22.03.1988
Neðri deild: 72. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 6007 í B-deild Alþingistíðinda. (4083)

60. mál, iðnaðarlög

Ólafur Þ. Þórðarson:

Herra forseti. Það fer ekkert á milli mála að hv. 1. þm. Norðurl. v. stendur ekki einn að því áliti innan Framsfl. að þetta sé ekki skynsamlegt frv.

Hér eru í þinginu teknar ákvarðanir um smæstu mál. Það má ekki selja 100 fermetra lands í eigu ríkisins án þess að það fari fyrir þingið. En mönnum sýnist aftur á móti að í þessu tilfelli sé allt í lagi að afgreiða lagafrv. með þeim fyrirvara: „þegar sérstaklega stendur á“. Og ég verð að segja eins og er að þeim mun meir sem ég hugsa um merkingu þessara góðu orða „þegar sérstaklega stendur á“, þeim mun torskildara verður mér hvaða takmörkun það yfir höfuð felur í sér. Það er kannski rétt í stöðunni núna að horfa á það dálítið breitt: hver er staða íslensks iðnaðar og hver er staða efnahagsmála?

Við stöndum frammi fyrir því að það er gífurlegur viðskiptahalli við útlönd sem segir okkur í reynd að við eyðum meiru en við öflum. Það segir okkur jafnframt að íslensk iðnaðarvara er að hopa fyrir innfluttri vöru á markaðnum. Þegar slíkt er að gerast hljóta mjög mörg iðnaðarfyrirtæki Íslands að vera í þröngri fjárhagsstöðu. Það hlýtur jafnframt að koma til álita hjá þessum sömu iðnaðarfyrirtækjum hvort það sé ekki betra að reyna að fá einhvern erlendan aðila til að leggja fé í þetta fyrirtæki, sem sá aðili undir mörgum kringumstæðum mundi eiga kost á að taka að láni í sínu heimalandi á eðlilegum vaxtakjörum, vegna þess að þar sé eðlilegt ástand í fjármálaheiminum í staðinn fyrir að íslenska iðnaðarfyrirtækið situr frammi fyrir því að þurfa að fara hér út á okurlánamarkaðinn. Hvað haldið þið að freistingin sé stór undir slíkum kringumstæðum að reyna þá leið að selja heldur og koma útlendum aðilum inn? Ef það er nokkurn tímann sem það er ekki skynsamlegt að setja heildarlöggjöf sem felur ekkert annað í sér en það að iðnrh. má gera það sem honum sýnist er það náttúrlega einmitt ekki á slíkum tímum sem það er skynsamlegt. Og mér er óskiljanlegt hvers vegna hæstv. iðnrh. leggur ekki fram lagafrv. um þau mál sem hann vill koma í gegn. Hér hafa menn lagt fram furðulegustu bandorma. Furðulegustu bandorma. Og það er þá illa sorfið að starfsliði iðnrn. ef ráðherra getur ekki komið fram slíkum frv. Forseti Sþ. var að lýsa því yfir að það væri heimilt að leggja fram frv. allt páskaleyfið. Og þó þing kæmi ekki saman fyrr en 11. apríl yrði litið svo á að frv. væru komin nægilega snemma fram. Þetta segir manni í reynd aðeins eitt, hvers vegna iðnrh. velur ekki þessa leið. Hann telur út af fyrir sig að hann sé með eitthvað af málum sem þingið mundi samþykkja. En hann er jafnsannfærður um að hann er með hugmyndir í pokahorninu sem hann kemur ekki í gegnum Alþingi Íslendinga. Þess vegna mætir hann hér til að þrýsta á að hann fái þessa heimild í eitt skipti fyrir öll og svo megi þingið bara eiga sig í þessu máli.

