23.03.1988
Efri deild: 74. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 6067 í B-deild Alþingistíðinda. (4115)

382. mál, fóstureyðingar

Sólveig Pétursdóttir:

Hæstv. forseti. Frv. sem hér liggur fyrir fjallar um afskaplega viðkvæmt mál, þ.e. fóstureyðingar, og þær tölur um fjölda þeirra sem fram koma í grg. eru aldeilis uggvænlegar og er því e.t.v. aðgerða þörf.

Mig langar til þess að rifja hér aðeins upp sögulegan aðdraganda að setningu núgildandi laga nr. 25/1975. Um það er einnig fjallað á bls. 4 í grg. með þessu frv.

Hinn 5. mars 1970 skipaði þáv. heilbr.- og trmrh. Eggert Þorsteinsson nefnd til endurskoðunar laga um fóstureyðingar, afkynjanir og vananir. Í nóv. 1971 lagði Bjarni Guðnason fram á Alþingi till. til þál. um fóstureyðingar sem fjallaði m.a. um réttindi konunnar til sjálfsákvörðunar og um nauðsyn þess að löggjöf um fóstureyðingar á þeim tíma hnigi meir í frjálsræðisátt en þá var. Nefndin fékk tillöguna til umsagnar og skýrði hún frá starfi sínu og jákvæðri afstöðu. Nefndin taldi mjög mikilvægt að kanna hvernig núgildandi löggjöf, þ.e. frá 1935, hefði reynst í framkvæmd.

Þegar nefndin hóf störf var því ákveðið að framkvæma eftirrannsókn á fæðingardeild Landspítalans með því að hafa viðtöl við konur sem framkallað hafði verið fósturlát hjá á vissu árabili. Var sú rannsókn framkvæmd á árunum 1971–1972. Nefndin styðst mjög mikið við þessa rannsókn ásamt fleiri gögnum, þar með talinni ítarlegri athugun á erlendri löggjöf á þessu sviði og reynslu annarra þjóða, bæði frá læknisfræðilegu og félagslegu sjónarmiði. Í þessu sambandi má geta þess að Ísland var fyrsta landið í heiminum þar sem innleitt var hugtakið „medical social indication“ því að strax árið 1935 segir í löggjöfinni að við mat á hver hætta sé búin heilsu móður skuli tekið tillit til margra og þéttra fæðinga, erfiðra heimilisaðstæðna, ómegðar á heimili, fjárhagsörðugleika eða heilsuleysis og veikinda annarra í fjölskyldunni. Hin Norðurlöndin sigldu svo í kjölfarið með svipuðu ákvæði.

Fyrir setningu þessara laga voru ekki til nein lagaákvæði sem heimiluðu læknum fóstureyðingar jafnvel þótt líf eða heilsu konunnar væri hætta búin af barnsburði. Þótt engin sérákvæði væri að finna í lögum var það samt sem áður almennt viðurkennt að læknum væri heimilt og skylt að framkvæma þessa aðgerð í lífsnauðsyn mæðranna. Var þar stuðst við kenninguna um svokallaðan neyðarrétt. Það yrði of viðamikið að gera hér grein fyrir öllum þeim sjónarmiðum sem nefndin styðst við, en segja má að tillögur hennar hafi mótast af því grundvallarsjónarmiði að brýn nauðsyn sé í fyrsta lagi að gefa öllum kost á ráðgjöf og fræðslu um kynlíf og barneignir og ábyrgð foreldrahlutverks, í öðru lagi að veita öllum fræðslu og ráðgjöf um notkun getnaðarvarna og útvegun þeirra, í þriðja lagi að veita aðstoð þeim sem íhuga fóstureyðingu eða ófrjósemisaðgerð og í fjórða lagi að auka félagslega aðstoð í sambandi við þungun og barnsburð. Enn fremur leggur nefndin höfuðáherslu á nauðsyn þess að fyrirbyggja ótímabæra þungun sem leiðir til þess að farið sé fram á fóstureyðingu. Það er því ljóst að það hefur verið vandað til þessarar löggjafar og raunar sýnist mér að efnislega sé hér um sömu atriði að ræða og í því frv. er hér liggur fyrir, sérstaklega varðandi ráðgjöf og fræðslu.

En hv. flm. verða að hafa það í huga að kona leitar í langflestum tilvikum eftir fóstureyðingu vegna þess að hún er nauðbeygð til. Þó er hægt með hliðsjón af þeim tölum sem hér liggja fyrir að láta sér detta það í hug að kæruleysi um notkun getnaðarvarna hafi einhver áhrif á fjölda fóstureyðinga og er það miður. Ég get því verið sammála hv. flm. um það að fóstureyðing megi ekki koma í stað getnaðarvarna og að aukinnar fræðslu er þörf. Spurning er hins vegar hvort þörf sé þessarar lagabreytingar.

Það er einkum tvennt að mínu mati sem taka þyrfti til athugunar í núgildandi löggjöf. Í fyrsta lagi er það 1. liður 9. gr. laga nr. 25/1975, um félagslegar ástæður, en þessi grein hljóðar svo, með leyfi virðulegs forseta:

„Þegar ætla má að þungun og tilkoma barns verði konunni og hennar nánustu of erfið vegna óviðráðanlegra félagslegra aðstæðna. Við slíkar aðstæður skal tekið tillit til eftirfarandi:

a. Hafi konan alið mörg börn með stuttu millibili og skammt er liðið frá síðasta barnsburði.

b. Eigi konan við að búa bágar heimilisástæður vegna ómegðar eða alvarlegs heilsuleysis annarra á heimilinu.

c. Þegar konan getur ekki vegna æsku og þroskaleysis annast barnið á fullnægjandi hátt.

d. Annarra ástæðna séu þær fyllilega sambærilegar við ofangreindar aðstæður.“

Það er einkum þessi d-liður, þetta heimildarákvæði, sem hefur vakið nokkrar deilur. Þetta ákvæði er ekkert nánar skilgreint og gefur því tilefni til rúmrar túlkunar. Það er því spurning hvort það mætti ekki skilgreina nánar. Það má raunar hugsa sér að það sé vafasamt að löggjafinn hafi ætlað svo frjálslega túlkun sem stundum virðist raunin á.

