21.03.1988
Sameinað þing: 63. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 5920 í B-deild Alþingistíðinda. (4041)

356. mál, jafnréttisráðgjafar

Danfríður Skarphéðinsdóttir:

Herra forseti. Við kvennalistakonur styðjum þá till. til þál. sem hér hefur verið mælt fyrir vegna þess að við teljum að eins og staða mála er enn þann dag í dag, þrátt fyrir umræður liðinna ára og mikla baráttu kvenna fyrir bættum hag sínum, hvort sem er á vinnumarkaði eða inni á heimilunum, sé komið að þeim punkti að við skyldum láta einskis ófreistað til þess að ná fram þeim sjálfsögðu réttindum sem konur ættu að hafa á vinnumarkaðinum til jafns við karla og er reyndar í anda jafnréttislaganna.

Hæstv. félmrh. hefur lýst góðum vilja sínum í þessum efnum og gert skipulag um þær stofnanir sem tilheyra ríkinu og gefið ráðamönnum þar fyrirmæli um að bæta stöðu kvenna hvað stöðuveitingar snertir. Þetta er góðra gjalda vert en hrædd er ég um að við séum öll, bæði karlar og konur, oft á tíðum samdauna því kerfi sem við höfum búið við í gegnum tíðina og það sé því jafnvel nauðsynlegt að grípa til slíkra ráða að hafa sérstaka ráðgjafa sem fylgjast með og veita upplýsingar og ráðgjöf.

Þetta er ein leið sem hægt er að velja til þess að koma á jafnrétti kynjanna á vinnumarkaðinum en vonandi er hún, eins og svo margar aðrar, aðeins tímabundin og því fagna ég því að þessi till. hefur hér verið fram borin en eins og fram kemur er hv. 12. þm. Reykv. Kristín Einarsdóttir meðflm. að till. og við kvennalistakonur styðjum hana.