22.03.1988
Efri deild: 73. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 5968 í B-deild Alþingistíðinda. (4064)

315. mál, grunnskóli

Menntamálaráðherra (Birgir Ísl. Gunnarsson):

Herra forseti. Frv., sem hér er flutt á þskj. 624 og hv. 6. þm. Reykv. hefur mælt fyrir, hefur þann megintilgang að því er fram kemur í grg. að samræma betur vinnudag barna og foreldra hérlendis og að gera vinnudag barna í skóla samfelldan, lengja kennslutíma yngstu árganganna og að öll börn verði að hafa tækifæri til að matast í skólunum.

Ég hygg, eins og fram kom í niðurlagsorðum hv. þm., að þau markmið sem stefnt er að með frv. séu á þann veg að allir geti undir þau ritað og flestir stjórnmálaflokkar, a.m.k. get ég mælt fyrir minn flokk, Sjálfstfl. hefur haft á sinni stefnuskrá umbætur í skólamálum í þessu veru. Reyndar er það svo að ýmislegt hefur þokast í þessa átt og enginn vafi er á því að ef tekið er mið af nemendum og hvað þeim er fyrir bestu eru þessar hugmyndir það sem stefna ber að í skólahaldi. Frv. miðar að betri líðan og betri vinnuaðstöðu nemenda og kennara og auknu hagræði fyrir foreldra og ég hygg að það séu stefnumið sem allir geti tekið undir.

Til að ná þessu fram þarf hins vegar verulega mikið fé eins og fram.hefur komið í ræðu hv. þm. Öll þessi atriði sem frv. fjallar um leiða til aukins kostnaðar við grunnskólahald og jafnvel þótt fé væri fyrir hendi má ætla að það taki langan tíma að koma ýmsum breytingunum fram. Ég nefni t.d. skólamáltíðir í öllum skólum, hámarksfjölda nemenda í hverjum skóla, að hann verði 300–400, og að skólar verði einsetnir því að það þarf að byggja ný skólahús í þessu sambandi og þarf að breyta flestum þeim skólahúsum sem fyrir eru.

Fleira kemur og til, færri nemendur í bekk samhliða einsetningu skóla leiðir óhjákvæmilega til þess að fleiri kennara þarf til að halda uppi eðlilegri kennslu. Það hefur verið erfitt undanfarin ár að útvega kennara og fá kennara með tilskilda menntun og réttindi til að halda uppi skólastarfi við núverandi aðstæður. Einsetning og fækkun í bekkjum gæti hugsanlega orðið til þess að laða fleiri kennara að starfinu, en líklega þarf fleira til að koma svo að hægt verði að manna einsetna skóla þar sem 14–20 nemendur væru í hverjum bekk með hæfu fólki.

Þá er þess og að geta að í frv. er gert ráð fyrir að starfsfólk með uppeldisfræðilega menntun annist nemendur fyrir og eftir eiginlegan skólatíma. Með uppeldisfræðilegri menntun er væntanlega átt við fóstrur eða kennara, enda ekki öðrum til að dreifa hér á landi, og við búum nú við skort á kennurum, við búum við skort á fóstrum, og hefur reynst erfitt að manna barnaheimili og leikskóla þannig að jafnvel þó við hefðum fjármagnið til þess að byggja þetta allt á tiltölulega stuttum tíma er ekki þar með sagt að björninn sé unninn í þessum efnum.

Helstu breytingarnar sem þetta frv. felur í sér eru þessar — ég held að það sé hægt að flokka þær í eina átta þætti:

1. Að skólaskylda verði lengd í tíu ár. 2. Að skólamáltíðir verði í öllum skólum. 3. Samfelldur skóladagur verði í öllum skólum. 4. Gæsla og umönnun verði veitt fyrir og eftir skólatíma. 5. Hámarksfjöldi nemenda í hverjum skóla verði 300–400. 6. Skóladagur lengist hjá 6–12 ára nemendum. 7. Að fækkað verði í bekkjardeildum. 8. Að skólar verði einsetnir.

