21.03.1988
Sameinað þing: 63. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 5916 í B-deild Alþingistíðinda. (4040)

356. mál, jafnréttisráðgjafar

Flm. (Hjörleifur Guttormsson):

Virðulegur forseti. Ég mæli hér fyrir till. til þál. um jafnréttisráðgjafa, en hún er á þskj. 688. Með mér standa að þessari till. eftirtaldir hv. þm.: Kristín Einarsdóttir, Árni Gunnarsson og Aðalheiður Bjarnfreðsdóttir.

Till. er svohljóðandi, með leyfi virðulegs forseta: „Alþingi ályktar að fela ríkisstjórninni að ráða á vegum félmrn. þrjá jafnréttisráðgjafa til þriggja ára sem hafi það verkefni að vinna að leiðréttingu á stöðu kvenna í stofnunum og fyrirtækjum um land allt í samvinnu við starfsmenn og stjórnendur.

Laun ráðgjafanna og annar kostnaður vegna starfa þeirra greiðist úr ríkissjóði.“

Þetta er tillögutextinn, en í grg. er þörfin á þeim aðgerðum sem í till. felast rökstudd. Meðal fyrirhugaðra verkefna þeirra jafnréttisráðgjafa sem till. gerir ráð fyrir er að ná fram leiðréttingu á stöðu kvenna í stofnunum og fyrirtækjum og eru tiltekin eftirtalin:

Í fyrsta lagi: Söfnun upplýsinga um hindranir í vegi jafnréttis og aukinna áhrifa kvenna á vinnumarkaði. — Þar er um fjölmörg atriði að ræða sem of langt væri upp að telja hér í framsögu og hins vegar vantar bæði upplýsingar um slíkar hindranir og aðstoð við starfsmenn og stjórnendur fyrirtækja að ryðja þeim úr vegi.

Í öðru lagi: Aðstoð við starfsmenn og stjórnendur fyrirtækja og stofnana við að móta og fylgja eftir áætlunum um jafnréttisaðgerðir. - Þarna er gert ráð fyrir því að mótaðar verði í stofnunum og fyrirtækjum áætlanir um aðgerðir til þess að jafna stöðu kynjanna. Það yrði eitt af hlutverkum jafnréttisráðgjafa samkvæmt hugmyndum flm. að hjálpa til við að móta slíkar aðgerðir og fylgja þeim eftir. Ég minni í þessu sambandi á hugmyndir, sem Jafnréttisráð hefur nýlega viðrað og eru til athugunar að ég hygg hjá hæstv. félmrh. þessa dagana, um að ráðuneyti og stofnanir á vegum ríkisins móti sérstaklega á sínum vegum jafnréttisáætlanir eða áætlanir um aðgerðir til þess að leiðrétta stöðu kvenna í ráðuneytum og opinberum stofnunum sem undir þau heyra. Slík stefna hefur verið tekin upp á Norðurlöndum, bæði í Noregi og Danmörku að mér er kunnugt og unnið samkvæmt slíkum áætlunum í þeim löndum og sjálfsagt víðar.

Í þriðja lagi: Upplýsinga- og skipulagsstörf þar sem m.a. verði miðlað reynslu milli fyrirtækja og stofnana um aðgerðir í jafnréttismálum svo og aflað vitneskju erlendis frá. — Fræðsla í þessum efnum og upplýsingar eru vissulega mikils virði eins og á öllum sviðum þar sem menn vilja ná árangri og þarna þarf að vinna skipulega og markvisst.

Í fjórða lagi: Stuðningur við mótun og framkvæmd sérstakra verkefna á vegum stofnana og fyrirtækja sem miða að því að bæta stöðu kvenna. - Þarna eru sérstaklega hafðar í huga séraðgerðir til þess að flýta fyrir að jafnstaða náist með kynjunum á grundvelli 3. gr. laga um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla, laga nr. 65/1985. Í því sambandi minni ég á að fyrir þinginu liggur á þskj. 694 till. til þál. um sérstakar tímabundnar aðgerðir til að bæta stöðu kvenna, flutt af fjórum hv. þm., og hefur ekki enn þá verið mælt fyrir þeirri till. hér. Ég fagna framkomu hennar og bendi á að eitt af verkefnum jafnréttisráðgjafa yrði einmitt að aðstoða við að móta slíkar séraðgerðir á grundvelli 3. gr. laga um jafna stöðu kynjanna. En allt of lítið hefur fram að þessu verið gert að því að nýta þær lagaheimildir sem felast í 3. gr. nefndra laga.

