21.03.1988
Sameinað þing: 63. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 5942 í B-deild Alþingistíðinda. (4059)

379. mál, réttindi og skyldur á vinnumarkaði

Flm. (Anna Ólafsdóttir Björnsson):

Herra forseti. Ég fagna því að hugmyndin á bak við þessa þáltill. hefur fengið jákvæðar undirtektir og ég fagna því einnig að heyra um að fræðslustarf skuli vera nokkurt. Ég vissi reyndar af því en það sem e.t.v. er veikasti hlekkurinn í þeirri keðju er skólakerfið.

Ég kem nú hér aðallega upp vegna fsp. um hvaða fólk þetta sé sem stendur utan stéttarfélaganna. Ein af ástæðunum fyrir því að ég tel að gera verði sérstakt átak til að kanna þessi mál er sú að svo virðist vera sem nokkur hópur hirði ekki um að ganga í stéttarfélög og kærir sig e.t.v. ekki um það. Ég hef fulla samúð með þessu fólki því að ég held einfaldlega að það sé ekki upplýst og þó það sé vegna þess að það leiti ekki eftir þessum upplýsingum tel ég að full ástæða sé til þess að þetta fólk kynnist þeim rétti og þeim skyldum sem það býr við á vinnumarkaði og að hvaða leyti það e.t.v. ekki nýtur þessa.

Annað var það ekki sem mig langaði að gera athugasemdir við.