Í öðru lagi, um núgildandi löggjöf, er það 28. gr. um þá áfrýjunarnefnd sem sker úr um ágreining ef fóstureyðingu hefur verið synjað. Þar segir í 3. mgr.:

„Skal nefndinni búin starfsaðstaða og henni jafnframt tryggður aðgangur að þeirri sérfræðiþjónustu sem þurfa þykir til að leysa þau verkefni sem nefndinni berast.“

Ég tek þetta ákvæði hér með vegna þess að ég tel ástæðu til þess þrátt fyrir það að þetta frv. mun ekki breyta þessu ákvæði. Þetta ákvæði hefur ekki komist til framkvæmda. Vafalaust hefur aldrei verið ætlað fé til þess. Þessi aðstaða er t.d. ekki fyrir hendi og það er enginn vafi um það í mínum huga að þessi nefnd gæti sinnt starfi sínu mun betur ef aðstaða væri fyrir hendi og starfað í nánum tengslum við landlæknisembættið sem er þá svipað því sem farið er fram á í þessu frv. sem hér liggur fyrir um hlutverk landlæknis í þessu sambandi.

Ég ætla ekki að hafa langt mál að sinni um þetta frv. í sjálfu sér, en það eru þó ýmsar spurningar sem vakna, sérstaklega þegar grg. er lesin, og langar mig þá einkum til þess að benda á bls. 6. Þar er fyrirsögn að kafla sem er þannig: „Auðkenni þeirra kvenna er gangast undir fóstureyðingu.“ Þessi fyrirsögn finnst mér ekki vel orðuð og ég mælist til þess að hv. flm. breyti henni á þann hátt að ekki særi tilfinningar þeirra kvenna sem nauðbeygðar eru til að leita eftir fóstureyðingu þannig að þær verði ekki dregnar í dilka af neyð sinni með einhverju auðkenna- eða einkennatali.

Það er enn fremur á bls. 9. Þar kemur fram neðarlega tilgangur frv., að hann sé ekki að leysa úr félagslegum vandamálum, heldur að sníða löggjöfina þannig að allt mannlegt líf sé friðheilagt og að verja börn á hvaða stigi lífsins sem þau eru. En þar segir orðrétt, með leyfi virðulegs forseta:

„Frv. byggist á því að þjóðfélagið viðurkenni að líf hafi kviknað við getnað - og að það líf sé aðeins eign barnsins eða fóstursins. Litið er þannig á að barnið í móðurlífi sé frá getnaði lifandi einstaklingur, ólíkur öllum öðrum sem fyrr og síðar munu dveljast hér og líta dagsins ljós.“

Þetta atriði að líf hafi kviknað við getnað getur e.t.v. valdið nokkrum erfiðleikum, sérstaklega lagalega séð. Það er hægt að hugsa sér að það gæti skapast e.t.v. erfðaréttur frá föður. Samkvæmt skilgreiningu erfðaréttar verður barn að fæðast lifandi. Síðan er spurningin um glasabörnin. Hvenær hefst líf þeirra? Síðan er líka talað um eignarrétt barnsins og að barnið eigi sig sjálft. Þá má velta fyrir sér þessu: Ef enginn á barnið, hvað gerist þá? Fellur niður framfærsluskylda foreldra o.s.frv.? Þetta eru atriði sem ég vildi benda á.

Það er líka ofarlega á bls. 10 í 1. mgr.: „Kjarninn í frv. er sá að konunni er frjálst að haga sér eins og samviska hennar býður meðan sú háttsemi skaðar ekki mannréttindi annarra.“ Ég verð að viðurkenna það að ég er ekki alveg sátt við þessa setningu. Mér finnst t.d. vanta alla umræðu um karlmanninn eða föðurinn í þessari grg. Ber hann enga ábyrgð? Hvað með hans samvisku? Er það einungis samviska konunnar sem á að ráða? Í þessu sambandi vildi ég minna á það að samkvæmt núgildandi lögum, nánar tilgreint 4. tölul. 13. gr., á maðurinn að taka þátt í umsókn konunnar um fóstureyðingu nema sérstakar ástæður mæli gegn því. Fleiri atriði mætti e.t.v. nefna hér, en ég mun sleppa því að sinni, enda einungis um 1. umr. að ræða.

Virðulegi forseti. Það er ekki ætlun hv. flm. að leggja dóm á núverandi framkvæmd né fullyrða hvort farið hafi verið eftir lögunum, sbr. bls. 9 í grg. Það ætla ég heldur ekki að gera hér og nú. Ég ætla að það frv. sem hér liggur fyrir feli í sér það miklar breytingar frá núgildandi löggjöf að það þurfi meiri umræðu við og nánari skoðun. Ef þetta frv. verður hins vegar til þess að vekja upp umræður og hafi þau áhrif að fóstureyðingum fækkar er það vel. Það má rökstyðja á margan hátt og við verðum öll að taka höndum saman í þessu efni. Það er samfélagsleg skylda okkar.