22.03.1988
Neðri deild: 72. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 6014 í B-deild Alþingistíðinda. (4087)

60. mál, iðnaðarlög

Guðrún Helgadóttir:

Herra forseti. Aðeins örfá orð vegna þeirrar umræðu sem hér hefur farið fram.

Það er alveg ljóst að hér er fyrst og fremst verið að þvinga samþykkt þessa frv. fram vegna fyrirtækisins Lýsis hf. sem stendur frammi fyrir því að hafa átt í viðræðum við fulltrúa erlends fyrirtækis um samstarfsverkefni varðandi framleiðslu lyfja. Það getur vel verið rétt hjá hv. 4. þm. Reykv. að þarna sé um gott og gilt verkefni að ræða, en þá má spyrja: Hvers vegna var þá ekki það afmarkaða mál lagt fyrir þingið og fengin samþykkt fyrir því án þess að farið væri að rjúka til að breyta allri löggjöfinni, iðnaðarlögunum sjálfum?

Ég vil minna á að ég veit ekki betur en nú sitji að störfum nefnd sem ríkisstjórnin skipaði til að vinna að löggjöf um aðild erlendra manna að íslenskri fjárfestingu. Að vísu, ef ég man rétt, átti stjórnarandstaðan engan fulltrúa að þessari nefnd. Ég hlýt því að spyrja hæstv. iðnrh. og bið hann nú að hlýða á mál mitt af alúð og virðingu, ég bið hæstv. ráðherra að svara þeirri spurningu minni: Hvers vegna var ekki beðið eftir skýrslu frá þeirri nefnd sem nú situr við að athuga hugsanlega löggjöf um aðild erlendra manna að íslenskri fjárfestingu eða eru þetta skilaboð frá þeirri nefnd sem stjórnarandstaðan á engan fulltrúa í ef ég man rétt? Er það skoðun þeirrar nefndar að það eigi að opna þetta eins og hér er lagt til?

Ég minni hv. 4. þm. Reykn. á að Íslendingar hafa mjög merka lyfjalöggjöf og eru þar mjög til fyrirmyndar öðrum þjóðum. Hér auglýsa menn ekki lyf og braska ekki með þau, a.m.k. ekki opinberlega, eins og aðra vöru sem er gert mjög miskunnarlaust í öðrum löndum. Ég mundi vilja vita áður en þetta samstarf Lýsis hf. og einhverrar lyfjaverksmiðju hefst að hvaða lögum yrði farið um meðferð þeirrar vöru sem þar kynni að verða framleidd. Ég held að allt þess háttar þurfi að athuga mjög vel.

Það kom mér líka mjög á óvart að heyra hv. 4. þm. Reykn. rugla saman að mínu viti annars vegar tæknilegum samskiptum um þekkingu og faglega kunnáttu og hins vegar beinni fjárhagslegri aðild. Þetta tvennt er auðvitað alls ekki eitt og það sama. Og ég held að það sé enginn hræðsluáróður, eins og mig minnir hann kalla það, að óttast um hvað verður um þann vísi að iðnaði sem við höfum ef við hleypum erlendu fjármagni inn í hann og iðnrh. hverju sinni, frjálslyndum stundum í fjármálum svo að ekki sé meira sagt, sé fengið í hendur að stjórna því einum og sjálfum hverju er hleypt hér inn.

Maður kynni að spyrja: Er ekki verslunin næst? Það kynni nú að vera að kaupmenn landsins væru orðnir þreyttir á því að þurfa að fara til okurlánara til þess að þurfa að leysa út vörur á hafnarbakkanum hér og borga af því að sjálfsögðu himinháa vexti. Þægilegra kynni að vera að fá erlend stórfyrirtæki með vöruna beint heim í verslun.

Ég held að það sé enginn hræðsluáróður þó að hv. þm. séu sumir hverjir mjög uggandi um þá að manni sýnist óhindruðu heimild sem hér er lögð til. Ég reyndi að kynna mér allrækilega nál. sem hv. 5. þm. Reykv. og hans menn standa nú að. Ég vil hins vegar skjóta því að honum að hann hefur heldur betur skipt um skoðun vegna þess að þegar iðnaðarlögunum var breytt 1978, í tíð þeirrar ríkisstjórnar sem við bæði studdum þá, setti hann sig ekki á móti því að það ákvæði sem hér er lagt til að komi inn yrði fellt niður. (Gripið fram í.) Ja, þögn er sama og samþykki, stendur einhvers staðar, og alla vega mótmælti hv. þm. ekki þá. Honum var þetta ekki meira mál en svo að hann sá ekki ástæðu til að greiða mótatkvæði.

Í nál. því sem þeir hafa undirritað í báðum deildum, borgaraflokksmenn, eru ákaflega óljós atriði sem þeir leggja báðir áherslu á og ég hreinlega skil ekki og því síður treysti. Hér er t.d. sagt, með leyfi forseta:

„Nefndin áréttar það sem fram kemur í grg. með frv. að orðalagið „enda standi sérstaklega á“ skuli skýra þröngt og gildi fyrst og fremst um samstarfsfélög innlendra og erlendra aðila er vinna að nýsköpun.“

Þetta er ég nú hrædd um að megi teygja á 20 vegina. Í fyrsta lagi getur það verið skilgreiningaratriði hvað er nýsköpun og því meira skilgreiningaratriði er hvenær stendur sérstaklega á. Ég held að lögspekingar þjóðarinnar fyrr og seinna yrðu í meiri háttar vandræðum að komast að niðurstöðu um þetta.

Síðan segir í annarri athugasemd þeirra, með leyfi forseta: „Heimildarákvæði þetta nær fyrst og fremst til smærri eða meðalstórra fyrirtækja. Varðandi samning um stóriðju er gert ráð fyrir að sérstök lagasetning þurfi að koma til auk lánsfjárheimilda.“

Gott og vel. En hver á að skilgreina hvað eru smærri eða meðalstór fyrirtæki?

Síðan segir í fjórðu athugasemd þeirra meirihlutamanna í hv. iðnn.: „Jafnframt verði tryggt“ — og þetta er meira að segja skáletrað - „að erlendir aðilar nái ekki tökum á náttúruauðlindum lands og sjávar eins og skýrt er tekið fram í starfsáætlun ríkisstjórnarinnar.“

Er það gulltryggt að erlendu fjármagni yrði ekki veitt í meiri hluta t.d. inn í nýsköpun í fiskiðnaði? Ég treysti því ekki og lái mér hver sem vill. Meðan ég á sæti hér á hinu háa Alþingi geri ég þá kröfu að ég fái að fylgjast með og hafa áhrif á hvaða erlendu fjármagni, hvaðan, hvenær og til hvers er hleypt inn í íslenskt efnahagslíf á þennan hátt.

Ég vil svo að lokum ítreka spurningu mína til hæstv. iðnrh.: Hvað er nefndin sem ríkisstjórnin skipaði að gera sem átti að huga að aðild erlendra manna að íslenskri fjárfestingu, hvað hefur hún verið að gera? Hvað er langt í að hún skili skýrslu? Hefur hún e.t.v. skilað henni? Það kann vel að vera að það hafi farið fram hjá mér. Er þetta frv. flutt, þessi þáttur þess verkefnis sem þeirri nefnd var falið nú fluttur til samþykktar með leyfi nefndarinnar? Ég bið hæstv. ráðherra að rifja upp hvort sú nefnd sitji enn að störfum sem stjórnarandstöðunni var raunar ekki hleypt að.