21.03.1988
Sameinað þing: 63. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 5925 í B-deild Alþingistíðinda. (4046)

356. mál, jafnréttisráðgjafar

Árni Gunnarsson:

Virðulegi forseti. Ég vil aðeins blanda mér í þessa umræðu. Því miður missti ég af mestum hluta hennar, en ég er einn af flm. þessarar þáltill. og þótt merkilegt kunni að virðast varaformaður Jafnréttisráðs þannig að ég gæti lagt eitthvað til málanna.

Ég skrifaði á þessa till. vegna þess að ég hygg að það þurfi að hnykkja á verulega í þeirri jafnréttisbaráttu sem nú á sér stað. Mín skoðun hefur lengi verið sú að því fyrr sem karlmenn skilja nauðsyn þess að konur öðlist jafnrétti á borð við þá, því fyrr má ætla að það þjóðfélag sem við búum í fari ögn að skána.

Það sem hefur verið að gerast á vegum stjórnvalda í jafnréttismálum er að verið er að undirbúa miklar tillögur í félmrn. um framkvæmd 3. gr. jafnréttislaganna, um jafnrétti karla og kvenna til starfa hjá hinu opinbera, en staðreyndin er sú að það er skoðun flestra, sem um þessi mál fjalla, að ríkið hafi í raun og veru gengið lengra til móts við kröfuna um jafnrétti en aðrir aðilar í þjóðfélaginu og þá m.a. hinn almenni vinnumarkaður. Ráðuneytin eru núna og munu á næstunni móta tillögur um hvernig komið verður til móts við 3. gr. jafnréttislaganna um jafnan rétt karla og kvenna til starfa hjá ríkinu og til launa hjá ríkinu og ég vænti þess að það mál fái einhver úrslit áður en mjög langt um líður.

Ég vil bara segja að stuðningur minn við þessa till. byggist í grundvallaratriðum á því að ég tel að það þurfi miklu betur að gera í jafnréttismálum en gert hefur verið og við þurfum að ýta á eftir því að jafnréttislögunum verði framfylgt á miklu víðari vettvangi en innan dyra hins háa Alþingis í þeirri umræðu sem þar fer fram. Þetta er sá málaflokkur sem brennur nú einna heitast á okkur um þessar mundir og við þurfum að aðgæta vandlega á hvaða leið og ferðalagi við erum í þessum jafnréttismálum.

Ég vildi láta þetta koma fram, virðulegi forseti, vegna þess að það er verið að vinna talsvert mikið verk, bæði á vegum Jafnréttisráðs og félmrn., til þess að auka og efla jafnrétti karla og kvenna til launa og starfa innan ríkisgeirans og ég vænti þess að þessi barátta nái út fyrir ramma ríkisins og þá inn í hinn almenna geira vinnumarkaðarins sem hefur á stundum tekið heldur þunglega og treglega í þær tillögur sem fram hafa komið. Þetta vildi ég láta koma fram.