21.03.1988
Sameinað þing: 63. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 5922 í B-deild Alþingistíðinda. (4043)

356. mál, jafnréttisráðgjafar

Flm. (Hjörleifur Guttormsson):

Virðulegur forseti. Ég þakka þá umræðu sem fram hefur farið um þessa þáltill., þann stuðning sem kom fram í máli hv. 6. þm. Vesturl. Danfríðar Skarphéðinsdóttur og þær ábendingar sem fram komu frá hv. 1.þm. Vesturl. Alexander Stefánssyni, fyrrv. félmrh. Ég sé samt ástæðu til að gera nokkrar athugasemdir við það sem fram kom í hans máli, því að það var svona viss gagnrýni á þennan tillöguflutning sem þar kom fram. Hv. þm. Alexander Stefánsson lýsti því viðhorfi að eðlilegast væri að tillögur nánast um allt sem snertir jafnréttismál í landinu og leiðréttingu á stöðu kynjanna eigi upptök sín og uppruna hjá Jafnréttisráði og komi fram þaðan. Ég er auðvitað hv. þm. algerlega ósammála um það efni að Jafnréttisráð sem slíkt eigi að bera einhverja allsherjarábyrgð á því sem gerist í jafnréttismálum í landinu eða sem reynt er að þoka fram til að leiðrétta stöðu mála. Það væri skrýtið, hv. þm., ef við teldum að með því að hafa komið fótum undir einhverja stofnun í þjóðfélaginu eins og Jafnréttisráð væri þar með ástæðulaust að hreyfa málum eða fylgjast með framgangi mála á hv. Alþingi. Fyrr má nú vera forsjárhyggjan.

Þetta segi ég ekki vegna þess að ég telji ekki Jafnréttisráð allra góðra gjalda vert og ágæta stofnun sjálfsagt, margt af því sem frá henni kemur, en ég vek athygli á því að ráðinu er skammtaður afskaplega þröngur stakkur varðandi fjármagn allt frá því að það var sett á laggirnar. Þar er starfandi 11/2 kraftur fastráðinn, 11/2 stöðugildi sem ráðið hefur yfir að ráða. Það var nú ekki meiri stórhugurinn hér á hv. Alþingi við afgreiðslu fjárlaga fyrir árið 1988 að tillaga frá mér um það að bæta 1/2 stöðugildi við var felld hér í þinginu. Það er því kannski ekki von að það gæti mjög mikils sóknarþunga eða bjartsýni hjá Jafnréttisráði þegar undirtektir þingsins eru ekki betri en þetta. Og hvernig í ósköpunum halda menn að það sé mögulegt fyrir framkvæmdastjóra og hálfan starfsmann í Jafnréttisráði að vinna að málum eins og þörf væri á til þess að ráðið gæti staðið undir þeim verkefnum sem því eru falin og hv. þm. Alexander Stefánsson las upp í sínu máli úr lögunum frá 1985 um jafna stöðu karla og kvenna? Það er auðvitað alveg útilokað.

Ég tek hins vegar undir það og get vel hugsað mér það, enda er það tekið fram í grg., að það þarf að tryggja sem best tengsl þessara jafnréttisráðgjafa, sem till. gerir ráð fyrir, við Jafnréttisráð. Það er beinlínis tekið fram efst á bls. 2 í grg. með þessari tillögu að slík tengsl séu tryggð og við aðrar aðgerðir sem stjórnvöld stefna að til að ná fram jafnri stöðu kynjanna þannig að þar fer ekkert á milli mála. Þar er einnig gerð grein fyrir því sjónarmiði að það sé eðlilegt að slíkir ráðgjafar skipti með sér landinu svæðisbundið og séu í sem nánustum tengslum við það umhverfi sem þeir vinna í, þ.e. að tveir af þremur séu búsettir á landsbyggðinni en sem best tengsl séu tryggð þeirra á milli. Auðvitað eru þrír ráðgjafar á þessu sviði of lítið, en ég lagði ekki í að hreyfa tillögu um meira að þessu sinni og teldi jákvætt ef hv. Alþingi tæki undir hana og samþykkti hana og gerði þeim þannig mögulegt að fá hér reynslu á þriggja ára tímabili af starfi slíkra ráðgjafa.