Eins og ég sagði í upphafi: Ég held að þetta séu leiðir að markmiði sem við getum stefnt að, en ég ætla að gera hvert þessara atriða að umtalsefni hér og þá jafnframt að gera grein fyrir því sem unnið hefur verið í viðkomandi málum að undanförnu og hvernig staðan er og þá jafnframt hér á eftir gera nokkra grein fyrir því hver stefna ráðuneytisins er í þessum málum.

Það er í fyrsta lagi gert ráð fyrir því í frv. að fræðsluskyldu fyrir sex ára börn verði komið á haustið 1988 og skólaskyldu frá hausti 1989. Skólasókn sex ára barna er nú þegar orðin um 98%, kennslutími er hins vegar afar mismunandi eftir stöðum, allt frá nokkrum dögum á ári á ýmsum stöðum úti um land upp í samfellda kennslu allt skólaárið. Kemur þetta reyndar fram á bls. 6 í grg. með frv.

Það er enn fremur rétt að nefna hér annað atriði sem snertir kennslu sex ára barna en það eru námsgögnin. Þar sem sex ára börn eru ekki skólaskyld eiga þau ekki rétt á að fá úthlutað námsgögnum á kostnað ríkisins. Í ljósi þess að 98% sex ára barna sækja skóla og vinnubrögð í sex ára bekk og sjö ára bekk eru vart sambærileg er hér um tvíþætta mismunun að ræða, þ.e. bæði varðandi kennslutíma og námsgögn. Það eru nokkuð skiptar skoðanir um fræðsluskyldu og skólaskyldu, þ.e. á hvorn þáttinn eigi að leggja meiri áherslu, en þó held ég að sú umræða hafi þó meira snúist um hvenær skólaskyldu eigi að ljúka, þ.e. elsti árgangur grunnskólans. Ég hygg að flestir séu á einu máli um að það sé tímabært að sex ára börn séu skólaskyld og það er eindregin skoðun mín að að því beri að stefna og að því er reyndar unnið í ráðuneytinu að svo verði. Ég held að fræðsluskylda sex ára barna mundi ein sér geta jafnað þann aðstöðumun sem fram kemur í kennslutíma og námsgögnum, en ég held að stefna beri að skólaskyldu í þessum efnum.

Annar þátturinn í frv. eru skólamáltíðir í öllum skólum. Það er enginn vafi á að skólamáltíðir og lenging skóladags haldast í hendur. Því lengri sem skóladagur er því meiri þörf er á máltíðum í skólanum. Í frv. kemur fram að það megi reikna með 112 millj. kr. launakostnaði vegna skólamáltíða, enda verði þá matur að einhverju leyti fyrir fram tilbúinn. Þá er ekki reiknað með stofnkostnaði né heldur matarkostnaði.

Ég vil í þessu sambandi benda á það nál. sem fram kemur hjá þeirri nefnd sem Ragnhildur Helgadóttir þáverandi hæstv. menntmrh. skipaði og hv. þm. Salome Þorkelsdóttir veitti forstöðu, en nefndin bendir á í áliti sínu að ríkið standi undír launakostnaði við umsjón nestispakka í skólum en foreldrar og eða sveitarfélögin eigi að standa straum af öðrum kostnaði. Það kom einnig fram í könnun nefndarinnar að það er ekki einhugur meðal foreldra um skólamáltíðir. T.d. var í dreifbýli talið æskilegt að nemendur kæmu heim í hádegi, enda verður vafalaust í þeim efnum eins og öðrum nokkuð að sníða sér stakk eftir aðstæðum. Ég held það sé óskynsamlegt fyrir okkur að setja mjög stífar og strangar reglur í grunnskólafrv. Ég held við verðum að hafa okkar reglur um skólahald nokkuð sveigjanlegar því að aðstæður eru mismunandi á hverjum stað.

