22.03.1988
Efri deild: 73. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 5995 í B-deild Alþingistíðinda. (4072)

315. mál, grunnskóli

Flm. (Guðrún Agnarsdóttir):

Herra forseti. Ég vil byrja á því að þakka öllum þeim sem hér hafa tekið til máls fyrir jákvæða, málefnalega og góða umræðu. Ég verð að segja það að þetta hefur verið mjög ánægjulegur dagur í þessari ágætu þingdeild. Það hefur sérstaklega verið ánægjulegt hve þm. eru almennt sammála efni þessa frv. og a.m.k. taka vel undir þau grundvallarviðhorf og sjónarmið sem þar koma fram. Það hefur jafnframt verið mjög ánægjulegt hve mjög í raun skólamálin skipta menn almennt máli. Mér finnst vera fyrst og fremst um að ræða hvernig á að finna sameiginlegan farveg fyrir þær framkvæmdir í þessum málum sem eru knýjandi og nauðsynlegar og allir virðast vera sammála um að þurfi að verða sem fyrst. Þá er kannski fyrst og fremst spurning um það hvaða mál við ákveðum að setja í forgang.

Ég mun hafa þann háttinn á að fara yfir athugasemdir þeirra sem hafa tekið til máls í umræðunni og svara, ef mér þykir þess þörf, ýmsum þeim athugasemdum sem komu fram eða ræða að öðru leyti þau sjónarmið sem komu fram í máli manna. Ég vil sérstaklega fagna því hversu jákvæður hæstv. menntmrh. var í sínu máli. Mætti ég spyrja hæstv. forseta: Er menntmrh. önnum kafinn í Nd. sem stendur? (Forseti: Það er verið að ræða um Háskólann á Akureyri að mér var tjáð og hann þurfti þess vegna að fara frá.) Já, ég hafði reyndar vitneskju um það áðan. En ég vona að hann geti komið síðar eða a.m.k. kynnt sér það sem ég hafði fram að færa varðandi það sem hann sagði.

Hann minntist á það í upphafi máls síns eftir að hann hafði lýst yfir stuðningi við meginefni frv. að það væri erfitt að fá fólk til starfa t.d. í skólunum og þá er jú auðvitað það sem við blasir og kom fram í máli bæði hv. 7. þm. Reykv. og hv. 6. þm. Vesturl. og reyndar líka í máli hv. 6. þm. Reykn. að um það er að ræða að tryggja bæði fóstrum og kennurum betri laun þannig að þetta fólk leiti eftir þeim störfum sem því standa til boða við uppeldisstörf.

Hæstv. ráðherra minntist á kostnaðarskiptingu milli foreldra annars vegar og ríkisins hins vegar í málefnum sem varða máltíðir í skóla. Hann minntist líka á það að öðru máli gegnir um dreifbýli og þéttbýli og lagði áherslu á nauðsyn þess að sýna sveigjanleika en ekki stífni eða að hafa ósveigjanlegt skipulag. Ég tek að sjálfsögðu undir það. Það er afar mikilvægt að skólinn sé lagaður að aðstæðum á hverjum stað svo best megi fara, en hins vegar verður ætíð að gæta lágmarksstaðla.

