03.11.1987
Sameinað þing: 11. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 595 í B-deild Alþingistíðinda. (411)

56. mál, leigutekjur af flugvél Landhelgisgæslunnar

Fyrirspyrjandi (Skúli Alexandersson):

Herra forseti. Ég þakka hæstv. dómsmrh. fyrir svarið og þakka honum líka fyrir að hann skuli hafa lýst hér áhuga sínum á því að endurbæta og auka tækjakost Landhelgisgæslunnar. Ég tek undir orð hans um hvað þyrlan okkar hefur verið farsælt björgunartæki nú fyrir nokkrum dögum og ekki síður þegar henni tókst við mjög erfiðar aðstæður að bjarga heilli skipshöfn undan Snæfellsnesi í vor.

Svo þakka ég honum einnig fyrir þær upplýsingar sem hann gaf um tekjur af leigu TF-SYN. Mér finnst, þó ég hafi ekki beinar tölur til þess að bera saman, að út úr leigunni hafi ekki komið eins mikið og búist var við þegar þessi leiga var ákveðin. Það kemur m.a. fram í því að þau tæki sem átti að setja og talað var um að sett yrðu í TF-SYN eru ekki komin þangað enn þá. Þetta fjármagn hefur rétt dugað til að leysa erfiðustu vandamálin í kringum þyrlukaupin eins og þegar var áformað í upphafi. Eitt af því sem fyrrv. ráðherra nefndi að gert mundi verða við TF-SYN var að settur mundi verða í hana radar, þó að hann yrði fengin að láni frá Kaupmannahafnarháskóla, en samkvæmt upplýsingum ráðherra nú er þessi radar ekki í vélina kominn enn.

Ég vil undirstrika það, sem hér kom fram í umræðum þegar var verið að leigja TF-SYN, að mér finnst mjög vafasamt, og fagna því að ráðherra hafi tekið undir það líka, að leigja tæki Landhelgisgæslunnar, jafnvel þó í boði sé sæmileg leiga, nema til að þjóna einhverjum sérstökum tilfellum. Við verðum að vera menn til þess að skaffa Landhelgisgæslunni tekjur á annan máta en þann að nota tæki hennar til að afla stofnuninni tekna.