Þriðji þátturinn í frv. fjallar um samfelldan skóladag í öllum skólum. Það virðist svo sem töluvert hafi áunnist í þessu máli í Reykjavík. Það hefur starfað nefnd undir forustu Bessíar Jóhannsdóttur um samfelldan skóladag. Hefur sú nefnd einkum beint sjónum sínum að Reykjavík. Það sem á vantar strandar helst á því að húsnæði til kennslu í list- og verkgreinum skortir. Reykjavíkurnefndin lét athuga sérstaklega stöðuna í grunnskólum borgarinnar skólaárið 1986–1987. Þar kemur m.a. fram að í forskóla, 1., 2. og 3. bekk er nánast um 100% samfellda viðveru að ræða. Aukaferðum milli heimilis og skóla fjölgar eftir því sem ofar kemur í grunnskólann. Í heild njóta rúmlega 70% grunnskólanemenda í Reykjavík samfelldrar viðveru og ef bætt er við þeim sem aðeins þurfa að fara eina aukaferð á viku milli heimilis og skóla er talan komin í tæp 83%. Hætt er við að á ýmsum stöðum úti á landi sé ástandið ekki eins gott. Það hefur færst mjög í rétta átt hér í Reykjavík. En auðvitað ber að stefna að því að samfelldur skóladagur verði í öllum skólum og að því er unnið í menntmrn.

Í fjórða lagi er fjallað um að gæsla og umönnun verði veitt fyrir og eftir skólatíma. Skólarnir eru í vaxandi mæli að taka upp gæslu eða umönnun fyrir yngstu nemendurna. Þörfin er augljós fyrir einstæða foreldra og fjölskyldur þar sem báðir foreldrar vinna fulla vinnu utan heimilis og það fer stöðugt vaxandi. Kostnaður er nú greiddur af foreldrum. Það sem helst hamlar að hægt sé að koma þessu fyrirkomulagi á eru þrengsli í skólum og óhentugt húsnæði og skortur á fólki til að annast nemendur. Lítið sem ekkert er hins vegar gert fyrir nemendur sem þurfa að búa við svokölluð göt í kennsluskrá eða stundaskrá, en ýmislegt má þó gera til þess að koma þar til móts við nemendur t.d. með öflugum skólasöfnum og í auknum mæli samfelldri viðveru kennara. Það má einnig hugsa sér að ráða fólk að skólunum sem starfi með börnunum þann tíma sem þau eru í skólum utan raunverulegra kennslustunda.

Í fimmta lagi er fjallað um að hámarksfjöldi nemenda í hverjum skóla verði 300–400. Ég hygg að það sé almennt viðurkennt meðal skólamanna að æskileg skólastærð sé 300–500 nemendur. Ég held hins vegar að það eigi að forðast að lögbinda mjög stífar eða strangar reglur í þessu efni, m.a. vegna þess hversu aðstæður eru mismunandi. Það er enginn vafi á því að þó að hinir minni skólar séu æskilegir hafa stærri skólar ýmsa hagkvæmni á móti, t.d. möguleika á samnýtingu og stofnkostnaður er lægri. Auk þess má ekki gleyma því að það kann að vera mjög erfitt í framkvæmd að hafa reglu af þessu tagi vegna mismunandi stærðar byggðarlaga og reyndar mismunandi barnafjölda í skólahverfum. Við þekkjum það t.d. hér í Reykjavík hversu sveiflurnar eru ótrúlega miklar á fjölda barna á milli skólahverfa. Það koma venjulegast mjög miklir toppar í hverfum þegar þau eru ung, þegar ungt fólk er að byggja sér hús eða flytjast inn í hverfin. Síðan kemst jafnvægi á þetta á nokkrum árum. En þessar sveiflur halda samt áfram nokkuð þannig að þetta getur verið erfitt í framkvæmd. Ég held hins vegar að það eigi að stefna að því að miða stærð skóla við - ja, ég mundi festa töluna við 400–600 nemendur eða færri. Ég tel að sú tala sem nefnd er í frv. sé kannski í það lægsta. En auðvitað er það atriði sem betur má ræða.