Hann minntist reyndar á það, og fleiri gerðu það í máli sínu, sem varðar sérstaklega gæslu og umönnun þeirra barna sem mundu dvelja í skóla utan kennslustunda og víst er að mikil þörf er fyrir það. Það kom fram bæði í máli hans og annarra, t.d. í máli hv. 6. þm. Reykn., að e.t.v. gæti ófaglært fólk annast þetta umsjónarhlutverk. Aðrir spurðu í þessu sambandi hverjir þeir væru sem hefðu uppeldisfræðilega menntun og gætu gegnt þessum starfa sem tiltekinn er í frv. Þegar átt er við uppeldisfræðilega menntun er fyrst og fremst verið að hugsa um fóstrur og kennara. En vegna þess hve þörfin er brýn fyrir gæslu, sérstaklega yngri barnanna, í skólum víða hafa sum sveitarfélög tekið þetta upp. Þau hafa satt að segja reynt að klófesta það starfsfólk sem mögulegt var að fá til þessa starfa og í tveimur tilfellum veit ég að reynslan hefur sýnt að ófaglært fólk hefur hreinlega gefist upp á þessu. Því finnst það of erfitt, jafnvel þó að það hafi reynslu af umgengni við börn, og auðvitað hlýtur það að vera einstaklingsbundið, en ég veit um tilvik í tveimur skólum þar sem þetta hefur einmitt verið gert og ófaglærða fólkið hefur gefist upp vegna þess að börnin voru of mörg, því fannst þau of erfið, og ég held að skipti á starfsfólki hafi verið talsvert tíð, ekki vegna þess að það væri ekki sæmilega vel launað, heldur fannst því hreinlega verkefnið of erfitt viðureignar.

Nú kann vel að vera að þetta reynist misjafnlega vel og kann að reynast vel sums staðar, en þó held ég að við verðum að gæta þess mjög vel að slík gæsla verði ekki að geymslu fyrst og fremst, heldur verði börnunum tryggt þroskandi og uppeldislega jákvætt umhverfi. Ég held að mjög æskilegt væri að þetta hlutverk gæti verið í höndum fóstra eða kennara sem hefðu uppeldisfræðilega menntun. Ég vil ekki nefna þessi dæmi sérstaklega vegna þess að ég veit að skýrslu verður skilað um þau og ég tel eðlilegt að hún komi beint frá þeim aðilum sem hafa annast þetta fremur en að ég fari að geta þess hér.

Það kom fram í máli nokkurra þeirra sem hér töluðu að varast skyldi að lögbinda skólastærðina. Það væri ýmislegt sem væri jákvætt við stærri skóla. T.d. væri kostur á samnýtingu. Það var líka minnst á sveiflur í barnafjölda. Svo var reyndar talað um í sambandi við þessar athugasemdir að varasamt væri að binda svo nákvæmlega í lögum ýmis framkvæmdaatriði. Það var ekki getið um það hvort það ætti að vera í reglugerðum eða hvort þar ættu að vera einhver almenn sjónarmið.

Hins vegar tel ég að reynslan hafi sýnt, erlendis frá sérstaklega og líka það sem við höfum séð hér á landi, að ókostir stærri skólanna eru meiri. Það kann að vera, eins og kom fram í máli hv. 7. þm. Reykv., að ef skólarnir væru nægilega vel fjármagnaðir gæti það tekist. Ég veit hins vegar ekki til þess að reynsla erlendis frá hafi sýnt í raun og veru að einhvers staðar kæmi fram að stórir skólar væru þrátt fyrir allt ákjósanlegri. Það kann að vera spurning um nákvæma tölu, hvort það væru 300, 400, 500 eða 600. Það kann að vera spurning um nákvæma tölu, en við verðum, held ég, að setja okkur eitthvert hámark og tryggja það að skólarnir fari ekki yfir ákveðið hámark. Við þurfum kannski einnig að muna eftir því að fæðingum fer fækkandi hérlendis. Þeim hefur farið allverulega fækkandi í nágrannalöndum okkar, þannig að fólksfjölgun hefur jafnvel staðið í stað meðal sumra Norðurlandaþjóða og við sjáum fram á það líka ef við lítum á mannfjöldaspár. Ég bendi hv. þingdeildarmönnum á bókina „Gróandi þjóðlíf“ sem er afrakstur framtíðarspárnefndarinnar, nokkurra hópa sem störfuðu innan hennar. Í þeim bæklingi eða bók kemur fram mannfjöldaspá fyrir Ísland fram til ársins 2010 og því er spáð að fólki fari fækkandi. Við hljótum að þurfa að taka eitthvert mið af því og ég held að það geti aldrei orðið að kostirnir við stóru skólana komi til með að réttlæta þá ókosti sem þeir hafa í för með sér.

