03.11.1987
Sameinað þing: 11. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 594 í B-deild Alþingistíðinda. (410)

56. mál, leigutekjur af flugvél Landhelgisgæslunnar

Dómsmálaráðherra (Jón Sigurðsson):

Hæstv. forseti. Fsp. sem hv. fyrirspyrjandi hefur beint til mín er tvíþætt. Í fyrsta lagi spyr hann: „Hvað hafa Flugleiðir greitt á árinu 1986 og á þessu ári fyrir afnot af TF-SYN, Fokker Friendship-flugvél Landhelgisgæslunnar?"

Ég get upplýst að leigugreiðslurnar frá Flugleiðum námu 6,7 millj. kr. á árinu 1986, en 750 þús. kr. það sem af er þessu ári eða samanlagt 7 millj. og 450 þús. kr.

Í öðru lagi spurði hv. fyrirspyrjandi: „Hafa leigutekjurnar verið notaðar til kaupa á nýjum og bættum tækjakosti í TF-SYN eða á öðrum tækjum fyrir Landhelgisgæsluna?"

Svarið er já. Áðurnefndum leigutekjum var að stærstum hluta varið til að greiða milligjöf vegna makaskipta á þyrlu af gerðinni Hughes 500-D og annarri af gerðinni AS 350-B sem er skrásett sem TF-GRÓ. Verðmunurinn á þessum tveimur þyrlum var 5,8 millj. kr. en aðalmunurinn á þeim er sá að hin nýja TF-GRÓ er burðarmeiri og getur flutt fjóra til fimm farþega eða tvo farþega og tvennar sjúkrabörur en sú eldri gat ekki flutt sjúkrabörur. Þá er nýja þyrlan með hreyfil af sömu gerð og er í stærri þyrlu Gæslunnar, TF-SlF, auk þess sem ýmis sérhönnuð verkfæri eru þau sömu fyrir báðar þyrlurnar og er að þessu augljóst hagræði.

Fyrir Fokkervélina TF-SYN voru keypt upptökutæki til skráningar á stjórn vélarinnar og fjarskiptum, svonefndur Flight Data Recorder og Voice Recorder, sem kostuðu 1,4 millj. kr. og er þá ekki meðtalinn kostnaðurinn við að setja þetta í vélina. Þannig má telja að samanlagt nemi þessi útgjöld ámóta fjárhæð og leigutekjurnar a.m.k.

Það hefur sýnt sig á undanförnum mánuðum og reyndar árum hversu flugvélakosturinn og þá ekki síst þyrlukostur Gæslunnar er mikilvægur fyrir björgunarstörf bæði á sjó og landi. Skemmst er að minnast giftusamlegrar björgunar uppi á Mýrum á laugardagskvöldið var og björgunar áhafnarinnar á Barða GK sem strandaði við Snæfellsnes í mars sl., en í báðum tilfellum voru aðstæður mjög erfiðar og þyrlurnar komu þar mjög vel til skjalanna.

Ég hef lagt áherslu á að tækjakostur Landhelgisgæslunnar verði bættur. Núna er verið að setja bógskrúfu á varðskipið Ægi og verið að athuga með hentuga ratsjá í TF-SYN til leitar á sjó. Einnig er unnið að því að bæta aðstöðu Landhelgisgæslunnar á Reykjavíkurflugvelli. Þar er næst á dagskrá að bæta aðstöðu flugmannanna, en flugskýlið þar sem viðhald og viðgerðarþjónusta fer fram er nú að komast í viðunandi horf.

Fsp. sem hér er á dagskrá gefur tilefni til að velta því fyrir sér hvort það sé leið að fjármagna tækjakost Gæslunnar að einhverju leyti með leigu á tækjum hennar, þ.e. flugvélum eða skipum. Að meginstefnu tel ég að þessa leið eigi ekki að nota. Hins vegar geta komið þau undantekningartilfelli að nauðsynlegt sé að Landhelgisgæslan taki að sér verkefni sem aðrir aðilar hérlendis geta ekki leyst af hendi, t.d. þegar svo stendur á að samgöngulaust verður vegna tækjabrests. Í þeim tilfellum þarf þó jafnan að vera tryggt að Landhelgisgæslan geti engu að síður fyrirvaralaust sinnt öllum brýnum verkefnum, ekki síst leitar- og björgunarflugi.