Ég vil vekja athygli manna á því að eitt af Norðurlöndunum, Danmörk, er í Efnahagsbandalagi Evrópu og það líður varla svo vikan að fyrirtæki í því landi séu ekki yfirtekin af erlendum aðilum. Það líður varla svo vikan. Og það eru engin smáfyrirtæki. Það eru lykilfyrirtæki á mörgum sviðum. Þeir eru búnir að tapa yfirráðum yfir stærstu skipasmíðastöð Danmerkur, þeir eru búnir að tapa yfirráðum yfir mjög stórum stórmörkuðum í „kóngsins Kaupmannahöfn“ og fleiri og fleiri fyrirtæki eru að komast í eigu útlendinga. Og hverjir hafa risið upp núna loksins á elleftu stundu? Það eru alls konar stjórnendur launþegasjóða úti í Danmörku sem allt í einu átta sig á því að þeir atvinnurekendur sem þeir þurfa að semja við í framtíðinni verða ekki Danir.

Mér er ekki ljóst hvers vegna menn, á því herrans ári 1988, virðast ætla að gefast upp við það verkefni að standa að iðnaðaruppbyggingu í landinu á þann veg að það séu íslenskir menn sem þar stjórni og ráði. Auðvitað er það rétt að undir einstaka kringumstæðum getur það verið svo að við þurfum að taka um það ákvörðun hvort fyrirtæki verði ekki starfrækt hér á landi eða hvort Íslendingar eigi minni hluta. Þau eru til slík tilfellin. Á slík rök bæri að sjálfsögðu að hlusta. Auðvitað mundum við frekar velja það undir þeim kringumstæðum að fyrirtæki risi hér á landi og starfsemin yrði hér heldur en að það væri 100% víst að ella yrði fyrirtækið ekki til á Íslandi heldur yrði það starfrækt erlendis. En hvers vegna þessa aðferð, að reyna að veiða á gruggugu? Hvers vegna hafa menn ekki kjark til þess að leggja þau mál fyrir Alþingi Íslendinga sem þeir telja að séu þess eðlis að það sé rétt að taka á þeim þannig að menn séu að taka ákvarðanir um málefni en ekki hitt hvort það eigi að stórauka völd einhvers ráðherra í landinu?

Og fyrirvarinn er „ef sérstaklega stendur á.“ Það er þá aldeilis eitthvað til að fóta sig á undan brekkunni. Ég er ekki búinn að sjá að hæstv. núv. iðnrh. hefði mikla handfestu þegar þeir kæmu til hans þrýstihóparnir sem væru kannski í þeirri stöðu að þeir sæju fram á það að annaðhvort væri það innlendur okurmarkaður sem yfirtæki hjá þeim eða þá að þeir yrðu að láta útlendinga taka við, vegna þess einfaldlega að heildarstjórn efnahagsmálanna er ekki í lagi í landinu. Heildarstjórn efnahagsmálanna er ekki í lagi. Ég sé að hæstv. forsrh. skrifar mikið og það er ekki Arafat sem stendur honum fyrir hugskotssjónum þessa stundina, og það er kannski vel, nema það sé orðið þannig ástandið að hann hafi hugann mest við það. En sannleikurinn er sá, og það vita það allir, að heildarstjórn efnahagsmálanna er ekki í lagi. Þess vegna er það alveg kolvitlaust að ætla nú að fara að slaka á og opna allar gáttir í þessum efnum. Menn geta haldið því fram sér til skemmtunar, eins og stundum er gert af frjálshyggjuliðinu, að það sé ekkert um annað að gera en að hreinsa það lið út úr íslensku atvinnulífi sem hafi tekið hæpnar ákvarðanir og það eigi að láta það allt fara á hausinn alveg án tillits til þess hvort heildarefnahagsstjórnin er í lagi eða ekki. En ég er nú orðinn dálítið hræddur um það að svo gæti farið að það hryndi meira úr hjörðinni en almenn ánægja mundi ríkja með hjá Sjálfstfl. Það gæti farið svo að það hryndi nú úr hjörðinni meira. Þess vegna skora ég á hæstv. iðnrh. að gera þær kröfur í þessari ríkisstjórn að það sé eðlilegur rekstrargrundvöllur fyrir iðnað í landinu en leggja ekki á flótta á harða hlaupum út eftir erlendu hlutafé til að borga tap vegna óstjórnar efnahagsmála á Íslandi undir forustu Sjálfstfl.