Þá vil ég taka það fram og taka undir með hv. 6. þm. Vesturl. að þau eru býsna mörg verkefnin sem bíða á þessu sviði og það gerist ekkert með kyrrstöðu eða að eitthvert ráð, hversu ágætt sem það er, eigi að sýsla við málin lögum samkvæmt. Hér blasir misréttið við, öfugþróun á fjölmörgum sviðum og nánast öllum sem snertir stöðu kvenna í þessu þjóðfélagi. Eigum við þá bara að sitja hér á Alþingi og vísa í einhver lög og fyrirmæli og stofnanir sem eru fjársveltar? Nei, ég segi nei. Það gengur ekki. Og ef einhver hugur er í mönnum og ekki bara að menn láti orðin nægja, þá verða menn að taka undir í þessum efnum og styðja alla jákvæða viðleitni, ég tala nú ekki um þegar hún byggir á góðri reynslu af hliðstæðu starfi á hinum Norðurlöndunum, eins og ég hef rakið í máli mínu.

Ég var að vitna til þess hvernig samband sveitarfélaga í Noregi er að vinna að þessum málum. Ég hef kannski eina mínútu, virðulegur forseti, til þess að benda á það sem ég sleppti í framsögu minni varðandi markmiðið í jafnréttisstarfinu eins og það er orðað í erindi þeirra frá 1985 til sinna umbjóðenda:

„Aðilar eru sammála um að markmiðið í þessum þætti jafnréttisstarfsins skuli vera jafnari og réttlátari skipting á störfum milli kvenna og karla. Til skamms tíma ber að ráða fleiri konur í allar stöður í sveitarfélögunum þar sem konur eru í minni hluta“, að ráða konur í allar stöður í sveitarfélögunum, þar sem konur eru í minni hluta. „Þetta varðar ekki síst þörfina á að ráða fleiri konur í áhrifastöður og hærra launaðar stöður. Þessu má ná fram með starfsmannaskipulagi, eftirmenntun og framhaldsmenntun og öðrum aðgerðum. Konum er veittur forgangur til starfa þegar hæfni til starfa er að öðru leyti jöfn“, þ.e. norskir sveitarstjórnarmenn eru með tillögu um það að konum verði veittur forgangur til starfa þegar hæfni til starfa er að öðru leyti jöfn, hafi þar forgang sem sagt. Þar segir í lokin:

„Aðilar hafa ekki á móti því að sveitarstjórnir ákveði að setja það sem markmið að innan ákveðins tíma verði tiltekið prósentuhlutfall áhrifastarfa skipað konum.“

Þetta segir stjórn sambands sveitarfélaga í Noregi og það væri betur að samband sveitarfélaga hér á Íslandi hefði sett sér einhver slík markmið. Ég vildi gjarnan sjá það. Hv. 1. þm. Vesturl., sem hefur verið gildur á vettvangi sveitarstjórnanna, gæti kannski ýtt við þeim ásamt fleirum að taka á í þessum efnum. En þarna hallar svo á í sambandi við stöðu kynjanna að það er hreinlega hróplegt. Og þetta blasir auðvitað alls staðar við þar sem verið er að ráða í störf og stöður, að yfirleitt eru það karlarnir sem hafa þar forgang þó að konurnar séu með kannski betra vegarnesti í reynd. Ef við meinum eitthvað með lögunum um jafna stöðu og jafnan rétt karla og kvenna og 3. gr. þeirra laga, um að veita konum tímabundinn forgang, verður eitthvað að gera í þessum efnum, þá verður að sýna það í verki en ekki skrifa undir skipunarbréf eins og altítt er uppi í ráðuneytum t.d. þar sem karlarnir eru látnir hafa forgang þvert á það sem eðlilegt getur talist.

En ég vil ekki gleyma því sem vel er gert í þessum efnum. Vísir að því er sameiginlegt lítið dreifibréf sem Jafnréttisráð og Vinnumálasamband Íslands hafa staðið að, örlítið dreifibréf þar sem menn lýsa yfir vissum vilja eða vekja athygli á lélegri stöðu kvenna á vinnumarkaði og lýsa sig reiðubúna til að taka á þessum málum. Þetta er vísir og það þarf að fylgja þessum málum eftir. Það þarf að fylgja þessum málum eftir hvarvetna í samfélaginu. Þetta er spurning um stefnu. Þetta er spurningin um heildarstefnu, þetta er líka.spurningin um efnahagsstefnu og þetta er spurningin um forgang mála.