21.03.1988
Sameinað þing: 63. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 5932 í B-deild Alþingistíðinda. (4053)

368. mál, samvinna Íslands, Færeyja og Grænlands á sviði markaðsmála

Flm. (Steingrímur J. Sigfússon):

Herra forseti. Ég mæli fyrir till. til þál. um samvinnu Íslands, Færeyja og Grænlands á sviði markaðsmála og viðskipta. Flm. ásamt mér eru hv. þm. Alexander Stefánsson, Árni Gunnarsson, Danfríður Skarphéðinsdóttir, Friðjón Þórðarson og Óli Þ. Guðbjartsson. Þessir hv. alþm. eru ásamt mér allir meðlimir í Vestnorræna þingmannaráðinu og till. er flutt af Íslandsdeild Vestnorræna þingmannaráðsins. Tillgr. er svohljóðandi, með leyfi forseta:

„Alþingi ályktar að fela ríkisstjórninni í samráði við Íslandsdeild Vestnorræna þingmannaráðsins að láta kanna hvernig unnt sé að auka samstarf og samvinnu Íslendinga, Færeyinga og Grænlendinga á sviði markaðsmála og viðskipta. Sérstaklega verði athugað hvernig þjóðirnar, með auknu samstarfi og bættum samgöngum sín í milli, geti styrkt stöðu útflutningsstarfsemi sinnar og aukið innbyrðis viðskipti.

Endanlegar niðurstöður þessara athugana skulu lagðar fyrir Alþingi í formi skýrslu fyrir árslok, en bráðabirgðaniðurstöður unnar fyrir mitt sumar fyrir Íslandsdeild Vestnorræna þingmannaráðsins.“

Málið á sér þann aðdraganda að á fundum Vestnorræna þingmannaráðsins, bæði í Færeyjum sl. haust og einnig áður á fundum á Selfossi árið 1986 og í Nuuk í Grænlandi 1985, hefur viðskipti þjóðanna og samstarf því tengt borið á góma, nú síðast með þeim hætti að fluttar voru tvær tillögur, önnur af fulltrúum Íslendinga í ráðinu og hin af færeyskum þm., sem snerta þetta efni. Áhugi granna okkar í austri og vestri er mikill á því að þessar þjóðir auki samstarf sitt á þessum sviðum og hefur það reyndar farið mjög vaxandi, sérstaklega viðskiptin, en minna verið um skipulegt átak til að auka samstarf, skilning og vitneskju opinberra aðila í löndunum um það hvernig best verði að þessu staðið.

Þess ber að geta að þrátt fyrir mismunandi þjóðréttarlega stöðu þessara þjóða eru bæði Grænlendingar og Færeyingar utan Evrópubandalagsins og eiga þar með í viðskiptalegu tilliti að mörgu leyti fremur samleið með okkur en móðurlandinu Danmörku. Það er því fyllilega eðlilegt að hugleiða möguleikann á aukinni samstöðu þessara þriggja þjóða í Norðaustur-Atlantshafi í alþjóðlegum samskiptum, a.m.k. á þessu sviði.

Ég hygg að það sé óþarft að fara mörgum orðum um nauðsyn þess og gildi að samstarf okkar sé sem best á þessum sviðum. Ég nefni aðeins að viðskipti hafa farið ört vaxandi og hef ég um það upplýsingar til að mynda fyrir þrjú sl. ár. Er e.t.v. fróðlegt fyrir hv. þm. að heyra þær tölur hvernig útflutningur t.d. frá Íslandi til Færeyja og Grænlands hefur farið hraðvaxandi sl. ár. Útflutningur frá Íslandi til Færeyja var á árunum 1985–1987 í millj. kr. á verðlagi hvers árs 282 millj. árið 1985, 248 millj. árið 1986 og 333 millj. árið 1987. Útflutningur frá Íslandi til Grænlands var 14 millj. árið 1985, 44 millj. árið 1986 og 123 millj. árið 1987, og virðist ljóst af þeim mánuðum yfirstandandi árs sem liðnir eru að þar sé um áframhaldandi vöxt að ræða. Innflutningur okkar frá þessum löndum hefur einnig vaxið nokkuð, einkum frá Færeyjum til Íslands og er þannig ljóst að um gagnkvæmt vaxandi samskipti er að ræða á þessu sviði.