Síðan ræddi hæstv. ráðherra um það hvort ekki væri unnt að nýta betur þann tíma sem börn verja í skólum hérlendis og þá einkum í því augnamiði að reyna að stytta nám þegar á heildina væri litið og hann horfði þá allt fram til loka framhaldsskólanáms og minntist á það hversu mun seinna við verðum stúdentar hérlendis en í nágrannalöndunum. Það má örugglega nýta tímann betur, bæði í skólunum og víða annars staðar. Það má e.t.v. einnig stytta námið, en ég vil þó vara við því að skerða og stytta námið á kostnað haldgóðrar almennrar breiðrar menntunar. Ég held að það sé afar mikilvægt í okkar samfélagi að við höfum breiðan, almennan þekkingargrundvöll sem við síðan byggjum okkar sérhæfingu og sérmenntun á og ég mundi vara við því að sérmennta börn of snemma.

Síðan ræddi hæstv. ráðherra mjög athyglisvert mál sem er hugmyndir hans um skólamálaáætlun. Ég tek heils hugar undir þær hugmyndir og finnst þær afar jákvæðar. Ég held að það væri mjög nauðsynlegt fyrir okkur af því að það er áberandi a.m.k. í þessari umræðu hve hún fer friðsamlega fram og málefnalega og ég er alveg viss um það, eins og þeir fulltrúar þingflokkanna sem eru á þingi hafa lýst yfir, að þetta eru meira og minna mál sem eru á stefnuskrá flestra flokka og samtaka sem hér eru á þingi og við hljótum að geta einmitt náð einhverri einingu um það hvernig við mundum vilja standa að skólamálaáætlun jafnvel þó okkur greini eitthvað á um leiðir til fjármögnunar. Þess vegna styð ég eindregið þessar hugmyndir ráðherra og vonast til þess að við sjáum þær líta dagsins ljós sem fyrst.

Hann minntist einnig á áætlun um skólabyggingar og það er sannarlega þarft líka vegna þess að þróun í þeim málum hefur verið eins og víða í öðrum málaflokkum tilviljanakennd og talsvert komin undir því hvort menn hafa beitt sér sterklega fyrir sitt kjördæmi eða sinn stað fremur en að það hafi ráðið hvar þörfin væri brýnust svo að ég styð það eindregið.

Hann minntist á það, eins og margir aðrir, að þetta væri kostnaðarsamt og vissulega kostar þetta nokkurt fé, einkum í byrjun, en ég legg megináherslu á það aftur eins og ég gerði í framsögu minni: Hvenær kemur röðin að börnunum? Hve lengi á okkur að líðast að spara við börnin? Við sýnumst hafa efni á því að ganga í gegnum hvert fjárglæfraævintýrið á fætur öðru í þessu þjóðfélagi, að velja okkur til framkvæmda og í forgangsröðun ýmis mál sem hvergi gagnast börnum í raun og veru og þá er ekki horft í hundruð milljóna né heldur milljarða. Ég get ekki fundið neinar forsendur sem réttlæta það að spara við börnin, alls ekki.

Ég þarf ekki að minnast á það sem við höfum verið að ræða hér inni á þinginu undanfarið. Þessi kostnaður sem talað er um hérna jafngildir einni flugstöð. Vissulega þurfti að bæta starfsaðstöðu fólks og vissulega er ánægjulegt að geta haft snyrtileg og falleg hús í heimreiðinni. En þá komum við aftur að spurningunni um forgangsröðunina og hvað við veljum, konurnar og karlarnir, foreldrarnir í þessu þjóðfélagi fyrir börnin okkar. Það er meginatriði og afskaplega einfalt mál í raun og veru.

