22.03.1988
Neðri deild: 72. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 6031 í B-deild Alþingistíðinda. (4097)

293. mál, áfengislög

Forseti (Jón Kristjánsson):

Áður en tekið er til við umræðu um þetta mál vildi ég geta þess að ég hef hug á því að umræðu um þá dagskrá sem við erum með í höndunum fyrir daginn í dag geti lokið, 2. umr. um þetta mál og 1. umr. um Háskóla á Akureyri, fyrir kvöldmat svo að við getum komist hjá kvöldfundi. (AG: Var forseti að tilkynna utandagskrárumræðu?) Nei, ég var að kynna það að ég hef hug á að reyna að ljúka þeirri dagskrá sem við erum með í höndunum, 2. umr. um þetta mál og 1. umr. um Háskóla á Akureyri, fyrir kvöldmat. Það er nokkuð rúmur tími fram að kvöldmat og ég vonast til að við getum lokið þessu á þeim tíma. Það stendur yfir umræða um framhaldsskóla í Ed. sem menntmrh. er líka bundinn við. En ef þess þarf munum við ljúka þessum málum á kvöldfundi. Ég vona að til þess þurfi ekki að koma því að það er ekki löng mælendaskrá þó að maður geti aldrei spáð um það fyrir fram.