Í fimmta lagi: Fræðslu- og útgáfustarfsemi um jafnréttismál og vinnumarkaðinn. — Það er margt sem hefur verið dregið fram í dagsljósið í könnunum að undanförnu og kemur reyndar reglubundið fram, m.a. í upplýsingum frá kjararannsóknarnefnd, hvernig staðan er í þessum málum, hversu gífurlega hallar á konur í samfélaginu í sambandi við launamálin. Það skiptir miklu að slíkum upplýsingum sé haldið til haga og þær séu aðgengilegar með skipulegum hætti til þess að auðvelda starf að jafnstöðumálum eða jafnréttismálum hvort heldur við kjósum að kalla það.

Í sjötta lagi er nefnd í grg. samvinna og tengsl við starfsmannafélög, verkalýðsfélög, atvinnurekendur, ráðuneyti og ríkisstofnanir, svo og sveitarfélög, um aðgerðir til að bæta stöðu kvenna. Hér eru taldir margir aðilar og auðvitað verður að velja úr og raða verkefnum í forgangsröð, en sjálfsagt er að jafnréttisráðgjafar hafi sem best samband við svokallaða aðila vinnumarkaðarins sem og opinbera aðila, ráðuneyti, stofnanir, ríkisstofnanir og sveitarfélög.

Í sjöunda lagi er nefnd hvatning til stærri fyrirtækja og stofnana um að koma upp jafnréttisráðgjöf á eigin vegum. Það hefur verið gert erlendis í nokkrum stærri fyrirtækjum, að mér er kunnugt, á Norðurlöndum m.a., að þau hafa ráðið á sínum vegum sérstaka ráðgjafa til þess að ýta á eftir endurbótum varðandi stöðu kvenna í fyrirtækjunum. Þess verður að vænta að stórfyrirtæki hérlendis og sem flest fyrirtæki leggi nokkuð af mörkum sjálf með því að ráða til sín í störf eða hluta úr starfi aðila til þess að bæta stöðu fyrirtækjanna að þessu leyti. Ég held að sá tími muni fyrr en síðar renna upp að mönnum verði það ljóst, einnig þeim sem stjórna fyrirtækjum, að það er til hagsbóta að veita konum þar jafnan rétt á við karla og fá fleiri konur í áhrifastöður í fyrirtækjunum og atvinnulífinu en gerst hefur til þessa.

Ég er ekki að segja að það séu kannski mjög mörg teikn á lofti sýnileg, en ég hygg að í gerjun í samfélaginu séu þó viðhorf sem eigi eftir að ýta undir slíkar breytingar. Það vona ég a.m.k.

Eins og ekki ætti að þurfa að fjölyrða um hér á vettvangi Alþingis eru konur þrátt fyrir lagaákvæði mun verr settar en karlar á flestum sviðum þjóðlífsins og það skortir mikið á markviss viðbrögð stjórnvalda til úrbóta. Það nægir að minna á að konur eru í miklum meiri hluta í láglaunastörfum og meðallaun þeirra hafa farið lækkandi undanfarin ár í samanburði við laun karla. Fáar konur eru í áhrifastöðum í atvinnulífinu og hlutur þeirra er langtum minni en karla í stjórnmálalífi og í stjórnum, nefndum og ráðum á vegum ríkis, sveitarfélaga og félagasamtaka. Þetta var leitt í ljós með skilmerkilegri könnun Jafnréttisráðs sem var birt sem fskj. með frv. til laga um breyt. á lögum nr. 65/1985 sem ég flutti ásamt hv. 13. þm. Reykv. fyrr á þessu þingi en það frv. gerði einmitt ráð fyrir því að settur yrði á svokallaður kvóti varðandi skipan í nefndir, stjórnir og ráð til þess að bæta hlut kvenna með ákveðnum hætti og ákveðnari hætti en lög gera ráð fyrir enn sem komið er. Það mál er til meðferðar hér í þinginu og ég vona að það fái undirtektir og stuðning, því að á því er fyllsta þörf.

Staða kvenna annars staðar á Norðurlöndum en á Íslandi er mun skárri en hér að þessu leyti og kemur þar vafalaust margt til, ekki síst betri félagslegar aðstæður og þróað velferðarkerfi.