Hæstv. ráðherra minntist á það að hann vildi fremur, og reyndar tóku aðrir undir það mál, sjá rammalöggjöf um skólamálin og þá um grunnskólann sem fyllt væri út í með framkvæmdum. Hann minntist einnig á að frv. um grunnskóla sem lagt var fram í þinglok 1987 hefði verið gagnrýnt talsvert af þeim sem fengu það til umsagnar og hann minntist á það að lögin væru í endurskoðun en mig langaði til að spyrja hann beint hver það væri sem sinnti þeirri endurskoðun. Hæstv. ráðherra er ekki hér svo að ég verð að beina þeirri spurningu til hans á eftir.

Hins vegar, eins og kom reyndar fram í máli hv. 7. þm. Reykv. þegar hann gagnrýndi einnig svo nákvæmar tilgreiningar á framkvæmdaratriðum í frv., eins og hér er til lagt, að það væri skynsamlegra að hafa þetta víðara, minntist hann á það í sínu máli að hann teldi að ástæðan fyrir því hlyti að vera sú að við vildum tryggja lágmarksstaðla og það er alveg hárrétt tilgetið. Ætlun okkar með því að setja þetta svo nákvæmlega hér er fyrst og fremst sú að tryggja börnum lágmarksstaðla í menntun. Og ég vil vekja athygli hv. þm. á því að frv. sem hér liggur frammi er í raun í öllum meginatriðum sniðið eftir þeim grunnskólalögum sem nú gilda. Það er í raun ekki mikið nákvæmara en þau lög sem þegar gilda, heldur er það fyrst og fremst nánar útfært hvað varðar breytingar. En það er ekkert nákvæmara útfært í raun og veru. Þá er líka spurning um það hvort núgildandi lög séu of nákvæm, hvort sú löggjöf er í raun og veru of nákvæm.

Hv. 7. þm. Reykv. taldi rétt að karlar ættu líka að koma við sögu við gerð svo mikilvægs máls eins og hér um ræðir. Þeir væru líka foreldrar. En konur innan Kvennalistans stóðu fyrst og fremst að undirbúningi málsins, enda eru það fyrst og fremst konur sem eru virkar innan Kvennalistans þó að þar séu einnig karlar á félagaskrá. Þess vegna var þetta eðlilega unnið af konum. Ég tek samt fegins hugar undir þau sjónarmið að auðvitað hljóta karlar og þurfa karlar að koma að því líka að móta skólastarf og stefnu fyrir sín börn í skólum, en ég vil vekja athygli hv. þm. á því að þetta tækifæri hafa karlar haft afskaplega lengi og það hefur ekkert verið frá þeim tekið. Rétt þykir þó að konur fái aðeins að koma þar að sem hefur orðið í seinni tíð og ég vil benda honum jafnframt á að konur eru að stærstum hluta grunnskólakennarar í skólum okkar og jafnframt mæður og mér finnst mjög eðlilegt að þær hafi sitt til málanna að leggja. Það er auðvitað ekkert gegn körlum og auðvitað þarf það að vera í samvinnu við karla, feður barnanna. Það er ekki að ástæðulausu að þessi mál brenna á konum vegna þess að umsjá barna kemur mjög mikið í hlut kvenna, einkum yngri barnanna. Þannig hefur það verið bæði á heimilunum og eins að sinna þeim eða skipuleggja nám þeirra og störf utan heimilis og sjá til þess að koma þeim á milli staða, milli skóla og heimilis o.s.frv. Það er því ekki nema eðlilegt að konur telji þetta skipta sig máli og vilji skipta sér af því.

Ég ætla aðeins að minnast á athugasemdir sem komu fram í máli hv. 7. þm. Reykv. við greinar frv. sem hann studdi flestar. Ég hafði áður minnst á nauðsyn þess að tryggja það að skólarnir verði ekki of stórir hvar sem við ákveðum síðan að draga markalínuna. Við höfum sett hana við 400. Það kann að vera að það sé í lagi að hafa skólana aðeins fjölmennari, en ég get ekki fallist á það í raun, ég veit a.m.k. engar niðurstöður eða kannanir þar sem hefur verið sýnt fram á það, að stórir skólar séu heppilegri vinnustaðir fyrir börn og kennara en smærri skólarnir. Það var mjög athyglisvert sem hv. þm. sagði um þessa bandarísku könnun, en hún var á engan hátt skilgreind. Það var reyndar í sambandi við fjölda nemenda í bekk en ekki stærð skóla. En ef hann vissi um einhverja slíka, þá þætti mér það mjög áhugavert.

