03.11.1987
Sameinað þing: 11. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 593 í B-deild Alþingistíðinda. (409)

56. mál, leigutekjur af flugvél Landhelgisgæslunnar

Fyrirspyrjandi (Skúli Alexandersson):

Herra forseti. Á 108. löggjafarþinginu spurðum við, ég ásamt Guðrúnu Helgadóttur og Karvel Pálmasyni, þáv. dómsmrh. Jón Helgason um nokkra liði í sambandi við flugrekstur Landhelgisgæslunnar. Það voru reyndar tíu liðir sem við spurðum um og fengum skriflegt svar ráðherra við fsp. okkar. Þrír af þessum liðum snertu beint hugsanlegar tekjur og hagnað sem Landhelgisgæslan gæti haft af leigu TFSYN til Flugleiða.

Fyrsta spurningin sem þetta mál snertir var á þessa leið, með leyfi forseta: „Hvaða ný tæki og búnaður verða sett í TF-SYN? Á hvers vegum verða þau sett í vélina og hvað munu þau kosta?"

Ráðherra svaraði þessari fsp. okkar á þennan veg: „Viðhaldsdeild Flugleiða er nú að framkvæma tíu ára skoðun á TF-SYN og er innifalin í því verki ísetning miðunarloftnets og hljóðnema, svonefnds svarts kassa. Tækja þessara hafði Landhelgisgæslan þegar aflað sér til ísetningar í flugvélina við þetta tækifæri og er hún því óháð leigu vélarinnar til Flugleiða. Á sama tíma verður settur í flugvélina jarðvari sem Flugleiðir leggja til. Kostnaður þessa tækis með ísetningu mun vera yfir 20 þús. bandaríkjadalir. Það er einnig í athugun ísetning á radartæki sem e.t.v. fæst að láni frá Kaupmannahafnarháskóla vegna áhuga þeirrar stofnunar á ísflugi norður af Íslandi. Ef úr því verður mun þetta tæki auka verulega á hæfni flugvélarinnar til eftirlits og leitarflugs.“

Á annan veg spurðum við: „Að hvaða leyti er leigusamningur við Flugleiðir hf. hagstæður fyrir Landhelgisgæsluna?"

Svar hæstv. ráðherra var á þennan veg: „Leigusamningurinn við Flugleiðir gerir Landhelgisgæslunni mögulegt að endurbæta þyrlukost sinn sem mun gera henni kleift að beita þeirri þjónustu í sjúkra- og leitarflugi með þyrlum á sjó og landi.“

Og í þriðja lagi spurðum við ráðherra viðvíkjandi þessari leigu: „Hvaðan kemur það fjármagn sem á milligjöfina vantar til viðbótar við söluverð TFGRO?"

Og ráðherra svaraði: „Heimild til þyrluskiptanna var veitt að því tilskildu að eigi kæmi til sérstakrar fjárveitingar af því tilefni heldur yrði mismunur á verði þyrlanna fenginn af fjárveitingu yfirstandandi árs með tilfærslu á verkefnum eða með ráðstöfun eigin tekna. Fjármagn til greiðslu á milligjöf til viðbótar söluverði TF-GRO er væntanlega leigutekjur af TF-SYN og andvirði seldra varahluta úr eldri þyrlum, TF-GNÁ og TF-RÁN. Andvirði þeirra varahluta sem þegar hafa verið seldir nemur um 40 þús. bandaríkjadölum.“

Svör þessara þriggja liða eru tilefni þeirra tveggja spurninga sem ég leyfi mér að beina til hæstv. dómsmrh., en mínar spurningar eru þannig:

„1. Hvað hafa Flugleiðir hf. greitt á árinu 1986 og í ár fyrir afnot af TF-SYN, Fokker Friendship-flugvél Landhelgisgæslunnar?

2. Hafa þær leigutekjur verið notaðar til kaupa á nýjum og bættum tækjakosti í TF-SYN eða á öðrum tækjum fyrir Landhelgisgæsluna?"