Í sjötta lagi er gert ráð fyrir því að skóladagur lengist hjá 6–12 ára nemendum. Frv. gerir ráð fyrir verulegri lengingu á skólaveru 6–12 ára nemenda. Ef við miðum við hvernig þetta er miðað við hámark samkvæmt gildandi lögum annars vegar og svo vikustundir samkvæmt gildandi viðmiðunarskrá kemur í ljós að sex ára aldur mundi hafa 30 vikustundir skv. frv. Það er ekkert hámark samkvæmt gildandi lögum af því að sex ára börn eru ekki skólaskyld. Sjö ára börn: 30 vikustundir skv. frv., 22 að hámarki samkvæmt gildandi lögum og 22 samkvæmt gildandi viðmiðunarstundaskrá. Átta ára aldurinn: 32 vikustundir skv. frv., eru 24 nú að hámarki skv. gildandi lögum en 22 skv. gildandi viðmiðunarskrá. Níu ára börn mundu frá 32 stundir skv. þessu frv., hafa 27 skv. gildandi lögum en 26 skv. gildandi viðmiðunarskrá. Tíu ára: 35 vikustundir skv. frv., 32 að hámarki skv. gildandi lögum og 29 skv. gildandi viðmiðunarskrá. Ellefu ára: 35 skv. frv., 34 í hámark skv. gildandi lögum, 32 skv. gildandi viðmiðunarskrá. Tólf ára börn: 36 skv. frv., 35 skv. gildandi lögum en 34 skv. gildandi viðmiðunarskrá.

Aukningin frá núgildandi viðmiðunarstundaskrá er í allt 35 vikustundir og 26 stunda aukning frá því sem gildandi grunnskólalög tilgreina sem hámark. Lauslega áætlað þýðir 35 stunda aukning tæplega hálfan milljarð í launakostnað. Einnig hlýtur aukinn stofnkostnaður að fylgja svo mikilli aukningu á viðveru nemenda, enda kallar hún á einsetningu. Frv. gerir ráð fyrir mestri aukningu í neðstu bekkjunum, þ.e. átta vikustundum í sjö ára bekk og tíu vikustundum í átta ára bekk, en að frátöldum sex ára börnum tel ég að það sé langbrýnast að lengja skólaveru sjö og átta ára barna.

Í þessu sambandi kemur einnig til álita, og mér finnst að það þurfi að kanna verulega, ef eða þegar - við skulum orða það frekar þannig - skóladagur lengist hjá 6–12 ára nemendum, hvort ekki sé unnt að nýta hinn aukna tíma í skólunum og reyndar þann tíma sem börn eru í skólum nú betur en gert er. Við útskrifum stúdenta allmiklu eldri en nágrannaþjóðir okkar og ýmsir telja að ástæðan sé sú að tíminn í grunnskólunum sé ekki nægilega vel nýttur, að námið í framhaldsskólunum mætti einnig nýta betur, en einkum hafa menn beint sjónum sínum að því hvort unnt sé að nýta betur tímann í grunnskólum þannig að börnin gætu fyrr lokið sínu grunnnámi eða sínu framhaldsskólanámi. Um þetta skal ég ekki fullyrða. Ég geri mér grein fyrir því að það eru mörg atriði sem koma inn í þessa mynd. En þetta er atriði sem mér finnst að þurfi að athuga mjög rækilega í tengslum við lengingu skóladagsins.

Sjöundi þátturinn í frv. er að fækkað verði í bekkjardeildum. Fækkun nemenda í bekk hefur lengi verið baráttumál kennara. Því fjölmennari bekkir því meira verður vinnuálag á kennara og streita og agavandamál eru algengari. Það er erfitt að sinna nemendum einstaklingsbundið í fjölmennum bekkjardeildum. Ég tel að fækkun nemenda í bekk sé brýnna áherslumál en fækkun nemenda í hverjum skóla og ég tel að það sé enginn vafi á því að þegar verið er að meta stefnumið eins og þessi hljóti menn að þurfa að velja og hafna og setja sér tímamörk, hvað eigi að hafa forgang. Í því efni tel ég að það sé mikilvægara að fækka nemendum í bekkjum en að fækka nemendum í hverjum skóla fyrir sig.

Áttundi liðurinn fjallar um einsetningu skóla. Eins og ég gat um áðan er einsetning háð ýmsum öðrum veigamiklum þáttum. Einsetning skóla krefst aukins húsrýmis, hún krefst fleiri kennara, krefst lengri skólaveru og krefst skólamáltíða. Sennilega er húsnæðið þyngst á metunum. Þar sem einsetning er enn ekki komin á er ástæðan yfirleitt skortur á húsnæði. Það er fullur hugur á því, bæði hjá menntmrn. og fræðsluyfirvöldum í hinum einstöku sveitarfélögum út um allt land, að einsetja í skólana, en ástæðan er skortur á húsnæði þar sem ekki hefur verið unnt að koma einsetningu í framkvæmd.

