21.03.1988
Sameinað þing: 63. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 5940 í B-deild Alþingistíðinda. (4058)

379. mál, réttindi og skyldur á vinnumarkaði

Karl Steinar Guðnason:

Hæstv. forseti. Sú till. sem hér liggur fyrir er athyglisverð að því leyti að hún gæti átt þátt í því að fólk gerði sér grein fyrir þeirri þjóðfélagslegu ábyrgð sem felst í því að vera starfandi á vinnumarkaðnum. Ég hygg að það sé mikil nauðsyn á því að koma fræðslu til þeirra sem eru á vinnumarkaðnum. Verkalýðsfélögin hafa unnið gífurlega mikið starf í þeim efnum og gera daglega. Ég veit að hvert og eitt einasta verkalýðsfélag sendir sínum félögum hvers konar upplýsingar um rétt sinn og skyldur og freistar þess á allan hátt að koma þessum málum til skila. Mér er ljóst að þrátt fyrir það er starfið ekki nóg. Alltaf eru það einhverjir sem þessar upplýsingar komast ekki til.

Ég sé ekki ástæðu til að sú nefnd sem hér yrði kjörin yrði skipuð t.d. þm. eða einhverjum sem stæðu fyrir utan vinnumarkaðinn eða aðila vinnumarkaðarins. Ég tel að slíka nefnd ættu að skipa fulltrúar frá verkalýðshreyfingunni, frá atvinnurekendum og síðan skólakerfinu. Skólakerfið hefur verið mjög andstætt verkalýðshreyfingunni í þessum efnum. Oft hefur verið eftir því leitað af verkalýðshreyfingunni að koma þessu efni til skila innan skólanna, en það hefur ekki fengist leyfi til þess. Skólakerfið hefur verið neikvætt og þess vegna hefur ekkert orðið úr þessu.

Framsögumaður ræddi um nýtt ráðningarform sem virðist vera að vinna sér nokkurn sess í mikilli andstöðu við verkalýðshreyfinguna. Það er á þann veg að einstaklingar séu ráðnir sem verktakar til ýmissa starfa. Þetta er leið ýmissa til að komast hjá því að greiða hin ýmsu gjöld og hefur þetta ráðningarform haft margt illt í för með sér fyrir einstaklingana. Ég veit um dæmi þess að þeir sem hafa ráðið sig á þessum kjörum hafa slasast og komist síðan að því að þeir eru ekki slysatryggðir. Þeim er ætlað að greiða í lífeyrissjóð af launum sínum. Það vill dragast eða það gerist ekki og svo eiga þessir einstaklingar ókleift með að fá lán frá Húsnæðisstofnun vegna þess. Mætti nefna ýmsar aðrar kvaðir sem fylgja verktökum.

Ég tel fráleitt að þetta ráðningarform sé leyft nema ákveðin skilyrði séu fyrir hendi þannig að launatengd gjöld, sem skapa réttindi, þurfi ekki að víkja. Það er freistandi fyrir einstaklinginn að fara þessa leið vegna þess að það gefur hærri tekjur í augnablikinu, en getur farið illa með menn þegar frá líður. Ég vek athygli á því að verkalýðshreyfingin hefur mjög mælt á móti þessu ráðningarformi og við teljum það fráleitt.

Það er mjög jákvætt ef unnt er að koma þessari fræðslu inn í skólakerfið. Þar er mikið starf að vinna. Hins vegar vil ég benda á það að nokkur framför hefur átt sér stað í þessum efnum. Minni ég á þá samninga er lúta að fiskverkafólki, svokallaða fastráðningarsamninga sem fylgja námskeiðum sem fiskverkafólk á nú kost á. Þeir samningar sem eru gerðir jafnframt þessum námskeiðum eru ítarlegir og kveða á um réttindi og skyldur einstaklinganna í störfum. Það er líka ástæða til að geta þess að á námskeiðum fiskverkafólks er sérstakur þáttur námskeið um starfskjör og aðbúnað, þannig að mjög hefur þetta færst á betri veg. Ég vek einnig athygli á því að í þeim kjarasamningum sem verið er að gera núna og voru gerðir fyrir nokkru er ákvæði um starfsmenntunarsjóð sem lýtur að því að fræða fólk um störfin og einnig um starfskjör þess og réttindi önnur. Þannig að nokkur nýmæli hafa átt sér stað í þessum efnum.

Ég hjó eftir því áðan hjá framsögumanni að hún talaði um fólk sem stæði utan við samningana. Ég spyr: Hvaða fólk er það aðrir en svokallaðir verktakar eða fólk sem er platað út í verktöku? Ég veit ekki hvaða fólk það er. Er það fólk sem sniðgengur verkalýðsfélög eða fólk sem vill ekki vera í verkalýðsfélögum? Ég tel að þessar upplýsingar liggi allar á lausu ef menn leita eftir þeim. Ég geri mér grein fyrir því að það eru ekki allir sem þekkja það hvernig á að leita að sínum rétti. En það eru líka til einstaklingar sem ekki vilja neitt hafa með samtök eða verkalýðshreyfingu að gera. Ég hef nú ekki mikla samúð með slíku fólki, en það þýðir ekki að það eigi ekki að njóta réttar síns þrátt fyrir það.

Varðandi það atriði að kanna hve margir á vinnumarkaðnum eru utan stéttarfélaga, þá tel ég að það sé mjög einfalt að fá þær upplýsingar með því að hringja í helstu stéttarsamtökin. Það liggur alveg ljóst fyrir og ef menn vita hversu margir eru á vinnumarkaðnum, þannig að þá þarf ekki sérstakt nefndarstarf í þeim efnum. Og varðandi kjör almennt í landinu þá er nú kjararannsóknarnefnd til sem ætti að geta sinnt því hlutverki og gerir það. Vissulega mætti það gerast betur og ég vona að það takist að koma málum til þess vegar að kjararannsóknarnefnd fái upplýsingar frá öllum aðilum, en svo er ekki í dag. Það mætti auka þá starfsemi en það þarf þá að leggja verulegt fé í hana.

Ég tel að hugsunin á bak við þessa till. sé jákvæð og vísa þó til þess að það er ekki eins og við stöndum frammi fyrir því að engin fræðsla sé fyrir hendi. Það er gífurlega mikið fræðslustarf unnið á þessum vettvangi, en það eru ætíð margir sem ekki meðtaka þá fræðslu. Líka er það að þeir sem koma nýir inn á vinnumarkaðinn eiga oft erfitt með að átta sig á því hvar eigi að leita upplýsinganna ef þeir eru á einangruðum vinnustöðum, en ég tel að á flestum vinnustöðum þar sem einhver alvöruatvinnustarfsemi er séu verkalýðsfélögin til staðar til að sinna þessari skyldu.