22.03.1988
Efri deild: 73. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 5984 í B-deild Alþingistíðinda. (4066)

315. mál, grunnskóli

Sólveig Pétursdóttir:

Hæstv. forseti. Ég vil byrja á að þakka hv. flm. fyrir þetta frv. um breytingu á grunnskólalögunum. Sú hugmynd sem þar liggur að baki um samfelldan og einsetinn skóla allt frá 6 ára aldri hefur verið áhugamál margra, ekki síst sjálfstæðismanna. Konur í Sjálfstfl. hafa barist ötullega fyrir þessu máli bæði í landsstjórn og í sveitarstjórnum. Þær hafa og verið mjög ötular í borgarstjórn og vakið þar athygli á ýmsum þeim efnisatriðum sem þetta frv. tekur einmitt á með þeim árangri að nú njóta rúmlega 70% grunnskólanemenda í Reykjavík samfelldrar viðveru og ef bætt er við þeim sem aðeins þurfa að fara eina aukaferð á viku milli heimilis og skóla er talan komin upp í tæp 83%. Auk þess má bæta því við að í forskóla, 1., 2. og 3. bekk er nánast um 100% samfellda viðveru að ræða. Þessar upplýsingar koma raunar fram í viðauka II með þessu frv. sem svar frá hæstv. menntmrh. við fsp. um samfelldan skóladag.

Sjálfstæðismenn hafa margoft ályktað um þetta stefnumál sitt, nú síðast á 27. landsfundi Sjálfstfl. 1987, en þar segir m.a. í kafla um skóla- og fræðslumál, með leyfi virðulegs forseta:

„Upphaf skólaskyldu ætti að miða við 6 ára aldur. Skóladagur er nú samfelldur í allmörgum skólum fyrir atbeina Sjálfstfl. og ber að vinna að því að svo verði í skólum um land allt. Áfram verði haldið á þeirri braut sem mótuð hefur verið í samstarfi foreldra og skóla.“

Og í kafla um jafnréttis- og fjölskyldumál segir enn fremur, með leyfi virðulegs forseta: „Landsfundur Sjálfstfl. fagnar því starfi sem unnið hefur verið á undanförnum árum undir forustu sjálfstæðismanna að efla tengsl heimila og skóla og koma á samfelldum skóladegi. Áfram þarf að halda á þeirri braut og bæta starfsaðstöðu nemenda og kennara, vinna að því að nemendur geti neytt máltíða í skólum og auka umferðaröryggi barna. Áhrif foreldra á stjórn skóla þarf að tryggja.“

Það er mér því mikið ánægjuefni að þm. Kvennalistans skuli vera okkur sjálfstæðismönnum sammála í þessu þjóðþrifamáli. Raunar átti hv. flm. þessa frv., Guðrún Agnarsdóttir, svo sem hún tók fram áðan, sæti í vinnuhópi eða nefnd undir forustu hv. þm. Salome Þorkelsdóttur sem var skipuð þann 12. júlí 1983 af þáv. menntmrh. Ragnhildi Helgadóttur. Nefnd þessi vann einmitt að því að gera tillögur um það hvernig best væri að koma á samfelldum skóladegi og efla tengsl heimila og skóla. Nál. þetta var útgefið af menntmrn. í október 1984. Óhætt er að segja að mörgum af þessum till. er nú þegar fylgt eftir í skólastarfi eða þær eru að komast í framkvæmd, sérstaklega þó hvað varðar þá hlið sem snýr að tengslum heimila og skóla. Mér var raunar tjáð af formanni þessarar nefndar að nefndarmeðlimir hefðu verið sammála um það að tillögur þessar til úrbóta í skólastarfinu væru framkvæmdaratriði sem ekki þyrfti að kveða á um í lögum.

Tillögur þessarar nefndar um samfelldan skóladag eru á bls. 28 og 29 í umræddri skýrslu og á bls. 24 og 25 í grg. með þessu frv. Hæstv. menntmrh. las þessi atriði upp hér áðan þannig að ég mun ekki endurtaka þau, en ég bendi á að mér virðist að hv. flm. hafi einmitt haft þessar tillögur í huga þegar þær sömdu þetta frv. og er ekkert nema gott eitt um það að segja.

Þessar tillögur hafa verið stefnumótandi fyrir skólauppbyggingu í landinu. Sem dæmi um slíkar byggingar má nefna Grandaskóla og Foldaskóla. Sá síðarnefndi átti raunar að vera einsetinn en Reykjavíkurborg fékk þegar til kom ekki fjármagn til þess frá ríkinu.

