sem stendur. Má segja að selarannsóknir séu nær alfarið í höndum hringormanefndar sem sett var á laggirnar fyrir nokkrum árum og er fjármögnuð af ýmsum fyrirtækjum sjávarútvegsins. Þessar rannsóknir ætti hins vegar að stunda á vegum Hafrannsóknastofnunar, enda óheppilegt að íslenskir hagsmunaaðilar séu beinlínis í forsvari fyrir rannsóknum í svo alþjóðlega pólitísku máli.“

Áhersla er einnig lögð á það í langtímaáætluninni að efla rannsóknir á eldi sjávardýra og um það segir, með leyfi forseta:

„Það er athyglisvert að þrátt fyrir hina miklu fjárfestingu í fiskeldi að undanförnu hefur sáralítið af opinberu fjármagni verið veitt til rannsókna á þessu sviði hingað til. Gert er ráð fyrir að þátttaka Hafrannsóknastofnunar í rannsóknum og tilraunastarfsemi við eldi sjávardýra fari vaxandi því verkefni eru ærin. Má þar bæði nefna eigin tilraunastarfsemi ýmiss konar, sem möguleg verður með tilkomu þeirrar aðstöðu sem verið er að koma upp við Grindavík og að framan greinir, og samstarf og ráðgjöf við einkaaðila í eldismálum hvers konar. Eins og stendur er stofnunin þó lítils megnug og skilyrði þess að breyting verði til batnaðar eru fyrst og fremst aukið fjármagn og mannafli.“

Þetta var tilvitnun um rannsóknarþörf varðandi eldi sjávardýra. Í því sambandi vil ég minna á að þingmenn hafa á undanförnum þingum flutt þáltill. varðandi rannsóknir sem tengjast eldi sjávardýra. Minni ég á þá tillögu sem fyrst var á ferðinni um þetta efni á þinginu 1983–1984, sem ég var flm. að ásamt fleiri þm. Alþb., um mótun rannsóknarstefnu varðandi eldi sjávardýra og nauðsynlega aðstöðu þar að lútandi.

Ég gat þess að þessi langtímaáætlun er unnin í samvinnu við Rannsóknaráð ríkisins sem fjallaði um hana og lagði fyrir sitt leyti blessun yfir hana, þó að hún sé gerð á ábyrgð Hafrannsóknastofnunar. Það er ástæða til að vekja sérstaka athygli á því sem segir í lok þessarar áætlunar varðandi fjármögnun. Það er að finna á bls. 17–18 í þessu þskj., með leyfi virðulegs forseta. Þar er að finna skýringarmyndir sem sýna mjög glöggt fjármögnun, fjárframlög á árunum 1977–1987 eða á tíu ára tímabili og einnig yfirlit um hvert hlutfall þessi fjármögnun til Hafrannsóknastofnunar er af útflutningsverðmæti sjávarafurða. Um þetta segir í áætluninni:

„Eins og sýnt er á fyrstu mynd hafa fjárframlög til haf- og fiskirannsókna ekki aukist að raungildi seinustu tíu árin. Á föstu verðlagi ársins 1986 hefur verðmæti útfluttra sjávarafurða á hinn bóginn meira en tvöfaldast á ofangreindu tímabili. Eins og sjá má hefur hlutfallið lækkað mikið á tímabilinu eða úr um 0,9%, ef miðað er við meðaltal áranna 1971–1977, í um 0,5% síðustu tvö árin. Að miðað sé við að verja ákveðnu hlutfalli af útflutningstekjum atvinnuvegarins er í sjálfu sér ekki keppikefli. Hins vegar er alveg ljóst að á seinustu árum hefur þjóðfélagið ekki varið fé til haf- og fiskirannsókna í neinu samræmi við stórauknar tekjur af sjávarfangi, þrátt fyrir það að á sama tíma hafi verið gerðar sívaxandi kröfur til rannsókna og ráðgjafar varðandi nýtingu sífellt fleiri dýrastofna. Við svo búið má ekki standa ,því að eins og þegar hefur komið fram má næsta lítið út af bera til þess að Hafrannsóknastofnunin valdi ekki lengur grundvallarhlutverkum sínum hvað þá meiru. Það er raunar fyrst og fremst bættri úrvinnslutækni og miklu vinnuframlagi starfsmanna að þakka að tekist hefur að halda nokkurn veginn í horfinu enn þá.

