03.11.1987
Sameinað þing: 11. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 596 í B-deild Alþingistíðinda. (412)

58. mál, Kópavogshælið

Steingrímur J. Sigfússon:

Herra forseti. Ég hef leyft mér að leggja fyrir hæstv. heilbrmrh. fsp. um framtíð Kópavogshælis. Helstu ástæður þessarar fsp. eru þær að umræður hafa orðið um framtíð hælisins, sérstaklega á þingi Þroskahjálpar sem nýverið samþykkti ályktun að því lútandi að gerbreyta og nánast leggja niður starfsemi í núverandi mynd á Kópavogshælinu og byggja þá þjónustu upp annars staðar og með öðrum hætti.

Nú er það svo að í gangi hefur verið á Kópavogshælinu áætlun um fækkun vistmanna og uppbyggingu og endurbætur á aðstöðunni sem þar er. Stjórnendur stofnunarinnar hafa unnið samkvæmt þess konar ályktun og nýlegri samþykkt um skipulag Kópavogshælisins þar að lútandi. Þessi stefnumörkun, sem unnið hefur verið eftir, gengur í raun til sömu áttar, þ.e. að fækka vistmönnum, og er í samræmi við þá miklu áherslu sem nú er lögð á að fötluðum sé ekki safnað saman á stórar stofnanir heldur reynt að aðstoða þá í heimahúsum eða búa þeim athvarf á litlum sambýlum eða annað af því taginu. Ég held að út af fyrir sig sé engin deila um þessa stefnu. Hún er ríkjandi og ræður ferðinni í dag, en að hinu hljóta menn að spyrja hvort og þá í hve miklum mæli verði eftir sem áður þörf fyrir stofnun af tagi Kópavogshælisins þar sem vandi þeirra sem verst eru staddir er leystur.

Ég vil einnig sérstaklega taka fram að hvað varðar afstöðu ríkisspítalanna liggur fyrir að þó svo að dregið yrði úr þjónustu fatlaðra á Kópavogshæli er brýn þörf fyrir allt það húsnæði sem þar mundi losna fyrir aðra starfsemi ríkisspítalanna, svo sem þjónustu á sviði aldraðra. Sú starfsemi, sem ríkisspítalarnir inna af hendi á því sviði, er nú í leiguhúsnæði sem þegar hefur reyndar verið sagt upp.

Ég tel því að það komi ekki til greina og það eigi ekki að ræða þessi mál með það í huga að þó að húsnæði eða aðstaða losnaði á Kópavogshæli yrði það selt eða tekið undir annað. Ég tel að sú stofnun sem þar stjórnar málum í dag, stjórnarnefnd ríkisspítalanna, hafi nóg verkefni fyrir það húsnæði og þar af leiðandi eigi ekki að ræða málin með þeim hætti.

En ég tel nauðsynlegt í öllu falli að hæstv. heilbrmrh. lýsi sinni stefnu varðandi framtíð Kópavogshælisins. Það er nauðsynlegt fyrir starfsfólk og stjórnendur að vita hver er hin eiginlega stefna heilbrigðisyfirvalda hvað framtíðina varðar. Það er einnig mjög nauðsynlegt fyrir stjórnendur ríkisspítala og fjárveitingavald Alþingis sem þarf að taka afstöðu til þess hve miklum fjármunum skal veitt og hvernig þeim fjármunum verður ráðstafað sem renna skulu til Kópavogshælisins á næstunni.