21.03.1988
Sameinað þing: 63. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 5916 í B-deild Alþingistíðinda. (4038)

355. mál, haf- og fiskirannsóknir

Flm. (Hjörleifur Guttormsson):

Virðulegur forseti. Ég vil undir lok þessarar umræðu þakka hv. ræðumönnum sem hér hafa tekið til máls, hv. 11. þm. Reykn. Hreggviði Jónssyni, hv. 6. þm. Vesturl. Danfríði Skarphéðinsdóttur og hv. 4. þm. Vesturl. Skúla Alexanderssyni, fyrir ágætar undirtektir við þetta mál. En hv. 11. þm. Reykn. er raunar meðflutningsmaður að þessari till. ásamt fimm öðrum þm.

Ég held að það hafi verið alveg réttur tónn í þeirri ræðu sem hér var síðast flutt, eins og raunar í öðrum ræðum um þetta mál, að við eigum ekki að líta á þetta sem útgjöld, það fjármagn sem við veitum til undirstöðurannsókna á íslenskum hafsvæðum. Það mun örugglega skila sér, bæði með því að betur takist til um fiskveiðistjórnun en ella og einnig með því að við getum vænst miklu betri nýtingar á lífríkinu í hafinu við Ísland sem er þrátt fyrir allt undirstaðan undir mannlífi hér og menningarsamfélagi í landinu.