Hvað varðar viðskiptakjörin er staða mála í stuttu máli sagt þannig að í gildi er formlegur samningur milli Íslands og Danmerkur um viðskipti milli Íslands og Grænlands og er hann í megindráttum á þá leið að EFTA-kjör skuli gilda í gagnkvæmum viðskiptum milli þessara þjóða þó að ekki sé fyrir að fara slíkri aðild af hálfu Grænlendinga eða Danmerkur. Milli Íslands og Færeyja hefur hins vegar gilt um alllanga hríð óformlegt samkomulag sem er á svipaða lund. Það má því segja að þessi mál séu hvað framkvæmdina varðar í sæmilegu horfi en rétt er að vekja athygli á því aftur að hér er í raun og veru eingöngu um óformlegt samkomulag að ræða hvað snertir viðskipti Íslendinga og Færeyinga. Þetta þýðir, eins og hv. alþm. er eflaust kunnugt, tollfrelsi á mjög mörgum vöruflokkum en þeir vöruflokkar sem falla utan samningsákvæða EFTA eru þá undanskildir og sömuleiðis þeir vöruflokkar þar sem ekki er um samkeppnisvörur eða samkeppnisiðnað að ræða.

Það er síðan fjöldamargt annað en það sem varðar tollamálin beint sem ástæða væri til að fara yfir í þessu sambandi og ræða, en ég ætla ekki að fjölyrða um það að svo stöddu. Ég held að öllum sé það ljóst að þær breytingar sem orðið hafa bæði með vaxandi samskiptum við þessa granna okkar, næstu granna okkar í austri og vestri, svo og breytt staða Grænlendinga í þjóðréttarlegu tilliti eftir að þeir gengu út úr Efnahagsbandalaginu og taka nú með hverju ári sem líður í vaxandi mæli forræði í eigin hendur hvað varðar sín mál, kalli á það að við skoðum þessa stöðu og endurmetum hana.

Það eru einnig að verða miklar breytingar á samgöngum á milli Íslands, Grænlands og Færeyja sem gera það að verkum að viðskipti milli landanna búa nú við betri og batnandi skilyrði en áður var. Einkum og sér í lagi á þetta við um vöruflutninga milli Íslands og Grænlands, en til skamms tíma þurfti öll þungavara að fara um eina uppskipunareða útskipunarborg í Danmörku áður en beinar siglingar komust á milli Íslands og Grænlands. Þær eru nú fyrir hendi og þess er að vænta að siglingatíðnin aukist á næstunni.

Herra forseti. Ég ætla ekki að hafa um þetta fleiri orð. Ég vona að þessi till. okkar mæti skilningi. Málið fékk þá afgreiðslu á fundi Vestnorræna þingmannaráðsins í Þórshöfn í Færeyjum sl. haust að tillaga flutt af fulltrúum Íslands í ráðinu var samþykkt, en tillögu fluttri af færeyskum þm. var vísað áfram til frekari umfjöllunar í ráðinu og málinu í heild, þannig að það er ljóst að það kemur til umfjöllunar á fundi ráðsins næsta sumar eða næsta haust á Grænlandi. Við fulltrúar Íslands í ráðinu leggjum á það mikla áherslu að þeim upplýsingum sem til þarf hafi þá verið safnað og a.m.k. bráðabirgðaniðurstöður liggi fyrir um úttekt á þessum málum sem við gætum haft í farteskinu á þann fund. Það er því von mín að þessi till. mæti skilningi og brugðist verði fljótt við þannig að þeir mánuðir sem til stefnu eru verði notaðir til að vinna málinu framgang hér heima fyrir og afla þeirra upplýsinga sem til þarf.

Að loknum þessum hluta umræðunnar, herra forseti, legg ég til að málinu verði vísað til hv. utanrmn.