21.03.1988
Sameinað þing: 63. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 5920 í B-deild Alþingistíðinda. (4042)

356. mál, jafnréttisráðgjafar

Alexander Stefánsson:

Virðulegur forseti. Út af fyrir sig er ég ekkert að finna að því að svona till. sé lögð fram en það sem ég tel ástæðu til að taka hér til máls í sambandi við þessa umræðu er það að við erum með jafnréttislög í landinu, um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla, lög nr. 65/1985, þar sem skilmerkilega er tekið fram hvernig að þessum málum skuli standa og einnig er ítarlega tekið fram í þeim lögum orðum um það verksvið sem um er að ræða, jafnframt tekið fram í V. kafla þeirra laga hvernig á að framkvæma þessi lög og til þess er skipað Jafnréttisráð sem á að annast framkvæmd laganna.

Mér finnst ástæða til, vegna þess að hér er að sjálfsögðu um mikilvægt mál að ræða sem er mikið til umræðu í þjóðfélaginu og sjálfsagt verða menn að viðurkenna það að það þokast til réttrar áttar þó að hægar gangi en margir vildu óska, að vekja athygli á því að Jafnréttisráð er ekkert smáfyrirtæki í þessum málum, miðað við gildandi lög, og ég tel ástæðu til að rifja það upp við þessa umræðu að samkvæmt 15. gr. gildandi laga er verkefni Jafnréttisráðs skilgreint:

„1. Sjá um að ákvæðum 2.–12. gr. laga þessara sé framfylgt, þ.e. meginkjarna laganna.

2. Vera stefnumótandi aðili í jafnréttismálum hér á landi. Skal ráðið vinna framkvæmdaáætlun til fjögurra ára í senn og leggja fyrir félmrh. Þar skal kveðið á um aðgerðir til að koma á jafnrétti kynjanna.“ Ein slík áætlun hefur verið lögð fyrir Alþingi, á síðasta ári.

„3. Vera ráðgefandi gagnvart stjórnvöldum, stofnunum og félögum í málefnum er varða jafna stöðu og jafnrétti með konum og körlum.

4. Sjá um fræðslu og upplýsingastarfsemi til félagasamtaka og almennings.

5. Fylgjast með þjóðfélagsþróuninni, sem m.a. varðar þetta lagaefni, og gera tillögur til breytinga til samræmis við tilgang laganna.

6. Stuðla að góðri samvinnu við samtök atvinnurekenda og launafólks og önnur félagasamtök svo að stefnu og markmiði þessara laga verði náð með sem eðlilegustum hætti.

7. Taka til rannsóknar af sjálfsdáðun stöðu kvenna og karla að því leyti er lög þessi varðar. Opinberum stofnunum, atvinnurekendum og félagasamtökum á vinnumarkaði er skylt að veita Jafnréttisráði hvers konar upplýsingar hér að lútandi.

8. Að taka við ábendingum um brot á ákvæðum þessara laga og rannsaka málið af því tilefni og senda að rannsókn lokinni niðurstöður til þeirra aðila sem málið snertir.

9. Hafa samband við jafnréttisnefndir sveitarfélaga“ í landinu.

Það væri að sjálfsögðu hægt að ræða þetta hlutverk miklu ítarlegar en ég skal ekki tefja hér umræður og fara nánar út í þetta. Eins og allir hv. alþm. vita er Jafnréttisráð skipað sjö mönnum og jafnmörgum til vara til þriggja ára í senn og þeir eru skipaðir þannig að einn er skipaður af Hæstarétti sem er formaður ráðsins, einn skipaður af félmrh. og er hann varaformaður, einn skipaður af Bandalagi starfsmanna ríkis og bæja, einn skipaður af Alþýðusambandi Íslands, einn af Vinnuveitendasambandi Íslands, einn af Kvenréttindafélagi Íslands og einn af Kvenfélagasambandi Íslands. Síðan er starfandi framkvæmdastjóri o.s.frv.

Það sem mér finnst vera erfiðast í sambandi við það mál sem hér er flutt er að það má vel vera að Jafnréttisráð, sem er þó búið að starfa þetta lengi og ætti að vera búið að fara í gegnum nokkurs konar hreinsunareld, hefur e.t.v. ekki yfir nógu miklu fjármagni að ráða til sinnar starfsemi. Það er kannski kjarni málsins. Hins vegar þegar ég lít á till. sem hér er flutt koma upp í hugann þær tillögur sem voru til meðferðar við afgreiðslu fjárlaga og það var ekki um það að ræða að tillögur frá Jafnréttisráði bæru með sér að ráðið vildi stofna til þeirra útgjalda sem hér er talað um. Ráðið sem sagt hefur það traust á lögunum og sjálfu sér í sambandi við meðferð þessara mála að það gerði ekki sérstakar tillögur í þessa veru. Það sem mér finnst vera rökrétt í þessum málum er það að allt er varðar jafnréttismál og varðar þau lög sem í gildi eru, á að koma frá ráðinu sjálfu. Það er nokkurs konar æðsti aðili í þessum málum til að framfylgja þessu sjálfsagða markmiði sem ég vænti að a.m.k. flestir þm. séu sammála um, að koma á jafnrétti á þessu sviði hér á landi sem allra fyrst og á öllum sviðum. Spurningin sem hlýtur að vefjast fyrir manni er hvort gildandi lög, eins og þau eru sett upp með góðu samkomulagi í þjóðfélaginu, nái virkilega ekki þessum tilgangi, hvort menn þurfi á því að halda að vera með sífellt nýjar og nýjar hugmyndir til þess að reyna að fá fram það sem allir eru sammála um.

Ég vildi aðeins vekja athygli á þessu. Ég tel að þetta mál eigi að vera í höndum Jafnréttisráðs og það hafi til þess alla möguleika að fylgja því fram og gera um það tillögur.