Í grg. með frv. er áætlað að vanti um 450 kennslustofur til að einsetningu verði komið við. Kostnaður við hverja meðalstofu er í grg. áætlaður um 5,5 millj. Ég reikna með að það sé mjög nærri lagi miðað við þær tölur sem byggingadeild menntmrn. hefur. En miðað við þessar tölur kosta 450 stofur ca. 2,5 milljarða kr. Í grg. er reiknað með 50 stofa aukningu á ári frá því sem nú er í þrjú ár eða 275 millj. kr. viðbót á ári við núverandi byggingarkostnað.

Það er vert að vekja athygli á því í þessu sambandi að það húsnæði sem mest er sótt á nú að byggja við skóla úti um allt land og reyndar í Reykjavík líka er ekki kennslustofur heldur íþróttahúsnæði, sérkennsluaðstaða ýmiss konar og stjórnunarhúsnæði. Við höfum lengi búið við að skólar okkar eru byggðir í áföngum og venjan hefur þá verið sú að byrja á hinum almennu skólastofum, láta annað sitja á hakanum. Þess vegna virðast þau verkefni sem mestur þunginn ætlar að hvíla á í framtíðinni vera einmitt þetta sérkennsluhúsnæði þannig að það má búast við að að miklu leyti, ég skal ekki meta það nákvæmlega, verði sá kostnaður sem felst í viðbót á stofum viðbótarkostnaður við það sem byggt er fyrir í dag, en í fjárlögum á þessu ári eru ætlaðar, ef ég man rétt, 330 millj. kr. til byggingar grunnskóla og annað eins kemur á móti frá sveitarfélögunum.

Það er síðan atriði út af fyrir sig, ef við erum að ræða um átak af þessu tagi sem gert er ráð fyrir í þessu frv., að auðvitað þarf nána samvinnu við sveitarfélög um það mál því sveitarfélögin greiða helming af kostnaði við byggingar grunnskóla og taka verulegan þátt í reksturskostnaði eins og kunnugt er. Að vísu eru uppi hugmyndir um að breyta þeim hlutföllum en reglur um það hafa ekki séð dagsins ljós.

Það er því alveg ljóst að það er verulegur kostnaðarauki sem fylgir þessu frv. Í grg. er talið að reksturskostnaður muni aukast um 1362 millj., þ.e. 1 milljarð 362 þús. kr., og stofnkostnað þurfi upp á 3 milljarða 375 þús. kr. Þetta er allmikið fé, en ég hygg engu að síður að að þessu beri að stefna. Mér hefur þótt á það skorta eftir að ég kom í menntmrn. að það vantaði löggjöf um áætlun um skólabyggingar. Við höfum grunnskólalög sem kveða á um ýmsar skyldur sem á skólunum hvíla. Hins vegar hefur í öllum greinum ekki enn tekist að uppfylla þær skyldur sem á skólunum hvíla, m.a. vegna húsnæðisskorts. En mér finnast satt að segja vera dálítið tilviljunarkennd vinnubrögð í því hvar fjármagnið lendir í skólabyggingum. Það er togast á milli kjördæma eins og við þekkjum í fjvn. um hvar þetta fjármagn skuli lenda.

