23.03.1988
Neðri deild: 73. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 6073 í B-deild Alþingistíðinda. (4126)

Frumvarp til áfengislaga

Árni Gunnarsson:

Herra forseti. Ég verð að taka undir andmæli hv. þm. Alberts Guðmundssonar við frestun á þessari atkvæðagreiðslu. Þegar umræðu lauk hér í gær um það mál sem er núna 3. dagskrármálið var fastlega ráð gert fyrir því að atkvæðagreiðslan færi fram í upphafi þingfundar hér í dag. Ég vil auk þess benda á að miðvikudagur er reglulegur þingflokkafundadagur og þó einhverjir menn hafi lögmætar afsakanir fyrir því að koma ekki til þingfundar í byrjun fundar eru aðrir sem kunna að hafa lögmætar afsakanir fyrir því að geta ekki verið hér eftir kl. 5 í dag. Þetta gildir t.d. um þann þingmann sem hér er einfaldlega vegna þess að hann hefur boðað opinn almennan fund norður á Akureyri í kvöld og þarf að ná í flugvél. Ég andmæli því mjög ákveðið að þessari atkvæðagreiðslu skuli vera frestað á þennan hátt.