Ég skildi ekki alveg hvað hv. þm. átti við þegar hann var að tala um 3. gr. og samfelldan skóladag. Ég hélt e.t.v. að hann hefði ruglað því saman en kannski misskildi ég hann. Það var fyrst og fremst talað í 3. gr. um aðstöðu til að neyta málsverðar, en það skiptir heldur ekki meginmáli.

Hann spurði um 4. gr., sérstaklega um síðustu mgr. sem varðar þá sem hafa uppeldisfræðimenntun og ég hef þegar tekið það til og það kom reyndar strax fram í máli hæstv. ráðherra að skilgreiningin á því er í raun fóstrur og kennarar. Ástæðan fyrir því að við tökum þetta sérstaklega til í 4. gr. er einmitt sú að þegar var verið að gera tilraunir með nestismálin strandaði það á því að það var engum ætlað að sjá um það. Þetta átti eiginlega að vera bara starf kennaranna svona aukalega í þeirra eigin hádegismatartíma og það gekk auðvitað ekki upp. Þess vegna þótti okkur rík ástæða til þess að það væri skilgreint nákvæmlega hver ætti að gera það og hvar það fólk ætti að tilheyra.

Hv. þm. minntist einnig á stöðu kennarans í skólanum og það gerði hv. 6. þm. Vesturl. líka og það kom einnig fram í máli hv. 6. þm. Reykv. hversu mikilvægt væri að vel væri búið að kennurum í skólunum. Ég tek heils hugar undir það. Það er engin spurning í mínum huga. Hins vegar ákvað ég að fara ekki út í þá sálma þegar ég mælti fyrir þessu frv., heldur binda mig einungis við þær breytingar sem hér eru lagðar til, en auðvitað byggjast þær á því að skólinn sé góður vinnustaður og til hans fáist fólk sem leggi metnað sinn í að starfa þar og undirstaða þess er auðvitað að laun og kjör þeirra sem þar vinna séu viðunandi og ég vísa til þess sem hv. 6. þm. Vesturl. sagði í þeim efnum.

Ég tek líka undir það sem kom fram í máli hv. 7. þm. Reykv. að efla þurfi fræðsluskrifstofurnar út um landið. Það er auðvitað mjög mikilvægt atriði.

Hv. 8. þm. Reykv. Sólveig Pétursdóttir tók einnig jákvætt undir efnisatriði þessa máls og lýsti yfir vilja síns flokks í þessum efnum sem var greinilega jákvæður og ótvíræður, bæði í gegnum samþykktir ýmsar og annað sem hún minntist á. Hún minntist á stærð skólahúsnæðis. Hún talaði um að skóla yrði skipt í tvennt. Það var í raun ekki hugmyndin, heldur er spurningin um það sem er tilgreint í sambandi við skólastærðina að það geta verið skólar, og eru reyndar núna, sem eru misstórir og hafa mismargar bekkjardeildir innan sinna veggja. Sumir hafa ekki enn þá yngstu deildirnar. En það er e.t.v. eitthvað sem kynni að breytast í framtíðinni og þess vegna var einmitt talað um þessar tvær gerðir af skóla sem eru til núna, þar sem gert er ráð fyrir yngri deildunum eða þá þeim er sleppt. Ég hlakka til að sjá þær niðurstöður sem verða úr þeirri fjölskyldunefnd sem hæstv. forsrh. skipaði því að þær koma til með að varða bæði þetta mál og önnur mjög mikilvæg mál sem varða fjölskyldur í landinu. Og það er sannarlega gott að sú nefnd muni vinna svo hratt.