Það hefur tíðkast um nokkurt skeið og í tiltölulega fá ár að gera sérstaka fjármögnunarsamninga milli ríkisins og sveitarfélaganna. Þeir samningar hafa verið gerðir af hálfu ríkisins af fjmrn. og menntmrn. annars vegar, en sveitarfélögin eru svo aðilar að þessum samningum hins vegar. Enginn vafi er á því að þetta er mjög gott fyrirkomulag fyrir sveitarfélögin. Þau vita þá hvar þau standa. Þetta eru skuldbindandi samningar um ákveðið fjármagn á ákveðnu árabili. Hins vegar eru þessir samningar ekki mjög margir. Það sem verra er er að fjvn. er ekkert mjög ánægð yfir þessum samningum, því að hún telur að með því séu þessi tvö ráðuneyti að taka fram fyrir hendur á fjárveitingarvaldi Alþingis. Þess vegna hefur fjvn. látið að því liggja að hún muni ekki virða öllu fleiri samninga en nú hafa verið gerðir nema eitthvert annað fyrirkomulag verði tekið upp á þeim málum. Það er líka tilviljunum háð finnst mér hvaða sveitarfélög hafa náð að gera þessa samninga. Það virðist fara eftir hverjir eru duglegir að þrýsta á. Ég tel því alveg nauðsynlegt að það sé sett löggjöf um skólabyggingaáætlanir, löggjöf af svipuðu tagi og við höfum varðandi hafnarframkvæmdir eða vegaframkvæmdir. Í þeirri löggjöf þarf auðvitað að marka sér stefnu, hvaða kröfur við ætlum að gera til skólanna, hvað ætlum við að byggja og í hvaða tilgangi, og síðan að reyna að átta okkur á því á hve löngu árabili við ætlum að gera það og hvernig það eigi þá að skiptast á árin og að slík áætlun sé þá lögð fyrir Alþingi á hverju ári eða annað hvert ár eins og hafnaáætlun eða vegáætlun þannig að Alþingi geti á hverjum tíma gefist kostur á að endurskoða hana því að auðvitað er endanlegt ákvörðunarvald um byggingarmagn og staðsetningu einstakra bygginga hjá Alþingi og því fer fjarri, þó að menntmrn. og fjmrn. hafi unnið að því að gera fjármögnunarsamninga, að við viljum ætla okkur að svipta fjvn. eða Alþingi því valdi sem það hefur og á auðvitað að hafa. Þess vegna er slík löggjöf nú í undirbúningi í menntmrn. og ég vonast vissulega til þess að geta lagt slíka löggjöf fyrir Alþingi næsta haust.

Í viðauka með grg. frv. á bls. 23 er birt svar frá menntmrh. við fsp. sem Unnur Stefánsdóttir bar fram og hv. 6. þm. Reykv. vitnaði til. Þar er svarað þeirri fsp. hvað séu margir skólar á landinu sem bjóða börnum á grunnskólaaldri samfelldan skóladag og hvenær þess sé að vænta að allir grunnskólar á landinu hafi samfelldan skóladag. Ég vil leyfa mér að vitna í þetta svar því að það ber vott um hver stefna menntmrn. er í þessum málum. Svarið við fyrri spurningunni er fyrst og fremst til upplýsinga um staðreyndir sem ég ætla ekki að fjalla um, en seinni spurningin er um hvenær þess sé að vænta að allir grunnskólar á landinu hafi samfelldan skóladag. Þar segir, með leyfi forseta:

„Seinni spurningunni er ógjörningur að svara beint. Ef tryggja á samfellda viðveru fyrir alla nemendur grunnskóla þarf fjárfrekar aðgerðir. Þá þyrfti t.d. að koma upp íþróttaaðstöðu og mötuneyti við hvern skóla, fjölga starfsliði vegna gæslu o.fl. Samfelldri viðveru verður því varla komið á í einu vetfangi í öllum skólum landsins.

Ætla má að skemmri tíma taki að koma á samfelldum vinnutíma og í reynd hefur mjög þokast í þá átt á síðustu árum. Það sem líklega ræður úrslitum er stöðugleiki í kennaraliði og almenn aðstaða í skólum, svo sem skólasöfn.

Samfelld viðvera kennara í skólum er þó líklega mikilvægasta forsendan fyrir bæði samfelldri viðveru nemenda og samfelldum vinnutíma. Ráðuneytið hefur beitt sér fyrir því að skapa slíkar forsendur og jafnframt haft hliðsjón af tillögum nefndarinnar frá 1986 sem hér fara á eftir:

1. Stefnt verði að samfelldri viðveru nemenda í grunnskólum með því að:

1.1. Bæta skipulag og stundaskrárgerð.

Aukin tölvueign skóla gerir kleift að hagnýta þá tækni við stundaskrárgerð.

Við skipulag skólastarfsins verður nemandinn, tími hans og vinna að vera í brennidepli.

Þegar kennarar skipta vinnu sinni milli skóla verða þeir skólar sem í hlut eiga að hafa samráð um skiptinguna.

Fastur viðverutími kennara í skólum eykur líkur á samfelldni hjá nemendum.

