22.03.1988
Neðri deild: 72. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 6022 í B-deild Alþingistíðinda. (4095)

293. mál, áfengislög

Frsm. meiri hl. allshn. (Ólafur G. Einarsson):

Herra forseti. Ég mæli fyrir áliti meiri hl. allshn. á frv. til laga um breytingu á áfengislögum, nr. 82 1969, með síðari breytingum.

Meirihlutaálitið er á þskj. 715. Undir það álit rita hinir sömu og voru flm. frv. nema hv. þm. Sighvatur Björgvinsson sem var ekki á þingi þegar allshn. afgreiddi málið. En varamaður hans, Björn Gíslason, ritar undir nál. auk mín og hv. þm. Jóns Kristjánssonar og Guðna Ágústssonar.

Minni hl., hv. þm. Friðjón Þórðarson, Geir Gunnarsson og Ólafur Gränz, hafa skilað sérstöku áliti.

Ég þarf ekki að bæta miklu við það sem ég sagði við 1. umr. um þetta mál. Þá fór ég yfir allar þær umsagnir sem borist höfðu um hið fyrra frv. um sama efni og áttu þær umsagnir jafnt við um þetta frv. Engar brtt. voru ræddar í nefndinni, enda ekki lagðar fram.

Herra forseti. Ég legg til að þetta frv. verði samþykkt eins og meiri hl. nefndarinnar leggur til.