22.03.1988
Neðri deild: 72. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 6011 í B-deild Alþingistíðinda. (4085)

60. mál, iðnaðarlög

Albert Guðmundsson:

Hæstv. forseti. Ég vil taka það fram að mál það sem hér er til umræðu, frv. til laga um breytingu á , iðnaðarlögum nr. 42 frá 18. maí 1978, hefur hlotið afgreiðslu í Ed. og þar var formaður þingflokks : Borgarafl. með meiri hl. á nál. Í þessari hv. deild er ég sem formaður flokksins og þm. Borgarafl. á nál. meiri hl. þessarar hv. deildar í iðnn. En ég vil líka taka það fram að þrátt fyrir það er þetta ekki flokksmál eða flokkssamþykkt og hver þm. Borgarafl. greiðir atkvæði eftir bestu samvisku eins og vant er í þessu máli sem öðru.

En ég skrifaði undir þetta nál. vegna þess að ég tel alveg fráleitt að við skulum gefa í skyn að á einhverjum tíma veljum við menn í ráðherrastöðu sem ekki eru hæfir eða ekki traustsins verðir sem handhafar framkvæmdarvaldsins. Ég vil ekki gera nokkrum manni, hvorki í fortíð eða framtíð, það upp að hann sem ráðherra með traust meiri hluta Alþingis að baki geri það vísvitandi að hygla útlendingum umfram hagsmuni íslensku þjóðarinnar eða íslenskra fyrirtækja ef hann þarf að taka ákvarðanir um mál eins og það hvort hagsmunum Íslendinga sé betur borgið með eignaraðild útlendinga að meiri hluta eða minni hluta í samstarfi. Og ég hef af reynslu minni fullt traust á núv. iðnrh. í málum sem þessum, enda væri það kannski úr hörðustu átt ef ég ekki segði þetta vegna þess að sem iðnrh. á sínum tíma sóttist ég eftir sams konar áhrifum eða valdi og hér er um getið.

Ég ætla ekki að gera frv. að frekara umræðuefni. Ég mæli að sjálfsögðu með því að það verði samþykkt og sé ekki ástæðu til þess að gera það að frekara umræðuefni. Ég tók til máls við 1. umr. og sagði þá það sem ég hef að segja um þetta mál. Þó var það athyglisvert að í nál. Ed. á þskj. 439 kemur fram eins konar hótun, sem ég las þá upp og ætla ekki að lesa upp aftur, frá erlendum aðilum um að ef ekki fáist heimild sem þessi muni viðkomandi fyrirtæki fara til útlanda með þá framleiðslu á innlendum hráefnum. Það fer illa í mig slíkt tal.

En það er annað sem ég get ekki annað en dregið athyglina að. Nú standa þeir í hári út af Arafat, eins og kom hér fram hjá hv. 2. þm. Vestf., utanrrh. og forsrh. Þeir eru sem sagt ósammála um utanríkismál. Utanríkismálin eru einhver viðkvæmasti málaflokkur sem við höfum í okkar stjórnsýslu af ástæðum sem allir þekkja. Við getum rifist eins og við viljum um innanríkismál, en utanríkismál íslensku þjóðarinnar eru ákaflega viðkvæm og viðkvæm á alheims vísu. Þar er ríkisstjórnin klofin á þessari stundu. En það er eins í öllum málum. Það er alveg sama hvort það eru fjárlögin, húsnæðislögin eða önnur lög eða utanríkismálin eins og við tölum um núna. Þau hafa verið ágreiningsefni áður. Það kemur fram að ríkisstjórnin er ekki sammála um neitt.

Hér liggur fyrir stjfrv. sem ég sem forustumaður flokks á Alþingi er reiðubúinn til að styðja þrátt fyrir stjórnarandstöðu. Þá kemur í ljós að stjórnarflokkarnir eru andvígir stjórnarfrumvarpi enn þá einu sinni. Þetta er orðið svo furðulegt að maður getur ekki skilið hvernig ríkisstjórnin lifir frá degi til dags. Hér hafa þm. talað fyrir hönd Kvennalistans og lýst sig andstæða þessu frv. Hér hafa þm. frá Alþb. talað og lýst sig andstæða frv. Og hér hafa þm. frá stjórnarliðinu, Framsfl., lýst sig andstæða frv. Það er því alveg ljóst að þrátt fyrir minn stuðning úr stjórnarandstöðunni er ekki meiri hluti með þessu stjfrv. (ÓÞÞ: Ætlar þú þá að bjarga ríkisstjórninni með því að styðja þetta?) Ég get ekki bjargað ríkisstjórninni. Ég lýsti því að ég styð frv., en þm. Borgarafl. hafa að sjálfsögðu eigin ákvarðanir að taka hver um sig. Framsfl. er trúr þeirri stefnu sem hann hafði þegar ég var í ríkisstjórn og fór fram á þetta sama vald. Þá neitaði Framsfl. að styðja þá hugmynd og ég fékk hana heldur ekki í gegn í eigin flokki sem þá var Sjálfstfl. Nú flytur Sjálfstfl. þessa sömu till. Sjálfstfl. hefur þá tekið ákvörðun um að treysta betur núv. iðnrh. en þeim iðnrh. sem hann hafði þá. En Framsfl. er enn þá á móti þessari hugmynd. Sem sagt: það er Sjálfstfl. einn plús aumingja ég sem styður þetta stjfrv. (Gripið fram í: Hvað með Alþfl.?) Ja, það er alveg rétt, já. Það er Alþfl. til, alveg rétt. Alþfl. er eins og Borgarafl. enn þá til og það eru sem sagt Alþfl., Sjálfstfl. og ég sem erum öruggir stuðningsmenn þessa frv. Þó er það ekkert vitað vegna þess að ég hef ekki heyrt annan alþýðuflokksmann tala en hv. 4. þm. Reykn. sem hefur bara talað sem þm. en ekki fyrir hönd flokksins síns.

En hvað er að ske? Hvað er að ske þegar stjfrv. er svona augljóslega í minni hluta? Og hv. 4. þm. Reykn., fyrrv. formaður Alþfl. og einn af virtustu þm. hans, segir í ræðu úr þessum stól fyrir nokkrum mínútum að þm. tali út og suður vegna þess að kosningar séu að nálgast. Þetta voru upplýsingar sem eru nýjar fyrir mig. Ég vildi gjarnan heyra meira um þetta atriði frá hv. stjórnarliði og ég tala nú ekki um ef það væri hægt að fá hæstv. forsrh. til að hafna þessum ummælum eða að staðfesta þau. Þingheimur þarf að fá að vita ef kosningar eru svona nálægt. Og ég vil þá spyrja aftur úr því að ég er farinn að spyrja hæstv. forsrh.: Hvað skeður ef þetta stjfrv. fellur? Skeður eitthvað eða skeður bara ekkert eins og vant er?

En ég vil sem sagt benda á að hér er um stjfrv. að ræða og þeir sem hafa tekið til máls hafa talað fyrir þann meiri hluta sem þarf til að fella frv. og þá er spennandi að sjá hvað er fram undan. Er það boðskapur Alþfl. að kosningar séu að nálgast eða er það bara eins og vant er frá degi til dags „business as usual“?