Í upphafi grg. segir að grunnskólar þurfi að vera einsetnir heilsdagsskólar þar sem vinnutími og viðvera bæði nemenda og kennara er samfelld þar sem brýn þörf sé á því að samræma betur vinnudag barna og foreldra hérlendis. Undir þetta get ég heils hugar tekið. En þá komum við að peningahliðinni. Það er ljóst að stórkostlegt fjármagn þarf til þess að gera alla grunnskóla bæði samfellda og einsetna og er jafnvel talað um nokkra milljarða í því sambandi bara hér í Reykjavík. Það þarf að byggja nýtt skólahúsnæði, sérgreinastofur, koma upp íþróttaaðstöðu og mötuneyti við hvern skóla, fjölga starfsliði vegna gæslu o.fl. svo sem tíundað hefur verið hér áður. Það er alveg ljóst að slíkt fé verður ekki töfrað fram á svipstundu og ekki trúi ég því að hin hagsýna húsmóðir vilji taka erlent lán í því skyni. Ég er þó á þeirri skoðun að þetta vandamál verði að leysa þótt það taki nokkurn tíma og er raunar sannfærð um að að því verði unnið, sbr. stefnuyfirlýsingu og starfsáætlun ríkisstjórnar Þorsteins Pálssonar, en þar segir m.a. á bls. 20, með leyfi virðulegs forseta:

„Fram mun fara athugun á fyrirkomulagi sérkennslu. Kannað verður hvernig grunnskólinn geti betur rækt umönnunar- og uppeldishlutverk við hlið fræðslustarfs.

Unnið verður að því að koma á samfelldum skóladegi og skólamáltíðum fyrir börn á grunnskólaaldri.“

Ég hef áður lýst því yfir að ég er sammála þeim hugmyndum sem frv. það sem hér er til umfjöllunar grundvallast á. Það eru þó viss efnisatriði sem gætu orðið erfið í framkvæmd, sbr. t.d. 2. gr. frv. en þar segir, með leyfi virðulegs forseta: „Stærð skólahúsnæðis grunnskóla fyrir nemendur í 1.–10. bekk skal miða við að fjöldi nemenda í skólanum fari ekki yfir 400, né fjöldi nemenda í skólum fyrir nemendur í 1.7. bekk yfir 300 nemendur.“ Hér virðist gert ráð fyrir því að grunnskólanum verði skipt í tvennt með hámarksfjölda nemenda.

Ég held að einmitt þetta atriði geti orðið erfitt og afar kostnaðarsamt í framkvæmd þótt kennarar og skólamenn séu almennt þeirrar skoðunar að heppilegast sé að hafa grunnskóla smáa og fámenna en stóra og fjölmenna eins og segir í grg. með þessari grein frv. Þetta atriði er þó vafalaust nokkuð misjafnt eftir hverfum og byggðarlögum. Það er hins vegar spurning hvort slíkt ákvæði eigi að lögfesta eins og reyndar hæstv. menntmrh. benti á hér áðan.

Í 4. mgr. 4. gr. er gert ráð fyrir því að starfsfólk með uppeldisfræðimenntun verði fengið til að annast nemendur í grunnskólum fyrir eða eftir eiginlegan skólatíma. Það er ekkert nánar skilgreint í grg. hvers konar menntun er hér átt við. Ef lögfesta á slíkt ráðningarskilyrði þá þarf nánari útskýringar við eins og reyndar kom fram í máli hv. þm. Svavars Gestssonar hér áðan. Sú hugmynd hefur komið fram að t.d. Sóknarkonur gætu með fræðslu eða námskeiðum áunnið sér rétt sem nokkurs konar fóstrutæknar og finnst mér að slíkt mætti skoða.

Loks er í 7. gr. frv. gert ráð fyrir því að 74. gr. núgildandi grunnskólalaga falli brott, en hún fjallar um heimild sveitarfélaga til að setja á stofn við grunnskólann og undir sömu stjórn forskóla fyrir fimm og sex ára börn. Um þetta atriði segir í grg., með leyfi virðulegs forseta:

„Fimm ára börn eiga nú völ á mun betri umönnun og þjónustu á dagvistarheimilum en í skólum og þykir rétt að vanda fremur til aðbúnaðar þeirra aldurshópa sem þegar eru í grunnskóla en að auka við nýjum árgangi og bjóða honum upp á lakari kost en hann á völ á.“

Um þetta eru nokkuð skiptar skoðanir, ekki síst hjá foreldrum, svo að það er spurning hvort afnema eigi með öllu slíkt heimildarákvæði hvað varðar fimm ára börn. Sú þróun gæti þó átt sér stað að fóstrur komi inn í kennaramenntunina eða nám þeirra verði flutt inn í Kennaraháskólann.

Fleiri athugasemdir mætti gera við þetta frv. þótt ég láti það vera að sinni.

Virðulegi forseti. Ég ítreka þakkir mínar til hv. flm. fyrir þetta frv. sem ég tel mjög jákvætt í grundvallaratriðum og fyrir þær umræður sem þetta frv. hefur skapað hér í þingdeildinni. Ég vil aðeins benda á að þetta sama mál hefur verið til athugunar hjá þeirri fjölskyldunefnd sem hæstv. forsrh., Þorsteinn Pálsson, skipaði sl. sumar undir forustu Ingu Jónu Þórðardóttur. Mér er tjáð að nefndin muni skila af sér ítarlegum tillögum í apríl nk. bæði um samfelldan skóladag og dagvistarmál og verða þær tillögur vafalaust mjög athyglisverðar.

Von mín er sú að sem flestir muni vinna að því að koma á þeim úrbótum í skólamálum okkar sem nauðsynlegar eru vegna breyttra þjóðfélagsþátta, ekki síst barnanna vegna. Og þar sem hæstv. menntmrh. er hér staddur þá vil ég beina þeim vinsamlegu tilmælum til hans, og treysti honum reyndar fyllilega til þess, að standa vörð um þetta mikilvæga mál.