22.03.1988
Neðri deild: 72. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 6009 í B-deild Alþingistíðinda. (4084)

60. mál, iðnaðarlög

Frsm. meiri hl. iðnn. (Kjartan Jóhannsson):

Herra forseti. Menn nota furðusterk orð yfir það að lagaákvæði verði nú fært í lög þannig að það verði eins og það var fram til 1978 eða á árunum fyrir 1978. Mér skilst að heill og hamingja þjóðarinnar sé í veði, útlendingar muni vaða hér yfir allt og það verði helst að jafna til einhvers sem Danakonungur sagði 1857 til þess að menn finni áttir í þessu máli.

Ég bara spyr: Var hér allt að fara á kaf í útlenskum atvinnurekstri á árunum fyrir 1978? Voru hér stofnuð fyrirtæki út um allar trissur með útlendri meirihlutaeign? Ég bara spyr: Hvar eru þessi fyrirtæki, hvar eru þessir ógnvænlegu atburðir sem menn eru að lýsa hér mjög fjálglega? Þetta gerðist ekki. Að því leytinu er hér ekki um neina endurvakningu á neinum gömlum draug að ræða, alls ekki. Menn hafa treyst sér til þess, Íslendingar, áður að iðnrh. færi með það vald sem hér um ræðir og ég hef ekki heyrt nokkurn mann vantreysta núv. iðnrh. í þessum efnum, enda hefur hann gert ítarlega grein fyrir þessu máli. Og ég sé ekki hvers vegna menn ættu að gera það, fyrir þá sem óttast svo mjög.

En er það ekki svo að menn standa hér upp, einkum og sér í lagi þegar fer að nálgast kosningar og tala fjálglega um að við þurfum að hafa iðnþróun, við eigum að tileinka okkur hátækni, við eigum að verða í fararbroddi, en svo gerist bara ósköp lítið. Skýringin skyldi þó ekki vera sú að þó Íslendingar telji sig og séu sjálfsagt mjög gáfuð þjóð séu til aðrir aðilar líka í útlöndum sem hafa ýmislegt, vita ýmislegt sem nýtist þeim vel í iðnþróun, í tækniþróun, í hátækni og öðrum slíkum greinum. Það skyldi þó ekki vera að sumar þessar þjóðir í útlöndum, sem eru miklu stærri en við, hafi meira að segja uppgötvað að með samstarfi sín í milli komist þær lengra en ella. Það skyldi þó ekki vera.

Ég held að ef við ætlum okkur að tileinka okkur það nýjasta og vera í fararbroddi, eins og menn tala um, verðum við líka að vera tilbúin að nálgast þá þekkingu sem þarf til þess. Það er það sem um er að ræða í þessu tilviki og það þýðir að menn taka upp samvinnu við erlenda aðila.

Í nál. Páls Péturssonar er sagt að ekki hafi fengist upplýst nákvæmlega um hvers konar efnaiðnað væri að ræða. Það fékkst þó upplýst í bréfi frá ráðuneytinu að hér væri um lyfjaframleiðslu að ræða. Ég get þessa svo það fari ekkert á milli mála. Þetta er ekki málningarframleiðsla, þetta er ekki olíuhreinsunarstöð eða neitt af því taginu. Þetta er lyfjaframleiðsla.

Guðrún Helgadóttir, hv. þm., sagði að hér væri verið að greiða fyrir ákveðnu máli og það er vissulega rétt. En í mínum huga er málið í sjálfu sér tilefni til þess að sú heimild sé veitt sem hér er gert ráð fyrir þannig að menn hafi möguleikann til þess að grípa þau tækifæri sem á að grípa og þarf að grípa þegar þannig stendur á, þegar þannig stendur á og skynsamlegt er. Og sannleikurinn er vitaskuld sá að ef hvert einstakt tilvik af þessu tagi ætti að leggjast fyrir þingið gætum við sjálfsagt tapað af einhverjum ágætum tækifærum sem hv. þm. Ólafur Þórðarson talaði þó um, að stundum þyrftu menn einmitt að gera þetta. Ég er ekki sannfærður um að stjórnendur fyrirtækja séu tilbúnir til þess að bíða í sex eða níu mánuði eftir lagaafgreiðslu. Stundum er það svo í viðskiptalífinu að menn verða að vera reiðubúnir til að taka ákvarðanir. Og stundum er það svo í pólitíkinni að menn verða að vera tilbúnir til þess að treysta ráðherrum fyrir ákveðnu valdi. Það er það sem verið er að gera núna.

Mér finnst á því sem komið hefur fram hér hjá ýmsum þeim sem hafa talað gegn þessu lagafrv. að gæti hræðsluáróðurs. Það er verið að reyna að hræða þingheim. Já, Íslendinga skulum við segja. Það er eiginlega verið að segja að Íslendingar geti ekki staðið sig gagnvart útlendingum. Mér finnst það niðurlægjandi um okkar ágætu þjóð. Ég ætla Íslendingum ekkert að verða að ösku eða gjalti þó þeir taki upp samvinnu við útlendinga um iðnrekstur - iðnrekstur, ég spyr nú ekki að, sem byggist á tækniþróun sem hér um ræðir. Og ég held reyndar að í því tilviki sem hér er til umfjöllunar og vitnað er til sjái menn að hér sé um skynsamlegar aðgerðir að ræða.

Það má vel vera að það sé rétt hjá hv. þm. Guðrúnu Helgadóttur að þetta sé ekkert smámál. Ég er henni sammála um það vegna þess að ég held að við megum ekki loka okkur af og vera eins hrædd við útlendinga og við höfum verið og við eigum að treysta sjálfum okkur til að standa í lappirnar í samvinnu við útlendinga.