21.03.1988
Sameinað þing: 63. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 5924 í B-deild Alþingistíðinda. (4044)

356. mál, jafnréttisráðgjafar

Alexander Stefánsson:

Virðulegi forseti. Það var ekki meining mín að standa í orðahnippingum um þetta mál. Ég taldi eðlilegt að vekja athygli á lögunum um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla þar sem öll þessi mál, sem hv. 2. þm. Austurl. er að tala um, eru einmitt í þessum lögum og eru einmitt hlutverk ráðsins. Það var það sem ég vildi vekja athygli á. Ég vildi einnig vekja athygli á því að ráðið á samkvæmt lögum að gera fjögurra ára framkvæmdaáætlun um framkvæmd laganna, um framkvæmd þess að ná fram því sem hv. 2. þm. Austurl. hefur verið að ræða í báðum sínum ræðum hér í dag. Það er einmitt þetta sem ég tel að þurfi að vekja athygli á og ég hef ekki orðið var við annað en Jafnréttisráð hafi fyllsta skilning og áhuga á því að koma þessum málum á réttan veg. Þarna eru fulltrúar vinnumarkaðarins og þarna eru fulltrúar ýmissa kvenréttindafélaga og fleiri í þessu ráði sem hafa jákvæðan skilning á þessum málum. Ég vil bara vekja athygli á því að ég tel að Jafnréttisráð vinni að þessum málum eftir eðlilegum leiðum. Það vantar ekki stefnuna. Það vantar e.t.v. að hraða framkvæmdinni meira en hv. þm. vilja. En ég held að þetta stefni samt örugglega í rétta átt og ég lýsi fyllsta trausti á Jafnréttisráð.