Til þess að rannsóknastarsemin geti þróast með eðlilegum hætti og uppfyllt þær kröfur sem til hennar verður að gera og þjóðfélagið setur þarf aukið fjármagn. Í samræmi við þær starfsáætlanir sem að framan greinir og með hliðsjón af brýnni nauðsyn þess að skipakostur Hafrannsóknastofnunar verði endurnýjaður á næstu 5-10 árum er fyrirsjáanlegt að auka þarf árlegt fjármagn til haf- og fiskirannsókna um a.m.k. 50% frá því sem nú er. Verði það ekki gert mun starfseminni sniðinn of þröngur stakkur þegar til lengri tíma er litið til þess að vænta megi viðunandi úrlausnar þeirra verkefna sem Hafrannsóknastofnunin glímir við.“

Í niðurlagi þessa þáttar um fjármögnun vegna þessarar áætlunar segir, með leyfi forseta: „Hingað til hafa íslenskar haf- og fiskirannsóknir svo til alfarið verið fjármagnaðar með ríkisframlögum. Á síðari árum hefur orðið mikil umræða um vaxandi þátt atvinnufyrirtækja í fjármögnun hvers konar rannsóknastarfsemi og er það vel. Ef frá eru taldar rannsóknir og ráðgjöf varðandi eldismál, þróun veiðarfæra og tæknibúnaðar, mannvirkjagerð og hugsanlega leit að nýjum fiskimiðum er á hinn bóginn erfitt að koma auga á fyrirtæki sem væru líklegir viðskiptavinir Hafrannsóknastofnunar. Starfsemi stofnunarinnar er og verður fyrst og fremst miðuð við þarfir sjávarútvegsins í heild. Það er þess vegna nauðsynlegt að samtök hans styðji rannsóknastarfsemina með beinum fjárframlögum. Sennilega yrði þetta best gert með því að sjávarútvegurinn stofnaði öflugan sjóð sem samtök hans stjórnuðu. Með því móti gæti þau stutt eða kostað að meira eða minna leyti þau verkefni hafrannsókna sem sjávarútvegurinn teldi nauðsynleg og áhugaverð. Að öðru leyti er líklegt að fjárveitingar samkvæmt fjárlögum verði í náinni framtíð helstu tekjustofnar Hafrannsóknastofnunar.“

Herra forseti. Ég hef hér gert grein fyrir þessari till. og nauðsyninni á að það verði gerð áætlun um fjármögnun varðandi haf- og fiskirannsóknir hér. Gert er ráð fyrir því að slík áætlun verði gerð til næstu fimm ára. Auðvitað mætti hugsa sér lengra áætlunartímabil, en ég tel að þetta sé verðugt verkefni og verðugt markmið, ekki síst vegna þess að fyrir liggur skilmerkileg langtímaáætlun unnin af færustu aðilum á þessu sviði.

Ég tel að þingið þurfi að bregðast við eftir að Hafrannsóknastofnun hefur með svo myndarlegum hætti rétt fram höndina til þess að kynna alþm. starfsemi sína. Okkur ætti raunar öllum að vera ljóst hvílíkt undirstöðumál hér er á ferðinni. Það má ekki við svo búið standa að grundvallarrannsóknir á þessu sviði séu í svelti. Því vænti ég þess að undirtektir verði góðar við þessa till., eins og reyndar hefur komið fram með meðflutningi þm. úr öllum þingflokkum, og að það verði hægt að hefjast handa á grundvelli þál. um þetta mál áður en þingi lýkur eða í síðasta lagi eftir þinglausnir þannig að við fáum um þetta tillögur á komandi þingi.

Ég legg til, herra forseti, að till. verði að umræðu lokinni vísað til hv. atvmn.