03.11.1987
Sameinað þing: 11. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 589 í B-deild Alþingistíðinda. (404)

48. mál, norræni umhverfisverndarsamningurinn

Félagsmálaráðherra (Jóhanna Sigurðardóttir):

Herra forseti. Hv. 13. þm. Reykv., Guðrún Helgadóttir, hefur borið fram fsp. til mín um hvað líði framkvæmd ályktunar sem samþykkt var á Alþingi 18. mars 1987 um að ríkisstjórnin staðfesti aðild Íslendinga að norræna umhverfisverndarsamningnum sem gerður var milli Noregs, Finnlands, Svíþjóðar og Danmerkur 19. febr. 1974.

Svar mitt er þetta: Þessi þál. barst félmrn. 22. okt. sl. frá utanrrn. Í bréfi utanrrn. dags. 20. okt. sl. kemur fram að utanrrn. telji rétt að hefja undirbúning að aðild Íslands að samningnum í samvinnu við félmrn. og biður ráðuneytið jafnframt að láta í té umsögn um hvaða ráðstafanir þurfi að gera til að geta framfylgt ákvæðum samningsins hér á landi. Félmrn. mun að sjálfsögðu bregðast við þessari málaleitan utanrrn. fljótt og vel og að svo miklu leyti sem það er á þess valdi.

Ég nota þetta tækifæri til að lýsa því yfir að ég sem félmrh. er eindregið fylgjandi aðild Íslands að umræddum samningi. Enda þótt félmrn. hafi með ríkisstjórnarsamþykkt á árinu 1978 verið falið að fara með mál er lúta að umhverfismálum er sú ráðstöfun aðeins í orði því að ábyrgð í umhverfismálum er nú dreift á ein sex ráðuneyti og því enginn ráðherra öðrum fremur talsmaður umhverfismála almennt.

Nú er þessum málum þannig háttað hér að heilbr.- og trmrn. fer með flesta mengunarþætti umhverfismála, menntmrn. fer með náttúruverndarmál, sjútvrn. með hvers konar mengun sjávar o.s.frv. Snertiflöt umhverfisverndarmála við þá málaflokka sem heyra undir félmrn. er fyrst og fremst að finna á sviði skipulagsmála, enda allt landið skipulagsskylt, svo og á sviði sveitarstjórnarmála almennt. Norræni umhverfismálasamningurinn frá 1974 brýtur á engan hátt í bága við gildandi skipulagslög, sveitarstjórnarlög eða önnur lög sem falla undir starfssvið félmrn. Þar þarf engu að breyta við aðild Íslands að samningnum. Önnur ráðuneyti sem fara með mengunar- og umhverfismál verða hins vegar að athuga sinn gang hvað þetta snertir.

Almenn lög um umhverfismál á Íslandi eru ekki til. Allt frá árinu 1975 hafa verið lögð fram þrjú umhverfismálafrumvörp sem öll hefur dagað uppi. En nú á að taka til höndum í þessu efni. Í stjórnarsáttmála núv. ríkisstjórnar segir að ríkisstjórnin muni samræma aðgerðir stjórnvalda að umhverfisvernd og mengunarvörnum með því að sjá um að sett verði almenn lög um umhverfismál og samræming þeirra falin einu ráðuneyti. Forsrh. hefur í samræmi við það skipað þriggja manna nefnd sem falið er að gera drög að frv. til laga um samræmda yfirstjórn umhverfismála og er nefndinni ætlað að ljúka störfum svo fljótt að hægt verði að leggja frv. fram fyrir nk. áramót.

Varðandi þá fsp. sem hér er fram borin er eins og fram kom í mínu máli af hálfu ríkisstjórnarinnar hafinn undirbúningur að aðild Íslands að norræna umhverfisverndarsamningnum og stefnt að því að leggja fram á yfirstandandi þingi umhverfisverndarsamninginn og tillögu um að Alþingi samþykki aðild Íslands að þessum samningi.