1.2. Taka tillit til samfelldni við hönnun skólahúsnæðis og í framkvæmdum við skólabyggingar. Miða stærð skóla eða stærð skipulagseininga innan skóla við 400–600 nemendur eða færri. Hafa skóla einsetna eða því sem næst.

Gera ráð fyrir vinnuaðstöðu nemenda og kennara utan fastra kennslustunda.

Gera ráð fyrir aðstöðu til að afgreiða og neyta skólanestis eða aðstöðu til að framreiða og neyta skólamáltíða.

Stuðla þarf að frekari þróun í hönnun færanlegs skólahúsnæðis.

Hraða uppbyggingu aðstöðu fyrir list- og verkgreinar.

1.3. Efla skólasöfn og vinnuaðstöðu nemenda utan fastra kennslustunda.

Tryggja verður hverjum skóla lágmarksbókakost. Auka þarf fjölbreytni gagna á skólasöfnum og gera þau að eins konar miðstöð skólastarfsins.

Koma þarf upp lesaðstöðu í tengslum við skólasöfn.

1.4. Gefa kost á nestispökkum eða máltíðum á skólatíma.

Ráða þarf sérstakt starfsfólk til að sjá um móttöku, afgreiðslu og fjárreiður vegna nestispakka. Sjái nemendur og kennarar um skólanesti eða skólamáltíðir verður að umbuna þeim fyrir vinnu sína.

Til að auka líkur á að skólanesti eða máltíðir verði almennt notaðar og þar með auknar líkur á samfelldni þarf að stilla verði í hóf.

Skólamatur verður að vera í senn hollur, næringarríkur og fjölbreyttur og falla að síbreytilegum smekk nemenda.

1.5. Skipuleggja skólastarf á sveigjanlegan hátt. Athuga þarf möguleika á að haga skipulagi starfsins þannig að nemendur geti byrjað og lokið skóladegi á mismunandi tíma.

Fella verður kennslu í list- og verkgreinum inn í aðra kennslu þannig að bæði viðvera og verkefni myndi eðlilega heild.

Losa þarf um fastmótað bekkjakerfi ef önnur hópaskipan eykur samfelldni.“

Þetta voru tillögur nefndarinnar sem menntmrn. hefur tekið upp sem sínar tillögur og leitast við að framkvæma eftir því sem tök eru á og eftir því sem ráðuneytið hefur fengið fjármagn til.

Ég ítreka það, sem ég sagði í upphafi, að með þessu frv. er hreyft máli sem ég held að í rauninni sé ekki neinn ágreiningur um. Þetta er hins vegar mál sem kostar verulega fjármuni og að því ber að vinna að hrinda þessum markmiðum í framkvæmd með skipulegum hætti. Ég dreg hins vegar í efa að það sé rétt að fella svona nákvæmar og ítarlegar reglur inn í grunnskólalög eins og frv. gerir ráð fyrir. Ég er þeirrar skoðunar að grunnskólalögin séu of ítarleg, þau séu of ósveigjanleg á stundum og geri ekki nægilega ráð fyrir mismunandi aðstæðum á mismunandi stöðum á landinu. Ég hefði talið æskilegra að grunnskólalögin væru meiri rammalöggjöf sem síðan væri fyllt út í með framkvæmdinni. Grunnskólalögin eru í endurskoðun í menntmrn. Það var reyndar lagt fram á síðasta þingi til kynningar frv. um ný grunnskólalög. Það frv. hlaut allmikla gagnrýni frá ýmsum þeim sem það fengu til umsagnar á sl. sumri. Það er nú verið að vinna að því í menntmrn., sérstakur starfsmaður var til þess fenginn, að fara yfir þessar umsagnir og gera tillögur að nýjum grunnskólalögum. Vonast ég til þess að þær gætu séð dagsins ljós á næsta vetri. En ég dreg í efa, eins og ég sagði, að það sé rétt að hafa þau lög jafnítarleg og núgildandi lög eru og það frv. sem hér liggur fyrir gerir ráð fyrir. Mér finnst hins vegar eðlilegt að þetta frv. og það sem í því felst komi til athugunar í sambandi við þá endurskoðun laganna sem nú stendur yfir. Öll þau atriði sem í þessu frv. eru eru á stefnuskrá ráðuneytisins og munu að sjálfsögðu verða framkvæmd eftir því sem fjármagn fæst til.