Ég gæti vísað í talsvert löngu máli, virðulegur forseti, til reynslunnar á hinum Norðurlöndunum og þeirrar vinnu sem þar er í gangi um þessi efni. Ég verð hins vegar að stikla þar á stóru. Ég er með hér í fórum mínum í þessum ræðustól nokkra bæklinga um þessi efni sem sýna vel hvernig að þessum málum er staðið í grannlöndunum. Hér er t.d. bæklingur frá Noregi, frá norska jafnréttisráðinu, sem heitir „Likestilling í arbejdslivet?" og gæti heitið á íslensku: Hvernig á að ná jafnstöðu kynja á vinnumarkaði? Efni hans er framhald af erindi sem norska jafnréttisráðið, Likestillingsraadet, sendi til forstöðu- og trúnaðarmanna í 1500 fyrirtækjum sem aðild eiga að norska vinnumálasambandinu. Í þessari bók er að finna tillögur um aðgerðir og aðferðir í jafnréttisstarfi. Samsvarandi erindi var sent forstöðu- og trúnaðarmönnum í samtökum verslunareigenda, þ.e. til fyrirtækja sem hafa yfir 20 manns í vinnu. Í þessu hefti eru dæmi um aðgerðir og áætlanir, sérsamninga, staðbundna samninga og dæmi um launaákvarðanir til þess að bæta stöðu kvenna. Dæmin eru frá ýmsum fyrirtækjum, opinberum fyrirtækjum og einkafyrirtækjum. Þetta sýnishornasafn gefur góða mynd af því hvernig unnið er að jafnréttismálum í fyrirtækjum af ólíkri gerð í Noregi, hvaða mál eru tekin til meðferðar, hvaða aðgerðir er ráðist í og einnig um stofnanir og stjórnvaldsaðgerðir til þess að fylgja málum eftir og meta árangur af vinnu til að ná fram jafnstöðu kynjanna.

Ég er einnig með handa á milli framkvæmdaáætlun á vettvangi sveitarfélaga í Noregi, gefna út 1987 að ég hygg, og þar er m.a. að finna erindi sem samband norskra sveitarfélaga sendi út til sinna meðlima, þ.e. áætlun um aðgerðir til að ná fram jafnstöðu kynjanna, samþykkta af stjórn sambands sveitarfélaga í Noregi. Varðandi þetta segir m.a. í þessu erindi: Lögin - þ.e. lögin um jafna stöðu karla og kvenna, norsku lögin - kveða á um að hið opinbera beri ábyrgðina á að breyta aðstæðum þannig að raunveruleg jafnstaða náist. Þetta felur í sér að öll opinber stjórnvöld eiga að leggja mikla áherslu á að vinna að jafnréttismálum hvert á sínu sviði.

Um ábyrgð á framkvæmd segir þar: Ábyrgðin á að tryggð sé jafnstaða kynjanna sem frekast má verða hvílir á ráðandi pólitískum stofnunum í einstökum sveitarfélögum og fylkjum. Aðilar leggja til að vinna að tillögum um ákveðnar áætlanir og framkvæmd á því sem í gangi er sé á hendi stjórnunarnefnda, á norskunni „administrasjonsutvalg“. Aðilar ganga út frá því - Virðulegur forseti, er ég að renna út á tíma? Það kemur mér á óvart. - að stjórnunarnefndin móti áætlun um vinnu að jafnrétti á vinnustaðnum. — Ég skal stytta mál mitt. - Áætlanirnar skulu fela í sér yfirlit eða kortlagningu eins og það er kallað á norskunni um stöðuskiptingu milli kvenna og karla, greiningu á aðstæðum og tillögur um aðgerðir.

Síðan er fjallað í þessu erindi til sveitarfélaga í Noregi um markmið í jafnréttisstarfinu og væri fróðlegt að hafa það hér yfir en ég skal ekki ganga óhóflega á tímann. Ég kannski vík að þessum atriðum frekar ef fleiri taka til máls um þetta efni. Ég hefði kosið að geta komið á framfæri frekari upplýsingum um þetta, m.a. geta um framkvæmdaáætlunina norsku, fjárveitingar til einstakra aðgerða í jafnréttisbaráttunni þar eða kvenfrelsisbaráttunni, svo og í Svíþjóð, en ég hef ekki tíma til þess að taka á því sérstaklega.

Að lokum, virðulegur forseti: Gert er ráð fyrir að á umræddu þriggja ára tímabili sem jafnréttisráðgjafar störfuðu beri ríkissjóður kostnað af starfi þeirra. Ef litið er til reynslu af kostnaði við störf iðnráðgjafa í landshlutunum undanfarin ár má reikna með að heildarkostnaður vegna eins jafnréttisráðgjafa nemi 3–3,5 millj. kr. á verðlagi yfirstandandi árs eða samtals um 10 millj. kr. á ári vegna þriggja ráðgjafa. Eðlilegt má telja að félmrh. leiti umsagnar Jafnréttisráðs um umsækjendur um stöður jafnréttisráðgjafa ef till. verður samþykkt áður en í þær stöður er ráðið og að konur hafi forgang sem ráðgjafar á þessu sviði.

Ég tel rétt, og við fim., að árangur af starfi slíkrar ráðgjafar verði metinn að fenginni tveggja ára reynslu og að því búnu verði mótuð stefna um áframhaldandi tilhögun slíkrar ráðgjafarstarfsemi.

Ég vil leggja til, virðulegur forseti, að að lokinni umræðu verði þessari till. vísað til hv. félmn.