21.03.1988
Sameinað þing: 63. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 5934 í B-deild Alþingistíðinda. (4055)

368. mál, samvinna Íslands, Færeyja og Grænlands á sviði markaðsmála

Óli Þ. Guðbjartsson:

Hæstv. forseti. Hér er til umræðu till. til þál. um samvinnu Íslands, Færeyja og Grænlands á sviði markaðsmála og viðskipta. Eins og fram hefur komið í máli beggja þeirra hv. þm. sem hér hafa talað fyrir þessu máli er till. flutt af öllum fulltrúum Íslands í Vestnorræna þingmannaráðinu. Hún er í rauninni mjög samhljóða því sem samþykkt var í Þórshöfn í Færeyjum í haust.

Nú er það svo að þessi samtök, þingmannaráðið, eru náttúrlega eingöngu ráðgefandi. Það eru þjóðþingin ein sem geta tekið raunverulegar ákvarðanir í þessu efni og hér er einmitt verið að leggja til eina slíka af okkar hálfu.

Till. er í rauninni tvíþætt. Hún er annars vegar um það að styrkja stöðu útflutningsstarfsemi þessara þjóða og hins vegar um að auka innbyrðis viðskipti. Það kom fram í máli bæði frsm. og þess sem seinast talaði að samskipti hafa verið allveruleg á undanförnum árum. Mér dettur í hug í því sambandi að minna á samstarf Færeyinga og Íslendinga í fisksölumálum. Þau hafa verið nokkur líklega síðan um 1970. En þau hafa verið á þá lund að fámennari aðilinn hefur í rauninni falið hinum fjölmennari verkefnið. Það er ákveðinn samningur sem hefur verið í gildi á milli Coldwater, fyrirtækis Íslendinga í Vesturheimi, og Fisksölu Færeyinga, á þann veg að Coldwater hefur selt allar afurðir Færeyinga sem fluttar hafa verið vestur um haf fyrir þá. Arðsins af þessari starfsemi höfum við hins vegar notið. Ég veit ekki betur en þessi samvinna hafi verið ágæt, en hún hefur að vísu verið nokkuð á takmörkuðu sviði.

Álíka samvinna hefur ekki verið með Grænlendingum enn sem komið er. Það er vitaskuld vegna þess að danska Grænlandsverslunin hefur verið nánast einráð fram undir þetta. En þar er nú að verða breyting á svo að e.t.v. er þarna að verða flötur til samvinnu frekar en verið hefur. Ég býst þó við því að þessi samvinna Færeyinga og Íslendinga í fisksölumálum hefði mátt færast víðar. Það er t.d. athyglisvert að þegar við byrjum með svipaða sölu í Bretlandi, þá eru Færeyingar búnir að hasla sér þar völl á undan okkur. Þar var þó ekki um að ræða sams konar samvinnu. Ekki af því að Færeyingar vildu það ekki. Þeir vildu frekar að því er mér er tjáð að Íslendingar hefðu svipaða samvinnu og í Vesturheimi, en fulltrúar Íslendinga munu ekki hafa haft á því sérstakan áhuga þannig að verksmiðjur okkar og Færeyinga standa nú nánast hlið við hlið, eru í ágætri samvinnu en þó fyrst og fremst samkeppni.

Nú erum við að hasla okkur völl suður í Frakklandi þessar vikurnar eða þessa mánuði. Það er nýbúið að opna skrifstofu suður í Boulogne. Þar erum við einir á ferð þannig að þetta sýnir í sjálfu sér að það er meira en tímabært að ræða þessa hluti svipað og hér er lagt til. Það fer ekkert á milli mála að eyþjóðirnar þrjár í Norður-Atlantshafi eiga samleið. Þær byggja nánast á sömu grundvallaratvinnugrein og þær eiga vissulega samleið í harðnandi samkeppni á stóru markaðssvæðunum þremur: í Vesturheimi, í Evrópu og í Japan.

En það er seinni hluti þessarar till. sem mig langaði aðeins til þess að fara nokkrum orðum um sérstaklega, um aukin innbyrðis viðskipti. Þar held ég að við Íslendingar eigum ekki minni möguleika og í rauninni kannski allar þjóðirnar ekki minni möguleika að hafa arð af þeim. Þar er þessa mánuðina að gerast dálítið merkilegur hlutur að ég tel í samvinnu Grænlendinga og Íslendinga og það er dálítið athygli vert að fylgjast með því hvernig sú breyting verður þegar um hlutina er að losna hjá Grænlendingum.

Hér á landi starfar tiltölulega ungt fyrirtæki sem heitir Icecon, sem er samsteypufyrirtæki SH, SÍS og SÍF. Þetta fyrirtæki er nú að vinna fyrir Grænlendinga, flytur héðan út tækniþjónustu á því sviði þar sem við erum sterkastir. Þeir hanna nú og selja nánast fiskiðnaðarfyrirtæki fullbúin til Grænlands. Þarna er um að ræða eitt dæmi þar sem þjóðirnar þrjár eiga vafalaust mikla samleið. Og mér kæmi ekki á óvart þó að sá undirstöðuatvinnuvegur okkar Íslendinga, sem nú stendur höllustum fæti varðandi sölumöguleika á afurðum sínum, og þar á ég við landbúnaðinn, hefði ekki litla möguleika í þessari samvinnu í náinni framtíð ef af verður.

Í lokin langar mig að minna á eitt atriði. Færeyingar eru langt á undan okkur að einu leyti á tæknisviði. Það er að jarðgangagerð. Þar hafa þeir tekið forustu. Og þeir hafa gert það á þann veg að þeir hafa einbeitt sér að jarðgangagerðinni. Þeir hafa að vísu verulegt fjármagn frá Danmörku, en tækniþekkingarinnar hafa þeir aflað sér sjálfir þannig að þeir eru með hana í eigin höndum. Mér kæmi heldur ekki á óvart að við gætum ýmislegt til þeirra sótt á því sviði.