Síðan langar mig aðeins að minnast á athugasemdir sem hv. 6. þm. Reykn. kom fram með og þakka ég henni jákvæðar undirtektir við efni frv. Hún taldi reyndar að e.t.v. væri sérfræðimenntað fólk ekki nauðsynlegt til gæslu og umönnunar, en ég hafði minnst á það áður. Ég hygg að reynslan sýni að það sé miklu heppilegra, bæði vegna starfsfólksins og líka vegna barnanna. hvað varðar mataraðstöðu í skólunum kemur auðvitað ýmislegt þar til greina.

Ég ítreka t.d. að það er náttúrlega ekki spurning um að stofna til mikils kostnaðar í hverjum skóla með því að innrétta og byggja eldhús þó að þess þurfi auðvitað í tengslum við heimilisfræðikennslu, en það væri leikur einn að flytja mat á milli skóla. Með nútímatækni er hægt að gera það mjög auðveldlega og hreinlega þannig að maturinn sé lostætur þegar hann berst þeim sem hans neyta. Eða þá þá valkosti sem hún minntist á.

Ég tek undir það með henni að það er auðvitað ekki réttlátt að það er niðurgreiddur matur til ýmissa fullorðinna manna og kvenna, til ýmissa starfsstétta, en við höfum ekki hirt um það, fullorðna fólkið, að sjá til þess að börnin hafi sæmilega mataraðstöðu, hvað þá að sjá til þess að hún væri studd eða greidd að einhverju leyti. Ástæðan fyrir því að ekki var minnst á skólaráðið er fyrst og fremst sú að þetta var frv. sem hv. þm. var sjálfur með í flutningi og þótti því ekki rétt að vera að taka það hér inn í þetta mál því það var fyrst og fremst mál sem hún bar fram og satt að segja bjuggumst við við að hún mundi huga að endurflutningi á því máli og þess vegna var þess ekki getið, ekki af neinum öðrum ástæðum. Vissulega er það alveg rétt að á þessar hugmyndir allar var minnst meira og minna í þeim vinnuhópi sem starfaði undir forustu hv. 6. þm. Reykn. Salome Þorkelsdóttur. Það var kannski svolítið önnur nálgun á ýmsu, en eins og hefur komið fram í máli allra hér er fólk meira og minna sammála um þessi atriði. Þetta eru fyrst og fremst atriði sem varða alla fjölskylduna og búið er að ræða mikið um, en það var tekið mið af grunnskólalögunum þegar þessar breytingar voru gerðar og svo auðvitað af þeim tillögum sem komu fram í vinnuhópnum þó að þetta hafi verið útfært kannski á svolítið annan hátt en var gert þar.

Tveir þm. Alþfl. komu hér upp og tóku til máls, hv. 3. þm. Vesturl. Sveinn Hálfdánarson og hv. 9. þm. Reykn. Karl Steinar Guðnason. Þeir töldu báðir vandkvæði á því að þessu yrði framfylgt vegna þess að fé skorti. Ég held að það hafi verið nokkur misskilningur í máli hv. 3. þm. Vesturl. þegar hann taldi að við vildum framkvæma þetta allt á tveimur árum. Það er ekki rétt. Við höfðum hugsað okkur að þetta yrði alla vega fram til ársins 1991 og, eins og ég sagði áðan, þá vildum við ekki lægja metnað okkar í þessum efnum vegna þess hve þessi mál hafa dregist og ákváðum því að hafa þennan hraða á, en vissulega má ræða það hvort það eigi að gera þetta á lengri tíma. Hins vegar er í raun ekki um svo mikla fjármuni að ræða. Stofnkostnaður er nokkur en rekstrarkostnaðurinn er í raun og veru ekki mikill þegar hugsað er til þess hversu gríðarlega vænleg fjárfesting þetta er. Við megum ekki gleyma því.

Hér var verið að tala um annað gildismat og það er enginn vafi í mínum huga að ef okkur finnst þetta of dýrt þurfum við talsvert mikið að huga að því að breyta gildismati okkar því að fram hjá þessu getum við ekki gengið öðruvísi en að bíða tjón af, þjóðin í landinu.

Hv. 9. þm. Reykn. Karli Steinari Guðnasyni fannst vera nokkur mótsögn í því að þeir sem legðu fram mál sem kostuðu eitthvert fé eins og þetta, ég held hann hafi sagt, öskruðu síðan og veinuðu ef ætti að skattleggja til þess að tryggja fé til velferðarmála, til velferðarkerfisins. Þá vil ég aðeins segja að Kvennalistinn t.d. hefur ekki verið mjög feiminn við skattlagningu. Hins vegar hefur okkur þótt það skipta meginmáll hverjir eru skattlagðir og hvernig, hvaðan fé er fengið til samneyslunnar. Það er alveg rétt hjá hv. þm., við mótmæltum, eins og aðrir í stjórnarandstöðu, kröftuglega því að lagður yrði matarskattur á fjölskyldurnar í landinu og það var fyrst og fremst vegna þess að okkur fannst það koma mjög óréttlátlega niður, einkum á þeim sem lægstar hafa tekjur eða framfærslu og ég tala nú ekki um barnmörgum fjölskyldum. Og ég held að hv. þm. kannist við röksemdafærsluna síðan um jólaleytið svo að ég þarf ekki að fara ítarlega út í það hér núna. Hins vegar vorum við reiðubúnar, og hann man kannski eftir því líka, að taka skatta frá ýmsum öðrum aðilum í þjóðfélaginu einmitt til þess að fjármagna samneysluna og velferðarkerfið. Ég held því að hann geti ekki vænt okkur um það að við séum feimnar að leggja á skatta þar sem við höldum að menn þoli að greiða þá. Auðvitað er engin skynsemi í því að skera svo langt inn að beini að þeim sé ekki lífs von sem eru skattlagðir, hvort sem það eru fyrirtæki eða einstaklingar. Það er hins vegar sjálfsagt að skattleggja þá sem vel eru stöndugir og geta borið það.

Það er verið að tala um hvaðan eigi að taka þetta fé. Ég vísa aftur til forgangsröðunar. Það er spurning um það einmitt hvar maður setur peningana og hv. þm. var sjálfur að tala um hundruð farseðla til að kosta norræna samvinnu á sama tíma og lélegar námsbækur væru fyrir börnin til þess að fá eitthvað að vita um Norðurlöndin. Auðvitað er það spurning um hvað maður fjármagnar, hvað fer mikið í opinbera risnu, hvað fer mikið í það sem mætti e.t.v. bíða og jafnvel flokka undir munað eða þarfleysu og hvað fer til nauðsynjamála og það er spurning um það hvernig maður skilgreinir nauðsynjamál. Það er enginn vafi í okkar huga að þetta er brýnt nauðsynjamál. Við hefðum hins vegar kosið að láta flugstöðina bíða og við hefðum kosið að gera minna t.d. til að auðvelda yfirbyggingu í verslun sem orðið hefur á undanförnum árum og ýmissi þjónustu sem við teljum ekki brýna og nauðsynlega eins og þetta mál. Þarna er spurning um forgangsröðun.

Það er vissulega rétt hjá hv. þm. að það eru margir í þessu þjóðfélagi sem búa við vanda sem þarf að bæta, en við hljótum auðvitað að velja okkur forgangsröðina og eins og hefur ríkt mikil eining um þetta mál hér í deildinni í dag hljótum við friðsamlega að geta fundið okkur sameiginlega átakspunkta til þess að tryggja að þessi atriði komist til framkvæmda því, eins og ég sagði áður, það verður ekki beðið eftir því mjög lengi án þess að framtíð barnanna okkar bíði verulegt tjón af, því að hvað sem um okkur verður er það þeirra hlutskipti að lifa í þessu landi í samvinnu og samkeppni við aðrar þjóðir og við hljótum öll að óska þess að þau ekki bara spjari sig heldur lifi þau af.